Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ákall

17. nóvember 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í dag mættu fatlaðar konur á vegum Tabú og Kvennahreyfingar ÖBÍ innanríkisráðherra, velferðarráðherra og Alþingi til að afhenda kröfuskjöl þar sem þær mótmæltu hárri tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum konum og brotalömum í réttarkerfinu.

Um leið skiluðu þær hluta af skömminni sem þær hafa borið alla ævi en eiga ekki. Þær beina orðum sínum að Alþingi og ráðuneyti og voru fyrir utan húsið klukkan fjögur. Þetta er hluti af „Beauty Tips“-byltingunni og „Free the Nipple“ sem verið hefur mikið undanfarið í umræðunni og er eitt af því sem við konur stöndum að til þess að standa saman gegn ofbeldi.

Ég gat því miður ekki verið viðstödd en, ræddi þessa “athöfn” á þingi í dag og hvatti þingmenn til að mæta. Að sjálfsögðu styð ég baráttu þeirra og allra annarra kvenna sem standa í sömu eða svipuðum sporum.

Því miður er það er inngróið í íslenska menningu að konur og stelpur eigi bara að passa sig og er sífelld afsökun fyrir afbrotum karlanna.

Mér þótti við hæfi á þingi í dag að fara með niðurlag hinnar mögnuðu ádeilu sem nokkrar Hagaskólastelpur með Unu Torfadóttur í broddi fylkingar fluttu í hæfileikakeppninni Skrekki í gær. Atriðið var algerlega magnað og ég er soddan væluskjóða að ég fékk nú eitthvað í bæði augun í gærkveldi þegar þær fluttu atriðið sitt.

Þetta eru ekki framtíðarstelpur þær eru núna og þið finnið videóið allstaðar á netinu en atriðið heitir “Elsku stelpur”

Þetta eru lokaorðin í brýningunni.

Elsku feðraveldi,
veistu, þegar þú segir mér að róa mig
og halda bara kjafti
hveturðu mig áfram
til að öskra af öllu afli.
Þú getur ekki stoppað það sem þú veist að er að koma,
þú skilur ekki erfiðið, þú ert ekki kona. […]
Við höfum barist svo lengi
fyrir ótal sjálfsögðum hlutum
að baráttan í sjálfu sér
er orðin sjálfsagður hlutur.
En við biðjum ykkur stelpur
að halda alltaf áfram,
að gleyma ekki skiltunum
sem stóðu upp úr göngum,
að gleyma aldrei konunum
sem hrópuðu í myrkri,
að gleyma síst öllum stelpunum
sem voru dónar og tíkur og fyrir.
Ég hvet ykkur enn og aftur til þess að taka á móti fötluðum konum hér fyrir utan í dag, sem ætla að skila skömminni, um leið og ég hvet ykkur til að kíkja á þetta myndband á netinu.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).