Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Einkavæðing og arðgreiðslur í heilbrigðiskerfinu

7. október 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Sagði þetta m.a. á þingi í dag.

Í gær slitnaði upp úr viðræðum SFR og ríkisins þar sem SFR segir samninganefnd ríkisins ekki hafa verið með neitt nýtt frá fjármálaráðherra og sé greinilega umboðslaus til frekari verka. Undir það tók Lögreglufélag Reykjavíkur sem sagði að ríkisstjórnin vildi ekki semja, hvorki við Landssamband lögreglumanna, Sjúkraliðafélag Íslands né SFR, staðan sé grafalvarleg og ástandið ólíðandi. Lögreglufélagið segir fjármálaráðherra sýna fólki óvirðingu.
Við stöndum frammi fyrir því að sjúkraliðar eru væntanlega á leið í verkfall. Við vitum að þjóðarsjúkrahúsið stendur ekki undir slíku eftir allt það sem á undan er gengið í vetur. Við höfum í gegnum tíðina byggt íslenska heilbrigðiskerfið upp í anda norrænna gilda þar sem allir eiga að geta nýtt sér heilbrigðisþjónustu án þess að borga offjár fyrir. Í dag getum við hins vegar talað um neytendagreiðslu því að það er því miður orðið svo að ef leitað er til læknis og ef þörf er á rannsókn kostar það oft mikla peninga.

Laun eru undir framfærsluviðmiði og margir hafa ekki efni á að fara til læknis. Þessi ógeðfellda stefna sem við höfum orðið vitni að í átt til einkavæðingar er nokkuð sem við þurfum að stöðva. Við erum velflest skattgreiðendur og það hefur komið fram í rannsóknum að þjóðin vill forgangsraða til velferðarmála og standa undir heilbrigðiskerfinu. Fólk veigrar sér við að fara til læknis og það þarf jafnvel að vinda budduna ef það ætlar sér að nýta læknisþjónustu. Tiltekt í fjármagnskerfinu til að viðhalda góðri heilbrigðisþjónustu hugnast greinilega ekki þeim sem við stjórnvölinn sitja nú.

Við lesum núna ítrekað um arðgreiðslu þeirra sem tekið hafa að sér heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins og það eru ekki neinir smáaurar. Skemmst er að minnast fréttar um 265 millj. kr. arðgreiðslu Læknastöðvarinnar eða EVA Consortium sem er móðurfélag fyrirtækja eins og heimahjúkrunarinnar Sinnum sem rekur sjúkrahótel Landspítalans í Ármúla. Síðast í morgun var það Flösin sem seldi hlutabréf sín í áðurnefndu EVA Consortium. Allir þessir aðilar hafa greitt sér mikinn arð.

Það sem mér þykir þó sárast er að fjárfestingarfélag lífeyrissjóðanna, Kjölfesta, sé hluthafi í títtnefndu EVA Consortium. Mér hugnast ekki svona rekstur og veit að mörgum þykir miður að hafa ekkert um það að segja að lífeyrir þeirra sé nýttur til slíkra fjárfestinga.

Við þurfum að hugsa upp á nýtt og setja samfélagsleg arðsemismarkmið og í slíkum verkefnum eiga lífeyrissjóðirnir að fjárfesta því að sjúkdómar og veikindi eiga ekki að vera sóknarfæri eða markaðsvara.

Posted in Óflokkað

Ein ummæli

  1. Friðrik Dagur Arnarson

    Því miður virðast lífeyrissjóðirnir ekki vandir að virðingu sinni eins og sést vel í tilfelli eignarhalds þeirra í Brúarsjóðnum þar sem þeir hafa framselt umboð til þess að stjórnast í málum sjóðsins í hendur fjármálagæðings. Hann hegðar sér eins og honum sýnist og allt í boði og á kostnað lífeyrissjóðanna eins og Sigmar í Kastljósi benti rækilega á. Þær uppljóstranir virðast þó ekki hafa haft nein áhrif, allt er við það sama á þessum bænum.