Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um fjárlögin

17. september 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Sagði örfá orð um fjárlögin á þingi í síðustu viku.

Ég ætla að taka saman nokkur atriði í lok umræðunnar um fjárlögin. Ég vil velta upp því hugtaki sem við notum gjarnan og hefur mikið verið notað núna, hallalaus fjárlög, og því hvernig við getum talað um hallalaus fjárlög eða það að 15 milljarða kr. afgangur verði þegar fyrir liggur að innviðir eru vanfjármagnaðir, hvort sem við erum að ræða heilbrigðismál, almannatryggingar, menntamál eða samgöngumál.

Að auki gerir frumvarpið ráð fyrir 4,5% verðbólgu á næsta ári en þó aðeins er gert ráð fyrir 3,78% uppfærslu vegna verðlags í því sem þýðir að ekki á að bæta stofnunum upp verðbólguna að fullu, sem þýðir væntanlega niðurskurð upp á mismuninn. Og af því að verðbólgan hækkar, eða gert er ráð fyrir því, hlýtur það líka að þýða bankarnir fái sitt á meðan almenningur borgar brúsann með verðtryggðum lánum.

Mig langar að fara yfir litla ritið sem heitir Stefnur og horfur, þar eru nefnilega ágætar skýringarmyndir og það er þokkalega fram sett. Hér hefur margítrekað verið rætt um stærra frumvarpið og hversu ólæsilegt það er. Ég verð að taka undir það og hef rætt það áður í þessari pontu. Á bls. 46 kemur fram að frumjöfnuður ríkissjóðs muni aðeins batna um 20 milljarða til ársins 2019. Það er einungis 0,2% af vergri landsframleiðslu og til að sagt sé hvað frumjöfnuður er þá er það það sem við eigum til skiptanna af reglulegri starfsemi ríkisins til greiðslu skulda og allra annarra þátta. Þetta hlýtur að þýða að skuldir verða ekki lækkaðar með rekstri ríkisins heldur með sölu á eignum.

Það er sláandi tafla þarna þar sem kemur fram að fjármagnskostnaður muni aðeins lækka um 12 milljarða á næstu fjórum árum þrátt fyrir sverar yfirlýsingar um mikla niðurgreiðslu ríkisskulda. Skuldir lækka mjög lítið að krónutölu og líklega að mestu leyti vegna þess að verg landsframleiðsla hækkar, eins og sjá má á bls. 50.

Varðandi skattalækkanir höfum við vinstri græn og fleiri hér sagt að staða ríkissjóðs gæti verið enn betri ef ekki hefði verið farið í þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn fór í þegar hún tók við, með miklu tekjutapi fyrir ríkissjóð. Hér er áfram farið í skattalækkanir upp á 7,5 milljarða á næsta ári og 17 milljarða á næstu tveimur árum. Það þýðir að samtals á að lækka tekjur ríkissjóðs upp á 25 milljarða á næstu fjórum árum og því hlýtur maður að spyrja sig hvernig á að mæta því. Við vitum að arðgreiðslur fara að einhverju leyti minnkandi og lækkun á skatttekjum. Þá hljótum við að þurfa að selja eignir og við vitum hvaða eignir ríkissjóður á. Samanlögð skattalækkun á kjörtímabilinu á næsta ári er þá komin í 36 milljarða og það hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að ræða að einkaneyslan fjármagnar tæplega það allt saman.

Þegar ég tala um skattalækkanir langar mig líka að ræða um lægsta þrepið í tekjuskattinum sem lækkar í heildina um 0,18% 2017. Það merkir að þeir sem fá í kringum 300 þús. kr. í laun fá rétt um 1.000 kr. Þeir sem fá yfir 350 þús. kr. fá um 2.200 kr. og þeir sem hafa 700 þús. kr. fá rúmlega 12.000 kr. í sinn vasa. Það er jöfnuðurinn í tekjuskattspólitík þessarar ríkisstjórnar.

Ég hef töluverðar áhyggjur af frumtekjunum sem lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, þ.e. þessari reglulegu starfsemi ríkisins. Við eigum auðvitað að hafa það nokkuð fast í hendi. Ef ég les rétt út úr frumvarpinu lækka þær um 2,5% á næstu fjórum árum og þá hljóta frumútgjöld að lækka sambærilega. Það þýðir á mannamáli fyrir þá sem ekki skilja frumtekjur og frumútgjöld að við komum til með að eyða mun minna af sameiginlegu tekjum okkar í sameiginlegan rekstur, í heilbrigðis-, mennta- velferðarkerfið o.s.frv. Ef þetta gengur eftir held ég að við verðum með minnstu frumútgjöld allra Norðurlanda og kannski förum við undir Bretland og önnur lönd sem hafa orðið hvað verst úti varðandi hægri pólitík.

Fjárfestingin mun rétt hanga í 1–1,5% af vergri landsframleiðslu. Við erum að draga úr viðhaldi og eins og ég sagði er reksturinn að minnka þannig að þetta virðist stefna í sömu átt, ríkisstjórnin virðist ætla að draga samneysluna niður og fara út úr sem flestu slíku.

Hér hefur töluvert verið rætt um forgangsröðun útgjalda. Eins og ég sagði í upphafi erum við að setja fjármuni hér sem vitað er að duga ekki. Fólk borgar enn þá fyrir hvert skref í heilbrigðisþjónustunni þannig að það er langt frá því að vera fjármagnað. Ég tek undir þegar heilbrigðisráðherra segir að setja eigi heilsugæsluna í forgang af því að hún hafi setið eftir. Það er mjög mikilvægt að hún sé í færum til að takast á við það sem væri annars kannski inni á sjúkrahúsum, sem er dýrara úrræði. Það breytir því þó ekki að það er mikil vöntun á fjármunum og ef við skilum 15 milljörðum í afgang er það ekki raunverulegur afgangur þegar við erum með svona mikið ófjármagnað, að mínu mati. Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara eiga að hækka sem og til öryrkja því að þetta fólk getur margt hvert ekki bætt kjör sín með því að bæta við sig vinnu. Þetta eru auðvitað mannréttindi. Velferðarráðuneytið birtir viðmið um framfærslu sem allt of margir í þessum hópi njóta ekki. Sá hópur liggur að mestu óbættur hjá garði. Þrátt fyrir þá 9,4% hækkun sem hér er lögð til er verðbólguspáin upp á ríflega helminginn af því. Það getur vart talist ásættanlegt þannig að þetta er eitthvað sem maður skilur vel að fólk geti ekki fellt sig við.

Ég verð líka að koma inn á húsnæðiskerfið í restina og taka undir þetta með vaxtabæturnar. Ég velti fyrir mér því sem hér hefur verið rætt, hvort við séum að niðurgreiða skuldir til fjármálastofnana. Nú hef ég ekki hugmynd um það. Ég hef ekki langa þingreynslu og spyr því hvort hægt er að setja um það lög eða reglugerð eða eitthvað slíkt að vextir á milli inn- og útlána geti ekki orðið nema tiltekin prósenta, þá gætum við kannski komið í veg fyrir það vaxtaokur sem tíðkast hér á landi. Nú veit ég ekki hvort sú leið er fær en hún gæti dregið úr vaxtabótum ef það er ætlunin.

Samgöngukerfið okkar kallar á mikla fjármuni sem því miður er ekki sinnt í þessu frumvarpi nema að mjög litlu leyti. Ég hef eins og svo margir aðrir miklar áhyggjur af því að þetta sé orðið öryggismál sem við stöndum frammi fyrir, auk þess sem þetta heftir svolítið fyrirtæki og einstaklinga úti um hinar dreifðu byggðir í því að taka rekstur sinn lengra áfram og búa til eitthvað meira. Ég nefndi það hér fyrr að ég fór í Árneshrepp núna á dögunum og þar er ástandið algerlega ómögulegt. Á myndum úr Berufjarðarbotni, sem er þjóðvegur 1, má sjá að vegurinn er þannig að það er nánast ekki hægt að aka yfir á dráttarvél, hann er það hræðilegur. Þetta er auðvitað ekki eitthvað sem við getum frestað ítrekað inn í framtíðina. Við eigum að taka á þessu núna þegar betur árar í ríkisfjármálunum í staðinn fyrir að ýta því inn í framtíðina. Þetta snýst eins og allt annað um forgangsröðun. Það sem mér finnst stóra málið í þessu er að við séum með svona mikinn afgang. Við höfum talað um það að mikið er af einskiptistekjum eins og arðgreiðslum og fleira sem nýta á til niðurgreiðslu ríkisskulda og við erum sammála um að eitt af frumskilyrðum og það sem við þurfum að gera sé að greiða niður ríkisskuldir, en ef við ætlum að skila afgangi þrátt fyrir að greiða niður — og það er í rauninni mjög lítið sem ríkisskuldirnar lækka á næstu árum miðað við þau sveru orð sem hér hafa verið viðhöfð — þá eigum við að setja fjármuni í það sem er vanfjármagnað. 15 milljarðar í skúffunni sem hægt er að dreifa út í kerfið hlýtur að vera það sem við viljum frekar gera. Það er ekki hægt að tala um hallalaus fjárlög þegar innviðirnir eru algerlega vanfjármagnaðir.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).