Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um staðgöngumæðrun

22. október 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Á þingi 20. okt.
Frú forseti.
Hér er flókin umræða á ferðinni. Þetta mál er hreint ekki einfalt. Eins og við heyrum eru gríðarlega mörg álitamál og þetta er frekar flókin umræða að mörgu leyti, alveg sama hvaða skoðun fólk kann að hafa á efninu. Ég held að mikilvægt sé að við berum virðingu fyrir skoðunum hvers annars og hlustum af athygli á röksemdir sem fram koma, sama úr hvaða áttum þær kunna að koma. Höfum það hugfast að hér erum við auðvitað að tala um fólk, við erum að tala um manneskjur. Við erum að tala um mannréttindasjónarmið og siðferðissjónarmið og það er kannski það sem við erum umfram allt að fjalla um og fátt toppar að fjalla um slíkt á þingi.

Fyrir mér er þetta varasamt, m.a. út frá jafnréttis- og kvenfrelsissjónarmiðum eins og hér hefur komið fram. Við getum haldið því fram að konur séu vettvangur réttinda annarra einstaklinga. Mér finnst hægt að velta því upp. Ég efast ekkert um að nefndin hefur unnið eftir bestu getu miðað við þá forskrift sem hún fékk, þ.e. að búa til lagaramma um að lögleiða hér staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það er leiðarljósið, en svo greinir okkur á um hvort það er skynsamlegt eða ekki.

Það er alltaf spurning hvort það sé réttur fólks að eiga börn. Ég hef þá skoðun að það sé ekki réttur fólks að eiga börn og að það að framlengja eigin gen sé ekki það mikilvægasta í lífinu, að tryggja arfleifð sína með þeim hætti. En auðvitað eru ekki allir sama sinnis. Hérna er ágætisritgerð sem heitir „Fjörutíu leiðir til að búa til barn: Lagaumhverfi og samfélagsumræða um staðgöngumæðrun á Íslandi“ og er eftir Þórunni Elísabetu Bogadóttur. Það er mjög áhugaverð lesning þegar kemur að þessum málum. Meðal annars kemur fram hjá henni að samfélag okkar sé að verða fyrir grundvallarbreytingum án þess að við beinlínis gerum okkur grein fyrir því. Þær hafa læðst aftan að okkur og orðið að veruleika án þess að við tækjum beinlínis með formlegum hætti afstöðu til þeirra.

Það á auðvitað við um marga hluti. Ég held að það eigi meðal annars við um það hvernig tæknifrjóvgunarmálin hafa þróast. Hér var talað áðan um umsagnir um málið þegar það kom fram og hafa verið færð rök fyrir því á ýmsum vettvangi, þá af þeim sem eru kannski frjálsari í þessu, að fólk megi almennt gera það við líkama sinn sem það vill. Áðan var reynt að færa fram rök fyrir því að þetta snúist ekki bara um konuna, þetta snúist um svo miklu meira. Í þessu samhengi snýst þetta ekki bara um rétt þessa tiltekna einstaklings til að ganga með barn heldur hefur það áhrif á mjög margt annað sé ætlunin að gefa það frá sér. Það er ekki hægt að stilla þessu upp sem eingöngu rétti konu til að ráða yfir líkama sínum. Það þarf að horfa á heildarmyndina. Hins vegar hefur líka verið sagt að það sé ekki hlutverk ríkisins að vernda æxlunarfæri foreldra heldur að tryggja hagsmuni barna.

Samningar þar sem staðgöngumóðir afsalar sér réttinum yfir líkama sínum eru taldir ganga þvert á mannréttindasjónarmið, hvort sem staðgöngumóðir gerir það í velgjörðarskyni eða annarra hluta vegna. Vissulega er búið að lagfæra ákveðna þætti í frumvarpinu, um það að báðir aðilar geti hætt við, en þeirri spurningu sem hér var borin fram áðan hefur ekki verið svarað: Hvað ef báðir aðilar guggna á samningnum og vilja ekki? Það er staða sem getur komið upp þótt maður kannski sjái það ekki fyrir sér.

Sú röksemd að fólk fari til annarra landa til að leita eftir staðgöngumæðrun finnst mér segja meira um fólkið sjálft en eitthvað annað, að fólk vilji virkilega fara til landa jafnvel þar sem staðgöngumæðrun er ekki heimiluð og kaupa barn af fátækri konu. Mér finnst það segja miklu meira um foreldra sem vilja gera slíkt eða verða foreldrar á þeirri forsendu en eitthvað annað. Og ég held að lagarammi um málið tryggi ekkert endilega að það verði ekki gert. Það er ekkert sem segir að lagarammi um þessi mál hér komi í veg fyrir að fólk fari áfram til útlanda eða leiti sér aðstoðar annars staðar.

Mér finnst ritgerðin sem ég vitnaði til áðan ágæt. Svo hafa ýmis önnur álitamál komið fram í tengslum við þessa umræðu hér áður og í þeim umsögnum sem voru færðar fram við það, eins og ég sagði áðan. Eitt af því sem maður hnýtur um í þessu er að kona má ganga með barn þrisvar sinnum sem staðgöngumóðir. Mér finnst það vera orðið verslunarvara, ég get ekki horft á það öðruvísi. Og af hverju? Við þurfum svolítið að svara því þó að við séum þjóð sem stendur framarlega í ýmsu og stærum okkur af því. Af hverju í ósköpunum þurfum við að innleiða svona ofboðslega umdeilt og erfitt mál fyrst allra Norðurlandaþjóða og með fæstu íbúana? Ég held að það sé engan veginn skynsamlegt að við tökum forustu í þessu máli með þessum hætti. Mér finnst þetta ekki þess eðlis að við eigum að gera það.

Eru þetta réttindi sem allir eiga að hafa? Það er alveg ljóst að við getum aldrei tryggt að allir geti eignast barn, hvort sem það er með þessari aðferð eða með einhverjum öðrum aðferðum. Svo margar hindranir geta staðið í vegi fyrir því. Mér finnst réttur barna til að eiga góða foreldra vera miklu sterkari en réttur fólks til að stofna fjölskyldu. Í 4. gr. frumvarpsins er komið inn á réttinn samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sagt að þetta sé í samræmi við hann en ég er því ekki alveg sammála. Við tryggjum ekki endilega að barn lifi og þroskist við örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði þótt við heimilum staðgöngumæðrun þrátt fyrir að nefndin eigi að athuga hagi fólk.

Það er líka eitt sem mér fannst vera athugunarvert hérna. Erum við endilega viss um að aðstæðurnar séu bestar ef foreldrar eru sæmilega efnaðir eða er eitthvað annað sem getur orðið til þess að börnum líði vel og þau þroskist og dafni? Hér er töluvert lagt upp úr því að efnahagurinn þurfi að vera traustur. Hvað þýðir það? Er það útfært einhvers staðar með reglugerð hvað skattframtalið á að segja? Það er talað um að það þurfi að leggja fram skattframtöl. Tryggir það virkilega að börn eignist góða foreldra? Það held ég ekki.

Auðvitað er talað um að fólk skuli búa við félagslega góðar aðstæður og mér finnst miklu sterkara að það séu góðar félagslegar aðstæður og gott tengslanet ættingja og vina. Við viljum öll geta tryggt börnum okkar það besta og að þau hafi viðurværi en það er langur vegur frá því og að efnahagurinn sé eitthvað sérstaklega traustur. Svo getur hann verið traustur á einum tíma en ekki öðrum. Þegar því er haldið fram að þetta uppfylli meðal annars barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða réttindi barnsins tel ég það ekki sett hér fram á réttum forsendum.

Mér finnst líka vert að horfa til þess að læknar sem fjölluðu um málið á sínum tíma töldu, eins og ég sagði áðan, og siðfræðingar reyndar líka, að lagaramminn hefði tilhneigingu til að breytast. Það gerðist með tæknifrjóvgunarlögin og það má ekki gleyma því að þau voru átta ár í nefnd áður en þau urðu að lögum. 15 árum seinna eru þau orðin, eins og við þekkjum, mun víðtækari en þau voru og það er mun opnara en áður var hverjir geta nýtt þá þjónustu.

Í restina langar mig að fara inn á umsagnir sem bárust síðast. Með umsögn Femínistafélags Íslands fylgir útdráttur úr grein eftir blaðakonuna Kajsu Ekis Ekman. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna til hluta úr honum þar sem segir:

„„Rétturinn“ til barna er nátengdur „réttinum“ til að nýta líkama kvenna til eigin þarfa. Svo einfalt er það. Slík réttindi mega aldrei festast í sessi því þá erum við að breyta líkama kvenna í verkfæri karla. Með staðgöngumæðrun smættum við konur í geymslurými, kynfæri, námu fyrir aðra til að grafa í og greiða fyrir með smáaurum. Í þessu skyni skiptir engu máli hvaða tilfinningarök eru notuð, eða hvaða fyrirmyndir eru kynntar til sögunnar. Þetta fjallar þegar allt kemur til alls um hvort nýta megi líkama kvenna til að fullnægja þörfum annarra. Eins og konur séu ekki manneskjur heldur náttúruauðlindir.“

Þetta er kannski grunninntakið í því sem við allflest hér höfum verið að ræða. Síðar er talað um að konan þurfi að fjarlægja sjálfa sig fóstrinu sem hún gengur með í níu mánuði, og barninu, aðskilja frá sjálfinu í sér, hlutgera fóstrið sem hún ber undir belti. Það getur ekki talist eðlilegt. Í umsögninni er haft eftir þrítugri staðgöngumóður sem segir, með leyfi forseta:
„Að vera staðgöngumóðir felur í sér að taka ákveðna afstöðu. Börnin eru ekki þín og hafa aldrei verið. Þú getur ekki gert tilkall til þeirra og ég er meðvituð um hlutverk mitt. Ég er bara barnapía fyrir hina frábæru vinkonu mína T. Þetta er hennar barn og ég bara gæti þess þangað til það fæðist.“

Það raungerir ranghugmyndina ef kona setur sjálfa sig í það hlutverk að hún sé barnapía. Það er ekki eðlilegt að stilla sjálfri sér þannig upp að maður aftengi sig frá sjálfinu, það getur tæpast verið heilbrigt. Á Indlandi er konum kennt að aftengja sig frá líkamanum. Það er vitnað til þess að mannfræðingurinn Kalindi Vora segir, með leyfi forseta:
„Markmiðið er að koma konunum í skilning um að staðgöngumæðrun hefur ekki áhrif á þær sem kynverur og hvetja þær til að mynda fjarlægð frá fóstrinu og loks barninu. Með ráðgjöf og samtalsmeðferð eru þær hvattar til að líta á sig sem birgja og tenging þeirra við fóstrið er einungis að leigja út legið sitt.“

Þær eru sem sagt ekki mæður, þær eru birgjar. Er þetta heilbrigt viðhorf? Ég held að við séum flest foreldrar hérna inni og það er eðlilegt að spyrja: Er þetta heilbrigt viðhorf? Það finnst mér ekki, virðulegi forseti, og ég vona að tilfinningarökin hjá þeim sem geta ekki eignast börn nái ekki yfirhöndinni í því hvað sé skynsamlegt. Grunnurinn að jafnréttisbaráttunni er að konur eigi ekki að vera verkfæri í höndum annarra, hvort sem það eru feður, makar eða aðrir, eða ófrjóar konur ef því er að skipta. Við eigum að lifa kynlífi, við eigum að eignast börn þegar við viljum og þegar okkur langar til. Við erum ekki auðlindir eða vélar og við eigum að (Forseti hringir.) standa gegn staðgöngumæðrun því að það er réttur okkar að vera heilar manneskjur. Við eigum hins vegar að lagfæra ættleiðingarlögin og gera fólki kleift að ættleiða öll þessi börn sem eru úti um víðan heim án foreldra.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).