Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Læsi og pólitískt “agenda” Illuga

28. ágúst 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég játa það að ég hef velt því fyrir mér hvort menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sé „vel lesinn“ þegar kemur að því að velta upp möguleikum til lestrarkennslu. Ég starfaði í skóla nokkuð lengi áður en ég settist á þing bæði sem kennari og náms- og starfsráðgjafi. Ég hef unnið með nemendum frá 6 ára aldri og uppúr eins og sagt er og því haft tækifæri til að fylgjast með námsframvindu á marga vegu.

Ég get tekið undir með Rósu Eggertsdótturþegar hún talar um að huga þurfi að læsi nemenda frá 5. bekk og uppúr, hvernig nemendur lesa og hvaða tól og tæki þau nýta sér til lesturs. Spyrja má hvað er mikilvægt í nútíma samfélagi.

Ég spurði allmarga nemendur í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem komu til mín í náms-og starfsráðgjöf hvernig þeim líkaði að hafa námsefnið nærfellt allt á tölvuskjá. Allir, já allir sem ég spurði voru afar ánægðir og sérstaklega þeir sem áttu við lesblindu að stríða eða annan lesvanda. Við – eldri kynslóðin sem erum – og viljum sum hver, helst allt hafa á blaði fyrir framan okkur eigum oft erfitt með að skilja þetta en þetta er eins og annað breytingum háð.
Fjölbreytnin er mikilvæg og sumir vilja helst halda á bókinni og finna af henni „prentlyktina“ en aðrir vilja lesa í Kindle eða í Ipad eða í tölvunni og það er alveg frábært að hægt sé að mæta öllum þessum þörfum. Ég held að stór hluti ungs fólks sé mun betur læs en mörg okkar sem eldri erum þegar kemur að fjölbreyttum miðlum samtímans og á fleiri en eitt tungumál.

Hvar er byggðastefnan?

Það hafa margir lagt mikið á sig til þess að auka læsi þjóðarinnar og hefur Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri verið þar í broddi fylkingar. Því spyr ég mig hvaða pólitíska „agenda“ er í gangi? Illugi Gunnarsson hefur búið til nýja stofnun, Menntamálastofnun, sem hefur tekið við verkefnum Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar ásamt verkefnum frá ráðuneytinu. Mikil umræða átti sér stað um þetta verk menntamálaráðherra á Alþingi og lagði ég til að hluti af þeim tíu stöðum sérfræðinga sem auglýstar voru við hina nýju stofnun á höfuðborgarsvæðinu yrðu við HA. En ekkert var gert með reynslu eða starf starfsfólks Miðstöðvar skólaþróunar HA og engin ástæða þótti til að fjölga störfum á landsbyggðunum þrátt fyrir að ný stofnun væri sett á laggirnar heldur á hún að vera á höfuðborgarsvæðinu en „þjóna allri landsbyggðinni“.

Ég vil taka það fram að ég er ekki að gagnrýna allt það fólk sem í þessum stofnunum var eða er heldur aðferðarfræði menntamálaráðherra. Því þessi ráðherra tilheyrir sömu ríkisstjórn sem lagði til flutning á Fiskistofu með öllu tilheyrandi eins og við þekkjum en hafði nú tækifæri til að setja nýja stofnun niður t.d. á Akureyri en kaus að gera það ekki.

Hver er rót vandans?

Illugi er landsbyggðafjandsamlegur og þessi aðför að Miðstöð skólaþróunar við HA ásamt því að skerða möguleika 25 ára og eldri nemenda til framhaldsnáms eða ofuráhersla hans á sameiningar framhaldsskóla á landsbyggðunum er ekki til að styrkja skólastarf almennt.

Aðferðarfræði ráðherrans er röng en hann getur staldrað við og velt fyrir sér – hvenær byrjaði læsi að slakna?
Er aðferðin sem byggir á að læra einn og einn staf betri en einhverjar aðrar?
Hvað með alla þá nemendur sem fóru í gegnum þá aðferð og hafa því miður ekki náð góðum tökum á læsi?
Hver er rót læsisvandans – eru það eingöngu aðferðir við lestrarkennsluna eða kemur eitthvað annað til?
Eru fleiri tvítyngd börn í grunnskólum landsins?
Eru samræmd próf algild og góð mælitæki sem taka á öllum þeim þáttum sem nemendur nútímans þurfa að kunna?

Engin aðferð er yfir gagnrýni hafin en það hefði átt, og á, að vera hlutverk ráðherrans að leita svara við rót vandans en ekki ráðast að starfsfólki og starfsaðferðum Miðstöðvar skólaþróunar HA með þeim hætti sem hann gerði enda hafa líklega fáir sinnt skólaþróun með sambærilegum hætti og þar hefur verið gert.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).