Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Örlítið um fjárlögin

11. desember 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í þinginu stendur yfir umræða um fjárlög næsta árs eftir framkomnar breytingatillögur meirihluta fjárlaganefndar og einnig breytingartillögum ríkisstjórnarinnar sem hún lagði til eftir að frumvarpið var lagt fram.

Það væri hægt að ræða margt en ég ætla að stikla á örfáum atriðum í þessum pistli. Eins og landanum er ljóst hafa málefni heilbrigðisþjónustunnar og eldri borgara og öryrkja borið hvað hæst og þar er mikill ágreiningur á milli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og þessara aðila. Þannig hefur forstjóri Landsspítalans sagt að skilningsleysið sé algert hjá stjórnvöldum og framkoma forystumanna fjárlaganefndar einkennist af dónaskap.
Við efnahagshrunið var Landsspítalinn nánast gjaldþrota átti ekki fyrir launum né lyfjum og tæki höfðu ekki verið endurnýjuð þrátt fyrir að vera „útrunnin“. Við tók afar erfitt tímabil í rekstri LSH sem og öðrum heilbrigðisstofnunum. Allt tal um að aldrei hafi verið settir svo miklir fjármunir í heilbrigðiskerfið stenst ekki skoðun. Við verðum að horfa á stöðuna eins og hún er í dag og hætta öllu karpi á bak við viðkvæmt heilbrigðiskerfi er fólk, sjúklingar og starfsfólk, sem okkur ber að sinna. Þetta snýst um forgangsröðun.

Gerum betur

Efnahagsbatinn sem ríkisstjórninni er svo tíðrætt um skilar sér ekki með réttlátum hætti til allra. Stöðugleikinn margumræddi á að snúast um að tryggja öllum mannsæmandi kjör og mannsæmandi líf, láglaunafólki, öryrkjum og eldri borgurum sem enn einu sinni sitja eftir og geta með engu móti ná endum saman með þá framfærslu sem þeim er skömmtuð.
Eldri borgarar og öryrkjar komu á fund fjárlaganefndar í gær fimmtudaginn 10. des., eftir beiðni minnihlutans, og fóru yfir sín mál og er óhætt að segja að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að hengja sig í hvað þau eru búin að vera frábær að eigi mati og gera vel við þennan hóp um leið og þau hamast á því hvað fyrri ríkisstjórn var vond við þennan hóp. Þau gleyma gjarnan að ríkissjóður var í 120 milljarða mínus við upphaf síðasta kjörtímabils en hefur hægt og sígandi þokast í betri átt. Það var ævinlega stefnan að um leið og betur færi að ára í ríkisfjármálum yrði þessi hópur látinn njóta þess og nú er lag.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og fjárlaganefndar geta hártogast um prósentur eða milljarða en það á ekki við hér því fólk borðar ekki prósentur heldur snýst þetta um það sem er í buddunni til framfærslu. Það er dónaskapur að halda því fram að með þeim aðgerðum sem nú eru kynntar verði til þess að lífeyrisþegar fái meira í sinn vasa en meðallaunþegi eins og ráðuneyti fjármála hefur haldið fram.

Við Vinstri græn viljum samfélag þar sem allir geta lifa með reisn, kjörin jöfnuð og byrðunum dreift með réttlátum hætti. Allt sem þarf er bara skynsemi við stjórn landsins.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).