Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Alvarlegt ástand í heilbrigðismálum

1. júlí 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Störf þingsins í dag
Herra forseti. Nú er þinghaldi að ljúka og því miður stöndum við enn þá frammi fyrir því að staða Landspítalans er mjög alvarleg. Við stöndum enn þá frammi fyrir því að ekki hefur tekist að semja hjá BHM og þar af leiðandi eru verkfallsaðgerðir enn í gangi og búið er að fresta viðræðum til 4. ágúst.

Það hefur ekki gengið vel að fá fólk til starfa aftur, þ.e. geislafræðinga eða aðra þá sem sögðu upp störfum um miðjan síðasta mánuð, og forstjóri spítalans telur að staðan sé afskaplega alvarleg. Það er auðvitað ámælisvert þegar ríkið á í hlut, við erum að fara í sumarfríið, sumarleyfi starfsmanna er á heilbrigðisstofnunum, að staðan skuli vera svo alvarleg sem raun ber vitni.

Það þýðir ekki að stæra sig af því að hafa sett mikla peninga í Landspítalann og heilbrigðiskerfið þegar fyrir liggur að fólk, menntað fólk sem þar starfar flýi land unnvörpum vegna þess að kjörin og aðbúnaðurinn er ekki við hæfi. Við hljótum að þurfa að bregðast við og heilbrigðisráðherra þarf að svara því með hvaða hætti hann ætlar að koma að þessum málum.

Spítalinn er vanfjármagnaður, ekki liggur fyrir í ríkisfjármálaáætlun að bæta eigi aðbúnaðinn fyrr en í lok tímabilsins, í kringum 2018 eða 2020, þá á að fara að gera eitthvað í þeim málum, þ.e. einhver hönnun og teikningar eiga að liggja fyrir, en engin sýn um það áður en byggður verður nýr spítali að aðbúnaður verði bættur, í ofanálag við það að fólk býr ekki við nægjanlega góð kjör.

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ég vona að verði hér til svara á morgun, til góðra verka og að hann geti sagt okkur eitthvað um það hvernig hann hyggst bregðast við þessu alvarlega ástandi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).