Aðþjóðlegur dagur lýðræðis
Ég hef nú í annað sinn lagt fram þingsályktunartillögu í tilefni þess að í dag er alþjóðlegur dagur lýðræðis. Tillagan var áður lögð fram af fyrrum þingkonu VG, Þuríði Backman.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2007 að 15. september skyldi vera alþjóðlegur lýðræðisdagur til að minnast Lýðræðisyfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) frá september 1997. Fyrsti alþjóðlegi lýðræðisdagurinn var haldinn hátíðlegur 15. september árið 2008.
Skilgreining Sameinuðu þjóðanna vegna þessa dags er, í lauslegri þýðingu: „Lýðræði er alheimsgildi sem byggir á að fólk hafi frelsi til að tjá vilja sinn um þau pólítísku, efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu kerfi sem það býr við og á fullri þátttöku almennings á öllum sviðum lífsins“.
Alþjóðaþingmannasambandið gaf út yfirlýsingu um alþjóðlegan lýðræðisdag sem leiðsögn fyrir ríkisstjórnir og þing um allan heim til eflingar lýðræði. Lýðræðisyfirlýsingin hefur mikið gildi þegar fjallað er um grundvallarlögmál lýðræðisins, viðmið í starfi lýðræðislegra stjórna og alþjóðlega vídd lýðræðis. Þá er yfirlýsingin viðleitni til að byggja upp og efla lýðræðislega stjórnarhætti hvar sem því verður við komið.
Alþjóðaþingmannasambandið hvetur þjóðþing heims til að halda daginn hátíðlegan. Lagðar eru til mismunandi leiðir til að halda upp á daginn með táknrænum hætti og hafa þjóðþing frjálsar hendur varðandi útfærslu hans.
Hægt væri til dæmis að skipuleggja sérstaka umræðu í þinginu þar sem fulltrúum allra þingflokka væri boðið að taka þátt í umræðum um lýðræði og þróun þess eða að skipuleggja þverpólitíska vinnuhópa innan þingsins sem ályktar um efnið. Þá mætti nota daginn til að vekja athygli á starfi skólaþings Alþingis þar sem nemendur efstu bekkja grunnskóla taka þátt í hlutverkaleik og fylgja í stórum dráttum reglum um starfshætti Alþingis. Þar eiga nemendur að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að hlusta á og meta rök og álit annarra, tjá eigin skoðun og taka afstöðu. Svo hvet ég þá sem þessa grein lesa til að koma fram með hugmyndir um hvað hægt væri að gera þennan dag.
Hlutverk okkar alþingsimanna er að efla fólk á öllum aldri, búa til rödd og farveg með virkri þátttöku fólks til að taka þátt í og móta það samfélag sem það lifir og hrærist í. Lýðræði er ekki bara uppá punt á fjögurra ára fresti þegar kosið er til Alþingis eða sveitarstjórna heldur þarf að ástunda það - alltaf.
Posted in Óflokkað