Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Hvað skyldi tefja?

10. nóvember 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í dag fóru nokkrir þingmenn upp um fundarstjórn forseta og vöktu athygli á því að fá mál kæmu frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og einungis 20 dagar til stefnu þar sem annars þarf að leita eftir afbrigðum.

Í haust fékk allsherjar- og menntamálanefnd kynningu frá innanríki- og menntamálaráðuneyti um þau mál sem ráðherrar ætluðu að leggja fram. Á þessum þingvetri eru þau um 50 og sum þeirra “þung” eins og sagt er. Stór og mikil mál sem þurfa gestakomur og töluverða umræðu og ekki hægt að vinna með hraði. Meira að segja stjórnarliðar eru farnir að tala um að þetta sé með versta móti sem þeir hafa upplifað.

Ég velti því upp í umræðunni hvað það væri sem tefði er stoppið hjá ráðuneytunum, ráða þau ekki við það sem þau eru að gera, t.d. vegna manneklu eða annarra hluta?

Eða er þetta kannski bara endurspeglun á því hvað ríkisstjórnarflokkarnir eru í raun ósammála?

Svo er í raun merkilegt hvað illa gengur að fá svör við spurningum m.a. hjá menntamálaráðuneytinu en þar var verið að biðja um frest í annað sinn á fyrirspurn minni um málefni sem ætti að vera á hreinu.

1. Nær átaksverkefnið Þjóðarsáttmáli um læsi, sem nú stendur yfir, til heyrnarlausra barna? Ef svo er ekki, hver er þá skýringin á því og hefur verið gripið til annarra ráðstafana til að efla lestrarkunnáttu heyrnarlausra barna?
2. Hvernig er staðið að gerð námsefnis fyrir heyrnarlaus börn, hvernig er tryggt að heyrnarlaus börn í leik- og grunnskóla fái viðeigandi námsefni og kennslu og hversu miklu fé hefur verið varið til gerðar slíks námsefnis undanfarin tvö ár?
3. Hvernig er það námsefni sem heyrnarlausum börnum í leik- og grunnskólum er ætlað vegna stöðu þeirra?
4. Í hverju felast einkum ráðstafanir ráðuneytisins til að framfylgja 3. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011?

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).