Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ástin og hlýjan vaxið með þingmennskunni

6. ágúst 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Akureyri vikublað 9. júlí 2015

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttirr þingmaður á heimavelli í Ólafsfirði.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi, lét töluvert að sér kveða á vorþinginu sem lauk loks í síðustu viku. Hún er nú komin til Ólafsfjarðar, þar sem hún á heima og ræðir í opnuviðtali við Akureyri vikunlað ástandið á þjóðþinginu síðustu mánuði, Pírata, hugmyndir um kosningabandalag félagshyggjum, forsætisráðherra sem hún segir fullan af skætingi og útúrsnúningum og fleira og fleira…

Bjarkey, þetta hefur verið átakasamt þing – ef þú berð saman þingið sem nýlokið er við fyrri þing, hvað stendur upp úr?

„Í fyrsta lagi þá er Alþingi ekki eins og hver annar vinnustaður en umræðan um starfshætti og þessháttar í vetur og oft áður er samt gjarnan borin saman við það sem við getum kallað hefðbundinn vinnustað. Ef „ástandið“ væri svona á mínum vinnustað væri búið að reka alla er stundum sagt við mig, en við þingmenn vinnum sjaldnast á hefðbundum vinnutíma og eitt af því sem gjarnan gleymist er að þingmaðurinn er ekki bara í vinnunni þegar hann er staddur í þinghúsinu heldur líka á kvöldin eða sunnudögum þegar þú hittir hann í búðinni. Margt fólk vill fá samtal þegar því hentar og bregst misjafnlega við ef maður getur ekki eða vill ekki undir tilteknum kringumstæðum eiga samtal.

Í vetur hefur þingið einkennst af átökum um hvernig samfélag við viljum á Íslandi. Stjórnleysi og forystuleysi hefur verið einkenni ríkisstjórnarinnar í vetur þar sem forsætisráðherra hefur oftar en ekki svarað þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem bera fram málefnalega gagnrýni með skætingi og útúrsnúningum. Mál hafa komið seint fram frá ríkisstjórninni og því miður alltof oft mjög illa undirbúin, enda hafa mörg stærstu málin tekið miklum breytingum eða hreinlega ekki náð fram að ganga eins og t.d. og náttúrupassinn. Að ekki sé nú minnst á að stjórnarflokkarnir hafa sjálfir setið á málum hvor um sig og ekki viljað hleypa þeim til þinglegrar meðferðar s.s. eins og frumvarp um fiskveiðistjórnun og húsnæðismál. Svo var t.d. áhugavert að sjá að í ríkisfjármálaáætlun 2016-2019 er gert ráð fyrir sölu eignarhluta í Landsbankanum en Framsókn ályktaði gegn því á sínum flokkstjórnarfundi.“

Andstaðan óvenju samhent

Hefur stjórnarandstaðan verið óvenju samhent að þínu viti?

„Ég er afskaplega ánægð með hversu samhent stjórnarandstaðan hefur verið sem sýndi sig í mörgum málum. Okkur tókst sem heild að stöðva mörg vond mál eins og að farið væri framhjá ferli Rammaáætlunar eða að makrílnum væri þröngvað í kvótakerfið.“

Hvernig meturðu ástandið í heilbrigðismálum nú um stundir?

„Við Vinstri græn höfum talað fyrir jöfnuði í samfélaginu og talað harkalega gegn aukinni gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og takmörkunum í framhaldsskólakerfinu svo eitthvað sé nefnt. Öll átökin í samfélaginu, verkföllin og ástandið í heilbrigðismálunum er vægast sagt hrikalegt eins og við þekkjum. Það er mikilvægt að minna sig á að Landspítalinn var kominn að fótum fram í hruninu og þá hafði tækjabúnaður og annað ekki verið endurnýjaður og var útrunninn þrátt fyrir meint góðæri. Nú er svo komið að ekki sést til lands í byggingu nýs spítala og eftir langvarandi verkföll er alltof stór hópur fagfólksins okkar að flýja land vegna kjaramála en líka vegna starfsaðstöðu og gríðarlega mikils álags. Það dugar ekki fyrir forystu fjárlaganefndar að koma í pontu þingsins og segja að aldrei hafi eins mikið verið lagt í heilbrigðismál þegar svo er komið og á sama tíma ákveða að framlengja ekki auðlegðarskatt á ríkasta fólkið í landinu eða lækka veiðigjöldin hjá útgerðum sem greiða svo eigendum sínum milljarða í arð.“

Svikalogn í skólamálum

Þú hefur í umræðunni undanfarið töluvert látið að þér kveða vegna framhaldsskólanna.

„Það hefur heldur betur þurft að taka baráttu við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra vegna framhaldsskólanna. Ég hef miklar áhyggjur af horfum framhaldsskólanna og tel því miður að hér sé sem stendur svokallað svikalogn er varðar skólana á okkar svæði. Svo finnst mér alveg með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli ekki velja að staðsetja nýju störfin sem auglýst voru á dögunum og varða átak í læsi á við Háskólann á Akureyri þar sem sérfræðiþekking er afar mikil í þeim málaflokki. Frekar fara menn fram með illa undirbúna aðgerð eins og raunin varð með Fiskistofu sem svo er að mestu dregin til baka. Hækkun á matarskatti er annað mál sem nú hefur sýnt sig að skiptir máli og einnig hefur lækkun á vörugjöldum því miður ekki skilað sér eins og vænta mætti til fólksins í landinu. Boðuð er áframhaldandi hækkun á virðisaukaskatti í ríkisfjármálaáætlun sem eykur á ójöfnuð og misskiptingu.“

En svo við ræðum einnig jákvæð verk stjórnarinnar, hyllir þó ekki undir að t.d. losun hafta muni ganga vel?

„Það var í sjálfu sér ánægjulegt að stíga skref í átt að losun hafta, skref sem voru undirbyggð í tíð síðustu ríkisstjórnar, enda víðtæk samstaða um málið nú á þinginu þrátt fyrir að minnihlutinn hafi ítrekað áhyggjur af því hve stöðugleikaskilyrðin eru ógagnsæ. Það sem er mikilvægt í framhaldinu er væntingastjórnunin, að fólk átti sig á því að þessir fjármunir sem verða til fari ekki beint út í samneysluna enda myndi það þýða aukna verðbólgu. Það er líka dapurlegt að á sama tíma og við samþykktum þessa aðgerð í þinginu ákvað fjármálaráðherra að nú væri rétti tíminn til að boða lækkun skatta sem ég tel að sé ekki rétt í stöðunni. En þetta er munurinn milli hægri og vinsti pólitíkurinnar sem birtist í ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar sem vill fækka skattþrepum og með því auka á ójöfnuð í landinu.“

Ekki gott að fólk þreytist á stjórnmálum

Hvernig metur þú skilaboðin sem birtast í stuðningi landsmanna við stjórnmálaflokka samkvæmt fylgiskönnunum um þessar mundir?

„Ég held að almenningur sé almennt þreyttur á stjórnmálum, sem er ekki gott, en við stjórnmálamenn þurfum að líta inná við og finna leiðir til að orðræðan verði betri á þinginu, það er ekki spurning í mínum huga. En það er eitt og annað sem hægt er að gera til að pólitíkin á þinginu verði áheyrilegri, t.d. að þingmenn fái að koma að samningu á þingmálum áður en þau eru lögð fram til umræðu í þinginu. Ég held að það geti orðið til að minnka ágreininginn milli stjórnar og stjórnarandstöðu í allmörgum málum og um leið umræðum í þingsalnum. En mér sjálfri finnst t.d. vanta mikið uppá að stjórnarþingmenn, og þá sérstaklega þeir sem nýir eru, láti meira til sín taka og eigi við okkur stjórnarandstöðuþingmenn samtal en það hefur farið afar lítið fyrir því hjá flestum. Sumir koma nánast bara tvisvar í viku í pontu undir dagskrárliðnum störf þingsins þar sem þingmenn geta komið ýmsu á framfæri í 2 mín. í formi yfirlýsingar en koma nánast aldrei í andsvör eða flytja ræður í þeim málum sem eru á dagskrá. Það þykir mér bagalegt af því ég veit að margir hafa gott til málanna að leggja sem vert væri að hafa skoðanaskipti á í þingsal. En auðvitað eigum við að vanda okkur í samskiptum og samtali hvort við annað.“

Hrífst ekki af hugmynd um sameiningu

Stuðningur við ríkisstjórnina jókst um 5 prósentustig í síðustu viku – sem er mikið skv. Gallup könnun – er ekki viðbúið að gömlu valdaflokkarnir finni á seinni hluta kjörtímabilsins nýjar dúsur fyrir unga fólkið, komi með ný kosningaloforð og stjórni landinu áfram án þess að þið vinstra fólkið fáið umboð almennings til ítaka?

„Því miður er landinn oft fljótur að gleyma þegar kemur að pólitík og ekki ósennilegt að fólk falli fyrir slíkum loforðum sem náðu hæstu hæðum í síðustu kosningum. En í ljósi þess sem nú hefur birst m.a. í skýrslu fjármálaráðherra um skuldaniðurfærsluna þá er ég viss um að sú gagnrýni okkar Vinstri grænna um að þessi leið væri ekki sú sem skilaði mestum jöfnuði í samfélaginu eða sé sanngjörn hafi áhrif, enda tæplega hægt að réttlæta það að 1,5 milljarðar fari til fólks sem á yfir 75-100 milljóna skuldlausa eign. Ég vona minnsta kosti að fólk velti þessu fyrir sér þrátt fyrir að tilhneiging okkar sé að horfa á það sem snertir okkur persónulega og við getum haft hag af en síður til langs tíma og hvað þá út í heim.“

Þarf sameiningu annarra flokka en Framsóknar og Sjálfstæðisflokks til að koma í veg fyrir að gömlu valdaflokkarnir stjórni sjoppunni áfram?

„Nei, það held ég ekki og það að flokkar sameinist er ekki ávísun á meira fylgi en þeir hafa í sitthvoru lagi. Aðalmálið, tel ég, er að félagshyggjuflokkar og flokkar á vinstri væng stjórnmálanna sýni fram á það að þeir geti sameinast um og sýnt fram á að hægt er að byggja upp mannsæmandi lífskjör fyrir alla í landinu okkar. Við erum rík þjóð og höfum afnot af miklum náttúruauðlindum og öðrum innviðum sem hægt er að nýta með sjálfbærum hætti, en mikilvægast er að kökunni sé skipt með sanngjörnum hætti, að allir geti notið, en ég hef miklar áhyggjur af hvert stefnir hjá ríkisstjórnarflokkunum m.a. í skattastefnunni.“

Hugnast þér þá ekki sú hugmynd að Katrín Jakobsdóttir leiði sameinaða vinstri flokka?

„Það yrði áhugaverð staða, en ég tel mun árangursríkara að flokkar á vinstri væng stjórnmálanna sameinist í kosningabandalag svipað og á Norðurlöndum og fari fram með tiltekin sameiginleg stefnumál. Við vinstri menn og félagshyggjufólk tölum fyrir jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun, fjölmiðlum sem þora að gagnrýna valdhafana og auknu lýðræði. Ríkisstjórnin þarf að átta sig á því að lýðræðið er ekki bara í kosningum heldur felst það í tíðari aðkomu að ákvörðunum en líka að því jafna aðgengi sem ég nefndi hér áðan því það er forsenda þátttöku og þátttaka er forsenda lýðræðis.“

VG -Erum ekki „á móti öllu“

VG hefur ekki náð háflugi í könnunum – kann að vera að hugmyndafræði ykkar þyki einstrengingsleg og gamaldags?

„Ég held að það sé mýta að Vinstri græn séu einstrengingsleg eða gamaldags. Það þurfti kjark til að gera eins og formaður VG gerði fyrir kosningarnar 2009 þegar hún sagði að það þyrfti líklega að hækka skatta og skera niður og fylgja því eftir. Það var ekki það sem VG langaði að leggja áherslu á en um annað var ekki að ræða á þeim tíma. Það er heldur ekki langt síðan „eitthvað annað“ sem VG talaði mikið fyrir þótti algerlega fáránlegt en nú vilja „allir lilju kveðið hafa“. Það á t.d. við það sem nefnt hefur verið skapandi greinar og ég tala nú ekki um ferðaþjónustuna og allt í kringum hana sem hefur heldur betur skilað sér í þjóðarbúið. Það er líka hægt í allri þeirri fjölmiðlaflóru sem við búum við að festa einhverja ímynd í huga fólks jafnvel þó hún eigi ekki við rök að styðjast sbr. að við sem flokkur værum á móti öllu eins og gjarnan var sagt. En pólitíkin snýst um að breyta umræðunni og það mun ég reyna að gera í mínum störfum.“

Katrín betri sem forsætisráðherra en forseti

Hvað gætir þú lært af Pírötum?

„Mér finnst ég geta lært eitthvað af öllu mínu samferðafólki. Hvað Pírata varðar þá þykir mér áhugavert að þau bera mál sem þau leggja fram saman við þau gildi sem stefna þeirra gengur út á sem ég tel að allir flokkar ættu að gera. Stundum stangast gildi á í stefnunni en þá er samráðið við grasrótina mikilvægt.“

En hvernig líst þér á að Katrín, formaður VG, fari í forsetaframboð?

„Katrín væri góður kostur í forsetaembættið eins og flest annað sem hún tekur sér fyrir hendur en ég er sannfærð um að hún yrði enn betri sem forsætisráðherra þjóðarinnar og vona að það gerist eftir næstu kosningar.“

Rammabreytingar Jóns Gunnarssonar lágpunktur þingsins

Hverju ertu stoltust af þegar þú horfir til þingstarfanna á vorþinginu?

„Ég er stoltust af þrautseigju og elju stjórnarandstöðunnar að láta ekki slá sig út af laginu þrátt fyrir neikvæðar raddir, því málefnin sem við börðumst fyrir eru mikilvægari en vinsældir okkar og starfsvettvangurinn og þingsköpin eru með þeim hætti að ekki er endilega áhugavert að hlusta alltaf.“

Hver var lágpunktur þingsins að þínu mati?

„Þegar formaður atvinnuveganefndar lagði fram munnlega tillögu um stórfelldar breytingar á rammaáætlun.“

Ertu enn þeirrar skoðunar að aðild að ESB sé vond hugmynd?

„Ég hef sagt að klára eigi viðræðurnar og fá fram samning sem þjóðin getur tekið afstöðu til, því það eru ekki allir félagar Vinstri grænna sem eru andvígir ESB og einhvern tímann verður að leiða þetta mál til lykta.“

Áskorun að vera þingmaður í Fjallabyggð

Hvernig fer það saman með þingmennsku að búa í Fjallabyggð?

„Það er vissulega svolítið strembið, sérstaklega yfir háveturinn þegar allra veðra er von en ég reyni alla jafna að fljúga til vinnu á mánudagsmorgnum og heim á föstudögum ef ekki eru önnur þingleg störf sem sinna þarf í þessu stóra og víðfema kjördæmi eða í borginni. Áhugi minn á pólitíkinni er mikill og það sem dregur mig til starfanna sem skapa svo mikla fjarveru frá fjölskyldunni er baráttan fyrir betra samfélagi sem dregur úr misskiptingu en eykur jöfnuð. En eiginmaðurinn vinnur í Ólafsfirði og yngri dóttirin er í Menntaskólanum á Tröllaskaga svo það er augljóst að margt þarf að leysa í gegnum síma eða tölvusamskipti. En þegar manni þykir að jafnaði gaman í vinnunni eins og mér finnst, er fjarlægðin verkefni sem þarf að finna jákvæðan flöt á. Það er alltaf ósköp gott að koma heim, ég er ekki frá því að ástin og hlýjan hafi skerpst og tíminn heima sé vel nýttur með þeim feðginum hér.“

Hefur það sett plön um sumarið í uppnám hve þingstörf drógust lengi?

,,Að sjálfsögðu hefur það sett ýmislegt úr skorðum eiginmaðurinn er t.d. búinn með stóran hluta úr sínu sumarfríi. Síðari hluti hans sumarfrís er um það leyti sem nefndarfundir hefjast aftur hjá mér í ágúst en við reynum að ferðast eitthvað smávegis um landið okkar og eltum sjálfsagt veðrið þegar að því kemur eins og flestir Íslendingar.“

Hvað á að gera í sumar?

Við hjónin rekum lítið fyrirtæki, Gistihús Jóa og Kaffi Klöru, og við erum svo heppin að eldri dóttir okkar hefur séð um reksturinn það sem af er sumri en ég fer á fullt í það núna og nýti stærstan hluta sumarleyfisins til þess. Svo mun ég sinna þingmannsskyldum mínum eins og ég frekast get, enda fátt mikilvægara en að hitta fólk og skiptast á skoðunum.

Viðtal Björn Þorláksson

Myndir Völundur Jónsson

http://www.akureyri.net/frettir/2015/07/12/astin-og-hlyjan-vaxid-med-thingmennskunni/

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).