Á lokadögum þings - um forgangsröðun í fjárlögum
Það er af mörgu að taka og þegar maður horfir aðeins yfir umræðu undanfarinna daga og viðbrögð fer maður óneitanlega að horfa í pólitíkina, heimsmetin og ágæti forustusauða ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Eilífur misskilningur virðist einkenna málflutning allra, sérstaklega þá sem eitthvert samtal vilja eiga við hæstv. forsætisráðherra eða skrifa um það sem þeim þykir athugunarvert, bæði í fjárlagagerðinni og öðru. Fólk er kjánar, barnalegt eða eitthvað slíkt eða þá það er að væla og forustumenn meiri hluta fjárlaganefndar tala um popúlíska framkomu.
Auðvitað er ekki í lagi að standa í átökum við forstöðumenn sem eru að berjast fyrir stofnunum sínum, um að þær hafi það hreinlega af. Við erum að tala um fangelsismálastjóra, forstjóra Landspítalans og fleiri sem hæstv. forsætisráðherra uppnefnir nú, kallar toppara þó að fólk hafi talað um að hann væri kannski að lýsa sjálfum sér fremur en einhverjum öðrum.
Það er vert að minnast þess þegar fólk er að tala um hvað það er að gera núna og hversu ótrúlega mikla fjármuni er verið að veita í stofnanir að það er ekki sett í nokkurt samhengi, það er eins og fólk átti sig ekki á því hver staðan var hér 2009 þegar Landspítalinn var nánast gjaldþrota. Við Íslendingar vorum ekki með efnahagslegt sjálfstæði, það var að minnsta kosti á mörkunum, og Landspítalinn átti ekki fyrir launum eða lyfjum en allir tóku samt þátt í því að rétta samfélagið við. Það sem við Vinstri græn sögðum var að þegar að því kæmi að hagur færi að vænkast mundum við rétta hlut þeirra sem lakast stæðu, m.a. fyrir það að hafa þurft að taka þátt í því að rétta við þjóðarskútuna.
Það virðist vera sundrung í ríkisstjórninni. Fá mál koma fram. Það er ekki sameiginleg sýn stjórnarflokkanna um hvaða ríkisfyrirtæki á að selja eða hvort yfir höfuð á að selja þau, t.d. Landsbankann, þó að það sé samt sem áður sett inn í fjárlögin. Auknir fjármunir eru settir í aðstoðarfólk, ráðgjöf og eitthvað slíkt þannig að ýmislegt hefur komið betur og betur í ljós. Ég hef töluverðar áhyggjur af ríkissjóði þessa dagana þar sem frumjöfnuðurinn er ekki að aukast eins og hæstv. ráðherra heldur fram og kemur fram í fyrri hluta fjárlaganna, Stefna og horfur, sem er í rauninni plaggið sem undir er í fjárlögum hverju sinni, og ráðherrann er nú að hluta til að afneita.
Við í stjórnarandstöðunni höfum komið fram með sameiginlega tillögu sem stjórnarflokkarnir hafa talað um að væri ábyrgðarlaus, við séum bara að yfirbjóða. Það er hreint ekki svo enda höfum við lagt fram tillögur til aukinnar tekjuöflunar sem stenst og það er mikilvægt að halda því til haga.
Minnkandi samneysla
Það er einnig mikilvægt að halda því til haga að þetta snýst ekki um það, eins og einn góður maður sagði, að stemma bara kassann af í lok dags. Þetta snýst um að sinna þeim samfélagslegu kvöðum sem okkur ber skylda til að sinna samkvæmt stjórnarskrá og öðrum lögum sem við lútum þannig að öll verkefni séu undir en ekki bara sum. Við höfum gagnrýnt niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar enda töluvert verið að skera niður, sem kemur meðal annars fram á bls. 92 og 93 í Stefnur og horfur, þar sem farið er yfir frumgjöldin án óreglulegra liða og svo útgjaldaþróunina sem er vert að horfa á. Það er pólitísk stefna að hafa samneysluna minni og hún skerðist um í kringum 40 milljarða fram til ársins 2019 ef fram heldur sem horfir og sú áætlun sem hér er undir stenst. Það þýðir að niðurskurðurinn, miðað við núverandi verðlag og landsframleiðslu frá því fyrir hrun, er kominn niður um u.þ.b. 60–70 milljarða í samneyslu- og velferðarmál.
Öryrkjar og aldraðir
Að lokum mál málanna og við höfum rætt töluvert hér, málefni þeirra sem miklu minna hafa á milli handanna, í ljósi viðtals við hæstv. fjármálaráðherra um helgina og orða hæstv. ráðherra hér áðan þegar hann svaraði fyrirspurn. Hann segir að okkur hafi meðal annars mistekist í heilbrigðiskerfinu að styðja til nýrrar virkni unga karlmenn sem eru að festast utan vinnumarkaðar og hafa dottið úr námi eða hrakist úr vinnu og endað á örorkubótum. Það er rétt, ríkisstjórnin hefur ekki sinnt því sem skyldi. Þessir menn þurfa kannski sálgæslu eða einhvern annan stuðning en það er búið að skerða menntakerfið þannig að þessir menn, af því að ráðherrann talaði um menn, komast ekki inn í nám alls staðar á landinu þegar þeir eru orðnir 25 ára o.s.frv. Þetta snýr líka að konum sem misstu atvinnuna eftir hrunið á miðjum aldri og atvinnulífið vill þær ekki, alveg eins og atvinnulífið hefur takmarkaðan áhuga á að fá öryrkja til að vinna hlutastörf. Það er bara þannig. Því miður er ekki hægt að bera saman fólk sem þó hefur tækifæri og getu til að vinna þó að það sé á lágum launum sem eru ömurleg. Ég held að við séum flest sammála um það og við þurfum að halda áfram að reyna að breyta því til hins betra.
Það hryggði mig líka mjög að heyra hæstv. ráðherra segja að ekki yrðu væntingar í fjárlögunum núna umfram það sem nú þegar hefur verið boðað varðandi hækkun launa þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem hér um ræðir. Við í minni hlutanum höfum lagt fram tillögu til úrbóta í þeim efnum. Þegar við erum að tala um eldri borgara er mjög mikilvægt að átta sig á að alla jafna er þetta fólk sem hefur skilað vinnu sinni til samfélagsins en einnig er enn töluvert af fólki sem á ekki í lífeyrissjóði sem neinu nemur t.d. fullorðnum konum sem voru heima og sinntu uppeldi á börnum, fóru seint út á vinnumarkaðinn eða jafnvel ekki og eiga ekki neinn lífeyrissjóð.
Það er því mjög mikilvægt að grunnbætur, eða grunnlaun vil ég segja af því að þetta er auðvitað framfærsla, að við sjáum sóma okkar í því að tryggja þessu fólki viðunandi kjör. Þegar við erum að tala um hvað er viðunandi á þetta auðvitað að snúast um framfærslu. Hvað kostar að borða og leigja? Fæstir öryrkjar, sérstaklega yngra fólkið okkar, eru þannig staddir að þeir eigi húsnæði. Allt of margir eru í leiguhúsnæði á allt of ónýtum markaði, sérstaklega á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur ríkisstjórnin komið fram með tillögur til úrbóta í því enn sem komið er eða klárað nein mál í því samhengi.
Mjög margt hefur ekki unnist hjá þessari ríkisstjórn þrátt fyrir að hún hafi haft tvö og hálft ár til að koma fram með tillögur sem skipta einhverju máli í þessu sambandi. Ekki er tekið á mjög mörgu sem snýr að grunnstoðum samfélagsins í þessu fjárlagafrumvarpi og lítur ekki út fyrir að ríkisstjórnin eða meiri hluti fjárlaganefndar ætli að bregðast við milli umræðna.
Posted in Óflokkað