Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Dagur í lífi þingmanns

12. janúar 2016 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Laxamýri

Átti þess kost í dag að heimsækja nokkur fyrirtæki í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu með Óla og Sif sem eru bæjarfulltrúar í Norðurþingi og Sigurði bónda á Skarðaborg. Veðrið var bjart og fallegt en töluverð hálka á leiðinni. Ég var komin austur um kl. 13 og fyrsta stoppið var hjá Norðurlaxi en þar tók stöðvastjórinn Jón Helgi á móti okkur og fræddi um starfsemina. Starfsemin hófst árið 1972 og er á Laxamýri en einnig á Húsavík. Um er að ræða seiðaeldi sem síðan er sleppt í helstu laxveiðiár landsins. Þeir framleiða líka regnbogasilung sem seldur er á innanlandsmarkaði.

Fjallasýn

Næsta stopp var hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Fjallasýn Rúnars Óskarssonar sem er fjölskyldufyrirtæki. Þar er boðið uppá skoðunarferðir, skipulagðar bæði fyrir litla og stóra hópa, skoðunar, fræðslu eða hvataferðir bara hvað þér dettur í hug. Fyrirtækið sér einnig um skólaakstur, ferðaþjónustu fyrir fatlaða og ýmislegt annað. Nýjasta er samstarf í tengingu við beint flug frá Egilsstöðum til London.

Hveravellir

Þá var komið að Hveravöllum þar tók Páll Ólafsson, garðyrkjubóndi á móti okkur en hann er fjórði ættliðurinn sem þar ræktar grænmeti. Þar var fyrsta gróðurhúsið byggt árið 1933 og tómatarækt hafin enda afar mikill jarðhiti. Nú eru húsin á annan tuginn og ræktunin samanstendur af nokkrum gerðum af tómötum, gúrkum og paprikum. Þetta er mikið nostur og handavinna en tómatarnir eru tíndir þrisvar í viku en gúrkur tvisvar á dag alla daga vikunnar og paprikan tvisvar í viku. Síðan er allt flokkað eftir kúnstarinnar reglum og pakkað í neytendaumbúðir.
Það kom mér mikið á óvart að heyra að gúrkan vaxi svo hratt sem raun ber vitni en undir lok vaxtartímans þyngist hún um ca. 60-70 gr. þ.e. síðasta sólahringinn. Smakkaði heilsutómat sem var algert lostæti og hvet auðvitað alla til að kaupa þetta grænmeti frá Hveravöllum.

Sögin

Næst lá leið okkar til Gulla í Söginni sem er fjölskyldufyrirtæki í hans eigu að mestu og Trésmiðjunnar Reinar sem líka er í Reykjahverfi. Sögin framleiðir m.a. loft-og gólflista, þröskulda og ýmislegt fleira úr gegnheilum harðiviði og sérvalinni furu. Innflutningur er líka stór hluti af starfseminni sérstaklega vörur úr harðviði. Ekki ólíklegt að nýjungar á borð við parket úr íslenskri furu frá Söginni eigi eftir að prýða gólf landsmanna.

Litlu - Reykir

Hinu megin við veginn er bærinn Litlu- Reykir þar sem Ómar og Ester tóku á móti okkur, ásamt Valþóri syni sínum, en þau reystu í lok árs 2013 tæplega 600 fermetra lausagöngufjós með 56 legubásum og mjaltabás sem léttir nú verkin heldur betur. Synir þeirra Ómars og Esterar smíðuðu svo stíur fyrir kvígurnar og kálfauppeldið. Stórhuga fjölskylda þar á ferð.

Skarðaborg

Daginn endaði ég svo á Skarðaborg í dýrindis kaffiveislu hjá Sigga bónda og Helgu konu hans. Þau hafa endurnýjað og innréttað gamalt fjós sem er vottað til matvælaframleiðslu. Þar fæst besta hangikjöt sem ég hef smakkað og hvet ég ykkur til að prófa það. Þau selja að sjálfsögðu lambakjötið í hinum ýmsu útfærslum og hjá þeim er alltaf opið. Hvet ykkur til að kíkja á facebookið þeirra Skarðaborg – Matvinnsla. Ég var svo leyst út með kjötmeti í poka sem sett verður í potta á morgun.
Lagði af stað heim á leið undir kvöldmat eftir frábæran dag. Heimferðin örlítið seinfarnari enda farið að snjóa töluvert og hvessa ofaná alla hálkuna á hluta leiðarinnar en heim komst ég enda eins og máltækið segir „kemst þó hægt fari“.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).