Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Við verðum að bregðast við

5. nóvember 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ræddi málefni sýrlensku fjölskyldunnar á þingi í dag.

Ég held að staða flóttafólks víða um heim hljóti að taka á okkur öll. Nú stendur okkur nærri að bregðast við og aðstoða fjölskyldu sem verið hefur í fréttum undanfarið, síðast í dag, þ.e. sýrlensku fjölskylduna. Nú eru systurnar byrjaðar í skóla og fjölskyldan stendur frammi fyrir því að vera send aftur til Grikklands þar sem hún átti í rauninni ekki val um að fá hæli vegna þess að fólkið hefði að öðrum kosti verið handtekið. Þetta fólk vill ekki vera í Grikklandi enda vitum við að þar er ástandið hreint ekki gott og ekki góður kostur þegar við getum boðið upp á mun betra samfélag hér á Íslandi.

Ég hef því óskað eftir því við formann allsherjar- og menntamálanefndar að við komum saman til fundar og við ræðum stöðu þessara mála. Það er hægt að veita fjölskyldunni dvalarleyfi, til dæmis á grundvelli mannúðarástæðna. Við þurfum að minnsta kosti að ræða þau mál. Það er líka æskilegt að við fáum til okkar barnaverndaryfirvöld, að við fáum UNICEF til okkar og aðra þá sem koma að aðstoð gagnvart börnum, því að ég hef sérstakar áhyggjur af þeim og ég trúi því að við deilum því mörg. Ég tel að við getum gert miklu meira en að við gerum nú.

Rakið hefur verið í fjölmiðlum hvernig fjölskyldan hefur lagt sig fram um að aðlagast og reynt að læra tungumálið, og þá stuttu stund sem systurnar hafa verið á leikskóla hefur þeim verið vel tekið, þær hafa staðið sig vel og lært nokkur orð á íslensku, þannig að það er augljóst að fjölskyldan er tilbúin að leggja mikið á sig til að fá að vera hér. Nú er það undir okkur komið, íslenskum stjórnvöldum, að afgreiða mál fjölskyldunnar með farsælum hætti.

Posted in Óflokkað

2 ummæli

  1. Sveinn B. Ólafssön

    smá spurning:
    megið þið ekki tilkynna forseta um að þið gangið úr þíngsal til að mótmæla.

  2. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

    Jú við megum tilkynna forseta það.