Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um fiskinn

24. júní 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti.

Ég ætla að koma inn í umræðuna um þingsályktunartillögu um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla og byrja á því að segja að málið er allt of seint fram komið, eins og of margt annað frá ríkisstjórninni, og ljóst að hér þarf að vilja til til þess að hægt sé að taka málið inn til nefndar og afgreiða það.
Ég ætla aðeins að rúlla yfir helstu atriðin, það er margt ágætt í þingsályktunartillögunni og annað sem við vinstri græn hefðum viljað sjá öðruvísi. Ég ætla að byrja þar sem talað er um áherslurnar en í upphafi og inngangi tillögunnar kemur það fram sem hæstv. ráðherra byrjaði á því að afsaka, því að gert var ráð fyrir að lokið yrði við greiningu á þeirri ráðstöfun sem nú er við nýtingu þessa 5,3% leyfilega heildarafla sem á að fara í sérstakar atvinnu-, félags- og byggðaráðstafanir en það tókst ekki. Maður veltir því fyrir sér, því að hætt hefur verið við að leggja fiskveiðistjórnarfrumvarpið fram, hvað verið er að vinna innan ráðuneytisins ef ekki tekst að sinna þessu verkefni og taka út það sem þarf að taka út. Það er jákvætt í sjálfu sér fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að þessi þingsályktunartillaga er ekki til sex ára heldur aðeins til eins árs, þannig að það þarf að koma fram með þetta aftur næsta haust eða vor.
Það var bent á í dag að það stangaðist á og væri væntanlega villa það sem kemur fram í upphafi en talað er um fiskveiðiárin 2015/2016 til 2020/2021, sem eru sex ár en hér er verið að tala um eitt ár.

Það er vitnað töluvert í skýrslu Vífils Karlssonar sem heitir „Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar“ og var lögð fram í janúar á þessu ári. Þar er gengið út frá því að færa meira úr hinum almenna byggðakvóta yfir í þann sértæka sem Byggðastofnun hefur haft með höndum og að í því sambandi megi gera ráð fyrir meiri byggðafestuáhrifum en í hinum hefðbundna afla, byggðakvóta, sem við þekkjum mörg hver. Í mörgum sveitarfélögum hafa úthlutanir oft verið erfiðar og kærur fram og til baka og ekki allir sáttir við hvernig það hefur virkað eða ekki virkað. Ég tel því að það sé mun betri leið að nýta þetta í gegnum Byggðastofnun, enda kemur fram að það sé jákvæðara viðhorf til þess að gera það þannig en á þann hefðbundna hátt sem við þekkjum, vegna þess að því miður, og það er m.a. afleiðing kvótakerfisins, eru fleiri sjávarbyggðir sem eiga undir högg að sækja og þurfa á aðstoð að halda. Því er mjög brýnt að við reynum að lagfæra kvótakerfið sem hefur komið allt of illa við margar byggðir og það er kannski hluti af því sem við erum að fjalla um.

1. liðurinn hér eru strandveiðar og ég get glaðst yfir því að það var í tíð síðustu ríkisstjórnar sem strandveiðikvótanum var komið á. Hann fór af stað með svolitlu írafári en ég held að það sé komin nokkur ró yfir það. Við vinstri græn teljum þó að auka þurfi enn frekar í þann þátt og sérstaklega í ljósi þess að það getur hjálpað til við nýliðun í greininni. Ég sé það í mínu byggðarlagi að þetta hefur skipt máli þar sem aukið líf færist í hafnir og heils árs vinna hefur skapast hjá þeim litlu smábátasjómönnum sem annars gátu ekki gert út nema hluta úr ári. Þetta styrkir alla vega atvinnurekstur þeirra, enda hefur það komið frá hinum veikari byggðum, og sérstaklega fyrir vestan, þar sem hefur verið mikil krafa um það gagnvart stjórnvöldum að auka í strandveiðarnar. Maður sér einmitt á sumrin hvað erlendum ferðamönnum þykir stórkostlegt að geta staðið á bryggjunni og beinlínis tekið þátt í því þegar trillukarlar koma í land með fiskinn og jafnvel gera að.

Það er talað um skel- og rækjubætur. Þær eiga að lækka um þriðjung. Fulltrúi okkar í atvinnuveganefnd, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, hefur vakið athygli á því að ástæða sé til að hverfa frá þessum rækjubótum en kannski þurfi að huga örlítið að skelinni þar sem líkur eru á því að hún sé að gefa sig aftur, sérstaklega í Stykkishólmi, og því ástæða til að hugsa um þetta í tvennu lagi en ekki í einu eins og gert er hér, enda komi þetta til hvort á sínum tímanum.

Ég var búin að tala svolítið um byggðakvótann. Hér er talað um að fara ítarlega yfir viðmið og skilgreiningar sem gilda um verkefni og ég tel að ástæða sé til að gera það gagnvart sjávarþorpunum. Við sjáum til dæmis í Grímsey að það er ekki endilega það lögmál að afli sé unninn í landi, þ.e. á þeim stað þar sem byggðakvótinn er, heldur getur þurft að leita annarra leiða til að hægt sé að halda byggð á svona stað, það er ekki endilega best að það sé vinnsla heldur t.d. að ferjusiglingar verði auknar þannig að hægt sé að koma aflanum reglubundið í land. Það er miklu frekar það sem eyjaskeggjar standa frammi fyrir, vegna þess að það er hæpið að arðbær vinnsla allan ársins hring sé það sem gildir þar. Það er ekki hægt að taka allar byggðir eða sjávarþorp sem eru í vanda og setja undir sama hatt. Við ættum að huga svolítið að því.
Varðandi frístundaveiðarnar er líka mikilvægt að þær nýtist sjóveiðistangageiranum en ekki endilega að byggðakvótinn sem slíkur fari í það, að nýttur sé hluti af hinum hefðbundna kvóta til að setja í það og það ekki tekið af byggðakvótanum.

Hvað varðar makrílinn er í lið nr. 8 á forsíðu þingsályktunartillögunnar talað um að aflaheimildir í makríl verði seldar á ákveðnu kílóverði til báta undir 30 brúttótonnum til að veiða á grunnslóð og að heimildirnar verði ekki færanlegar á milli báta. Svo er farið yfir það í tveimur liðum hvernig eigi að ráðstafa því. Við vinstri græn erum hlynnt því að þær séu fengnar til leigu og að aflinn sé ekki framseljanlegur. Á síðasta kjörtímabili var lagt fram frumvarp um þetta þar sem meðal annars var talað um að setja á stóran leigupott ríkisins, sem gert var ráð fyrir að mundi stækka eftir auknum heildarafla.

Ég held líka að mjög mikilvægt sé að tekjur sem verða til vegna þessa afla verði nýttar til byggðatengdra verkefna. Ég nefndi Grímsey áðan og þá dettur manni í hug að þar sem eru veikari byggðir þurfi kannski að efla eitthvað annað en bara sjóinn og reyna að auka fjölbreytnina, þannig að við stöndum ekki frammi fyrir einhverju sambærilegu eftir örfá ár.

Við horfðum á eftir fyrirtæki hverfa frá Djúpavogi, frá Þingeyri, þar sem starfsemin var tekin eða kvótinn fluttur í burtu. Lítill kvóti eins og sá sem Byggðastofnun hefur til umráða dugar ekki í slíkum tilfellum og hvað viljum við þá gera? Við hljótum að vilja auka kvótann þannig að hægt verði að koma til móts við slík fyrirtæki eða gera eins og gert var á Djúpavogi. Þar voru unnar miklar og góðar tillögur um það hvað væri hægt að gera til að fjölga störfum eða koma til móts við þessa skerðingu og þá getum við sem þing auðvitað komið til móts við það.

Posted in Óflokkað

Ein ummæli

  1. Rachel

    If you need more traffic to your Um fiskinn | Bjarkey - hugsar upphátt website you can try a keyword targeted traffic service free for 7 days here: http://i7n.co/2ck97