Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Fjáraukalög 2015

10. nóvember 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Umræða um fjáraukalög fór fram á Alþingi í dag og tók ég þátt í henni. Til að byrja með er vert að rifja upp hvert hlutverk fjáraukalaga er í sjálfu sér.

“Í því felst að gert er ráð fyrir að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum en að í fjáraukalögum innan fjárhagsársins verði leitað eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Samkvæmt fjárreiðulögunum er slíkum fjárráðstöfunum í fjáraukalögum fyrst og fremst ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, einkum til ófyrirséðra atvika, áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu, en ekki til áforma um ný verkefni, aukins umfangs starfsemi eða t.d. rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana umfram setta útgjaldaramma, enda er mælt fyrir um það í lögunum að vísa beri slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárhagsár.“

Ég gagnrýndi áætlanagerð ríkisstjórnarinnar bæði á tekju- og útgjaldahlið.

Frávikin á tekjuhliðinni eru nær alfarið vegna aukinna arðgreiðslna fjármálafyrirtækja og munar þar töluverðu á sérstaklega hjá Landsbankanum sem skilaði 18 milljarða hærri arði en áætlun gerði ráð fyrir. Ég hef eins og fleiri í minnihluta fjárlaganefndar velt því upp hvers vegna áætlanagerð á 2 mánaða tímabili skilar svo miklum mun sem hér um ræðir. Við því hafa ekki fengist viðunandi svör.

Svo er tiltekið að veiðigjöld hafi lækkað um 2 milljarða vegna breytingu á lögum um veiðigjöld.
Þetta er eitt af því sem staldra má við og spyrja sig, í ljósi mjög góðrar afkomu stórútgerðarinnar, hvort rétt hafi verið gert. Það tel ég ekki vera.

Annað sem vekur athygli er að einungis hluti áhrifa af kjarasamningum er í fjáraukafrumvarpinu en en ekki er tekið tillit til niðurstöðu gerðardóms í ágúst sl. í máli BHM og FÍH né til áhrifa af kjarasamningum sem samið hefur verið um eftir þann tíma. Stórar fjárhæðir vantar í gjaldahlið frumvarpsins. Maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna frumvarp með annarri eins skekkju er lagt fram? Frumvarpið er nýkomið fram var ekki tími til að reikna? Var ekki búið að meta hvað kjarasamningar kostuðu ríkissjóð þegar samið var? Það þykir mér ótrúlegt.

Í fjáraukalagafrumvarpinu koma líka fram ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók fram hjá öllum faglegum ferlum á lokadögum þings í sumar. Þar eru tæpir 2 milljarðar í vegaframkvæmdir sem ekki fór fyrir Samgönguráð og 850 milljónir sem fóru í framkvæmdasjóð ferðamanna. Báðar þessar aðgerðir eru framkvæmdir sem vitað var að þyrfti að fara í og voru felldar í breytingatillögum minnihluta fjárlaganefndar við gerð fjárlaga fyrir árið 2015. Við erum líka að tala um staði í eigu ríkisins þannig að þær framkvæmdir hefðu átt að liggja fyrir.

Svo eru það útgjöld vegna sérfræðilækna en þar eru rúmir 2 milljarðar sem koma til vegna þess að ráðherra ákvað að reglugerð sem jók byrði á sjúklinga, sem hann var búinn að láta smíða, var ekki látin taka gildi og það er vel. En á þetta bentum við líka á í minnihlutanum og gerðum um það breytingatillögu við fjárlögin 2015 sem meirihlutinn felldi.

Að lokum og án þess að umræðan sé tæmd þá er mikil lækkun á barna- og vaxtabótum um 800 milljónir. Það væri ekki úr vegi að fjármálaráðherra birti sviðsmyndir sem sýna með hvaða hætti ætlunin var að dreifa þessu fjármagni og skýra í hverju munurinn liggur. Hvers vegna var útgreiðslureglum ekki breytt á árinu til að koma þessu fjármagni til skila? Eða náðust markmiðin þannig að óumdeilt sé að réttlætanlegt sé að afturkalla þetta fjármagn í ríkissjóð? Það tel ég ekki vera.

Frumvarp til fjáraukalaga á að vera smávægilegt leiðréttingarfrumvarp, frumvarp sem inniheldur óvænta atburði. En það nú ekki svo í þetta sinn því fáa óvænta atburði er að finna í þessu frumvarpi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).