Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Tökum á móti flóttafólki strax!

16. september 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Við vitum lítið hvernig er að búa á meginlandi Evrópu núna og hvernig er að standa í flæðarmálinu og taka á móti svona fjölda af skelfingu lostnu fólki. Fólki sem stendur frammi fyrir því að á heimili þeirra er varpað sprengjum. Því miður hættir okkur til að verða samdauna vondum og óþægilegum fréttum sem birtast á sjónvarpsskjánum dag eftir dag.

En undanfarið höfum við heyrt sögur fólks sem komið hefur til Íslands sem flóttamenn eða hælisleitendur þessar sögur hafa snert við mér og mörgum fleirum. S.l. laugardag safnaðist saman mannfjöldi hér á Austurvelli og víða annarsstaðar í heiminum til að bjóða flóttamenn velkomna til landsins undir heitinu Evrópa býður þig velkomin. Frábær umfjöllun Kastljóss á mánudaginn var afar upplýsandi en um leið átakanleg. Þið sem ekki sáuð þáttinn verðið bara að horfa.

Atli Viðar Thorsteinsson sérfræðingur hjá Rauða krossinum segir að ef stjórnvöld vilji sé hægt að hefja ferlið fyrir tiltekinn fjölda strax á morgun og leggur til að farin verði leið í gegnum kerfi Sameinuðu þjóðanna sem forðar flóttamönnum frá því að leggja upp í hættuför yfir Miðjarðarhafið eða ferðast um í flutningabílum eða með öðrum ótryggum hætti.

Nú hefur fjöldi sveitarfélaga lýst sig reiðubúin til að koma að málum og því ekkert sem stendur í vegi fyrir því að ríkisstjórnin taki ákvörðun.
Því við erum að tala um fólk eins og okkur sem hefur löngun í brjósti að byggja upp framtíð fyrir sig og börnin sín. Við eigum að fagna því að vera þjóð sem hefur þetta einstaka tækifæri að taka á móti fólki sem auðgar okkar samfélag og við getum lært svo mikið af.

Allt sem þarf er ákvörðun ríkisstjórnarinnar og hana á að taka í dag.

Posted in Óflokkað

2 ummæli

  1. trausti guðmundsson

    Hvernig væri nú að hugsa um okkar fólk fyrst,gamla fólkið og öryrkjana áður en við förum að flytja inn fólk frá miðausturlöndum.

  2. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

    Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að við hugsum um hvoru tveggja nema pólitísk stefna hægri flokkanna.