Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Samráðsleysi Illuga

23. september 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ræddi þetta á þingi í dag.

Herra forseti. Ráðherra menntamála, Illugi Gunnarsson, heldur áfram á þeirri ólýðræðislegu braut að breyta skólakerfinu í landinu eins og hann vill án samræðu. Hann ræðir ekki við þingið eða þá sem málið varðar beint. Hann fækkar framhaldsskólum eins og við þekkjum án samræðu. Hann er enn við sama heygarðshornið í sameiningarmálum, t.d. í Eyjafirði og utanverðum Eyjafirði.

Við þekkjum ákvörðun hans um að takmarka aðgang fólks að framhaldsskólanámi, það ræddi hann ekki við okkur, kennsluaðferðum er breytt og nú síðast ætlar nýja stofnunin hans, Menntamálastofnun, að leggja fyrir sérstök hæfnispróf og enn er það án samræðu við nokkurn mann.

Hvað varðar inntökuprófin þá er afar mörgum spurningum ósvarað. Helst minnir þetta mann á þegar bara útvaldir gátu sótt skóla. Það er horfið aftur til gamalla tíma. Hvað og fyrir hverja skyldu þessi inntökupróf eiga að vera og hvað eiga þau að mæla? Framhaldsskólar landsins eru svo sem fæstir í vandræðum með að taka á móti nemendum og flestir nemendur geta valið sér bæði nám og námsleiðir sem þeir kjósa. Þess vegna hlýtur maður að hugsa að þessu hæfnisprófi sé helst ætlað að hjálpa bóknámsskólunum sem hingað til hafa svo sem fleytt rjómann þegar kemur að því að velja inn þá nemendur sem hæstar hafa einkunnir. Ég las einhvers staðar að þetta væri frekar mikil fyrirhöfn til að leysa lúxusvanda fárra skóla og því er ég sammála.

Eina ferðina enn tekur hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson þann pól í hæðina að fara ekki einungis fram hjá þinginu með allar ákvarðanir sem varða skólamálin heldur sniðgengur hann skólasamfélagið. Við hvað er hann hræddur? Pólitíska umræðu eða menntamál? Þolir hann ekki að málin séu í faglegri umræðu á þingi eða innan skólasamfélagsins? Það er skelfilegt að sitja uppi með ráðherra sem hunsar lýðræðislega umræðu og ákvarðanatöku um svo mikilvæg mál.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).