Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Konur í fjölmiðlum

25. nóvember 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Á Jafnréttisþingi í morgun kom fram að hlutfall kvenkyns viðmælenda í fjölmiðlum hefur sáralítið lagast síðastliðin 15 ár, en þar var farið yfir niðurstöðu viðmælendagreiningar velferðarráðuneytisins og Fjölmiðlavaktarinnar.

M.a. var birtur listi helstu viðmælenda í þjóðmálaþáttum. Það er athyglisvert að rýna svolítið í þessar niðurstöður til að skilja þjóðfélagsumræðuna og hvað það er sem kemst á dagskrá. Í á þessum tíma sem skoðaður var voru í Bítinu 12 karlar og ein kona, sjö úr stjórnarliðinu en einn úr stjórnarandstöðu. Í Reykjavík síðdegis eru karlarnir 11 en konurnar tvær. Stjórnarliðið með sjö og stjórnarandstaðan þrjá, hvert úr sínum flokki.

Þegar skoðuð eru skiptin sem þessir 13 viðmælendur tala þá kemur í ljós að stjórnarliðar hafa fengið 151 viðtal en stjórnarandstaðan 43.
Jafnréttislögin eru skýr og þar segir m.a. í 24. gr.: Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil.
Fjölmiðlar eiga að vera hið svokallaða fjórða vald og því ber þeim að gefa konum jöfn tækifæri og körlum til að tjá sig. Það sem vekur athygli í þessari könnun er að einungis ein kona úr stjórnarandstöðunni kemst á topp listann.

Stjórnendur þátta sem fá mikla hlustun t.d. á Bylgjunni eru allt karlar sem nú þurfa að hysja upp um sig buxurnar og gera atlögu að því að fá fleiri konur til samtals það á líka við um Rúv.

Á mbl. í morgun kom fram að staðan er sambærileg og árið 2000 við það getum við ekki unað.

Eini fjölmiðilinn, sem ég veit um alla vega, er Hringbraut sem stendur sig afar vel þegar kemur að jöfnum hlutföllum kvenna og karla sem viðmælendum þar hangir uppá vegg yfirlit þar sem allir þáttastjórnendur fylgjast með og er staðan nú 594 konur og 609 karlar.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).