Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Ný háskólamenntuð störf verða til - notum tækifærið!

23. júní 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Auglýst hafa verið störf á Starfatorgi http://www.starfatorg.is/serfraedistorf/nr/19620 vegna ráðgjafar og teymisstjórnunar á vegum Námsmatsstofnunar. Sú stofnun ásamt Námsgagnastofnun er ætlað nýtt hlutverk í Menntamálastofnun sem til umfjöllunar er í þinginu. Óvíst er þó um afdrif þess máls en menntamálaráðherra hefur engu að síður ráðið forstjóra og hafið flutninga á verkefnum og starfsfólki í húsnæði Námsgagnastofnunar í Víkurhvarfi.

Nú á sem sagt að ráða fólk/ráðgjafa til að veita ráðgjöf og stuðning til skóla og sveitarfélaga til að fylgja eftir Hvítbókaráætlun ráðherrans um læsi. Ráðgjöfunum er ætlað að styðja við kennara, foreldra skólastjórnendur og sveitastjórnir um allt land og miðla leiðum til að efla læsi nemenda í leik- og grunnskólum. Umsóknarfresti lýkur 29. júní n.k.

Það sem vekur athygli er að ráðgjafarnir eiga að hafa aðsetur í Námsmatsstofnun en starfa með kennurum og stjórnendum um allt land. Nú er um að ræða 5 ára verkefni og því má spyrja sig að því hvort ekki er upplagt að hluti þessara starfa geti t.d. tengst Háskólanum á Akureyri svona í anda byggðastefnu og lýðræðis.

Ég hvet sveitarstjórnarfólk og landshlutasamtök til að láta í sér heyra þegar tækifæri er til að fjölga háskólamenntuðum störfum á landsbyggðunum.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).