Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Niðurlagning Bankasýslunnar

19. maí 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Frú forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Mig langar að byrja á því að fjalla um það hvernig hæstv. ráðherra vísaði málinu til nefndar.

Það kemur fram í 13. gr. þingskapa um efnahags- og viðskiptanefnd að nefndin fjalli, með leyfi forseta, „um efnahagsmál almennt, viðskiptamál, þar með talin bankamál, fjármálastarfsemi og lífeyrismál, svo og skatta- og tollamál.“

Fjárlaganefnd fjallar vissulega um eignir ríkisins. Frá upphafi þegar Bankasýslan var stofnuð hefur öll sú umfjöllun farið fram í viðskiptanefnd og mér þykir því harla skrýtið að ráðherrann ákveði að vísa málinu til allt annarrar nefndar. Ég legg hér með til að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem ég tel það eiga heima og ég lýsi yfir furðu minni á hinu. Það kom fram í máli formanns efnahags- og viðskiptanefndar að hann hefur efasemdir um málið og má vera að það sé ástæðan fyrir því að það eru meiri líkur á því að formaður og varaformaður fjárlaganefndar séu hlynntari málinu, eða formaður fjárlaganefndar af hálfu Framsóknarflokksins. Eins og hefur verið reifað í dag og kom fram í ræðum, m.a. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, gengur það í raun gegn samþykktum á landsþingi Framsóknarflokksins að Bankasýslan verði aflögð sem og sala á eignarhlut Landsbankans, að 30% verði seld. Að sjálfsögðu er í lagi að vísa inn málum sem er ekki einhugur um, en ef það er svo að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur greitt þessu atkvæði á þingi sínu er svolítið sérstakt ef farið verður alfarið gegn því. Fólk verður að eiga það við sig en við í stjórnarandstöðunni veltum fyrir okkur hvort við séum að ræða mál sem ekki er meiri hluti fyrir í þinginu. Hæstv. fjármálaráðherra gat ekki svarað því hvort svo væri en fyrst en fremst finnst mér ankannalegt að fara gegn þingsköpum, í ljósi þess að efnahags- og viðskiptanefnd fjallar um bankamál og þess að síðan Bankasýslan varð til hefur öll umfjöllun um hana og meira og minna allt sem snertir hana, skýrslur og annað sem gert hefur verið, farið til umfjöllunar í þeirri nefnd. Þetta var það sem ég vildi sagt hafa í upphafi.

Eins og komið hefur fram í dag er ýmislegt í frumvarpinu sem er ágætt og annað sem er minna í lagi. Saga Bankasýslunnar er rakin, hvernig hún varð til og af hverju og mér finnst ástæða til að við spyrjum að því af hverju Bankasýslan var sett á laggirnar. Af hverju var ákveðið að fara þá leið? Það er vegna þess að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var meðal annars bent á að það þyrfti að búa til meiri fjarlægð, vegna þess hvernig við stóðum að því að einkavæða og hvernig við fórum með fjármálafyrirtækin okkar. Þetta er fyrirkomulag sem hefur þrátt fyrir allt gengið ágætlega og finnist fólki einhverjir agnúar á því væri að mínu viti nær að sníða þá af frekar en að leggja stofnunina niður. Við stöndum frammi fyrir því að væntanlega kemur til þess á allra næstu missirum að við seljum eignarhlut okkar í að minnsta kosti í tveimur stærri bönkunum og við þurfum líka að halda utan um sparisjóðina, þá sem eftir eru. Núna er málið farið að taka á sig þá mynd sem Bankasýslunni var ætlað að sjá um og þess vegna finnst mér óvarlegt af ráðherranum að tala eins og starfsmenn Bankasýslunnar hafi ekkert að gera, eins og ég sagði í andsvari áðan mætti halda að starfsfólkið þar og stjórnarmenn gerðu ekki neitt, hvort það væri að verðmeta Landsbankann alla daga. Það má vel vera að breyta megi fyrirkomulaginu en það er óvarlegt að leggja það niður.

Það kemur fram í 13. gr. að gildistakan er 1. janúar 2016, þá falla úr gildi lög um Bankasýsluna. Á bls. 6 kemur fram tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar þar sem farið er yfir þá ákvörðun Alþingis að lækka fjárframlög til Bankasýslunnar um nærri helming. Eins og eftirminnilegt er átti að fella fjárheimildirnar niður í fjárlögum síðasta haust, sem kemur reyndar fram hér, eins og það var lagt fram í haust voru fjárheimildir til stofnunarinnar alfarið felldar niður. Við náðum sem betur að lagfæra það, enda svolítið sérkennilegt að ætlað sér að starfrækja stofnunina fram á mitt ár en svo er enginn fjárlagaliður til sem snýr að því að borga út laun og annað slíkt hjá Bankasýslunni. Ráðherra áttaði sig á því og það var lagfært. Eins og ég segi eiga lög um Bankasýsluna ekki að falla úr gildi fyrr en 1. janúar 2016 og þá hlýtur að vanta fjárheimildir inn í Bankasýsluna, það er tæplega hægt að láta hana hætta að starfa af því að lögin gilda um hana fram til áramóta. Það hlýtur að vera eitthvað sem kemur inn í fjáraukalögum, ég skil þetta a.m.k. þannig. Það væri ágætt ef einhver leiðrétti mig hvað það varðar.

Svo er það líka að sú þekking sem skapast hefur af störfum Bankasýslunnar, bæði nefndarinnar og starfsmannanna, er mikilvæg, eins og hjá flestum öðrum sem fara með slík sértæk málefni. Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins er Ríkiskaupum ætlað að fara formlega með sölumeðferðina fyrir hönd ríkisins og á að hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa. Það hlýtur að kosta eitthvað. Síðan getur ráðherra leitað umsagnar ráðgjafarnefndar um tillögur eða tilboð sem Ríkiskaup er með í höndunum. Án þess að ég sé að gera lítið úr starfsfólki Ríkiskaupa veltir maður fyrir sér því að flytja yfir á tiltekna stofnun sem til er í samfélaginu af því að það hentar betur.

Mér hefur verið tíðrætt um að mér finnist þessi ríkisstjórn draga töluvert til sín vald og mörg frumvörp hafa falið í sér að verið er að draga til sín vald. Mér finnst þetta frumvarp vera eitt þeirra, því að í 8. gr. segir að ráðherra geti að eigin frumkvæði tekið ákvörðun um að hefja sölumeðferð einstakra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hann þarf ekki að bera það undir neinn. Ég er ekki að ætla honum að vilja ekki gera það en hann þarf ekki að gera það, málinu er stillt þannig upp og það finnst mér of mikið vald. Ég vil að Alþingi hafi meira með það að gera og einnig tel ég að ef okkur finnst eitthvað athugavert við það fyrirkomulag sem nú er, t.d. varðandi skipun í ráð eða stjórn Bankasýslunnar eða annað því um líkt, getum við lagfært það. Við gætum meðal annars gert það með því að auka aðkomu þingsins, fremur en hafa það alfarið á höndum ráðherra.

Auðvitað hafa farið fjármunir í þessa stofnun en við skulum ekki gleyma því hvers vegna hún varð til. Það var af því að farið var óvarlega með fjármálastofnanir. Eignin er upp á 250–300 milljarða, sem við erum að velta fyrir okkur. Við fáum tugi milljarða í arðgreiðslur á ári og það að stofnun kosti 50 millj. kr. í rekstri á ári meðan við reynum að selja þessa eignarhluta er aðeins dropi í hafið, og þá er ég ekki að gera lítið úr því að við höfum nóg við aurana að gera, en þetta er mjög verðmætt. Það er mjög verðmætt hvernig á því er haldið og það skiptir gríðarlega miklu máli. Það skiptir máli að hafa trúverðugleika og byggja upp það traust sem við erum í svo mikilli þörf fyrir í samfélaginu, þingmenn og ekki síður fjármálastofnanir. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og sagt að við eigum að bíða með þetta og lagfæra agnúana fremur en hitt.

Það var ágætlega farið yfir fyrr í dag ferlið eða samskiptin á milli ráðuneytis og ráðgjafarnefndar sem er dregið út hér, þ.e. samkvæmt lögunum sem í gildi eru er ákveðið ferli til staðar á milli Bankasýslu, valnefndar og ráðuneytis sem felst m.a. í því að ráðherra þarf að vera með skriflegt erindi og það þarf að leggja fyrir nefndir o.s.frv. Við hljótum alltaf að vilja gera betur en það sem miður hefur farið og það tel ég vera verkefni okkar hér frekar en að leggja stofnunina niður.
Því hefur verið velt upp í dag að óheppilegt sé að hafa þetta inni í ráðuneytinu vegna þess að við erum ekki með viðskiptaráðuneyti, sem fór með fjármálamarkaðinn áður. Nú er eftirlitið og framkvæmdin, löggjöfin, allt á sama stað. Það getur ekki talist traustvekjandi og núna þegar stjórnirnar koma nánast skipaðar að utan frá þessari nefnd, þegar ráðherra er búinn að leggja blessun sína yfir það, t.d. í Landsbankanum, er þetta allt saman eins og hér var sagt, fært einu stigi nær ráðherra en áður.
Mér fannst ágæt yfirferðin hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar þegar hann velti upp hlutverki Landsbankans sem beinu aðhaldi að fjármálastofnunum samfélagsins. Mér finnst það mun áhugaverðari pæling en að selja eignina. Ég mundi vilja eiga bankann, það er mín skoðun, en það geta verið skiptar skoðanir um það. Varðandi þetta frumvarp er ýmislegt um það að segja en í ljósi þess að við viljum reyna að auka sjálfstæðið, viljum reyna að treysta gagnsæi og trúverðugleika, eins og hér er tekið fram, við meðferð eignarhalds og sölu eignarhluta, finnst mér þetta ekki vera aðgerð til þess. Talað er um að byggja upp sterkari umsýslueiningu innan fjármálaráðuneytisins og það er eins og það eigi allt saman eftir að eiga sér stað. Þess vegna er ekki óeðlilegt að maður spyrji sig: Er fjármálaráðuneytið — sem hefur auðvitað þurft að þola niðurskurð eins og önnur ráðuneyti, gleymum því ekki að það fékk á sig 5% niðurskurð eins og önnur ráðuneyti rétt sisvona, korter fyrir jól 2013, og það snerist þá bara um mannahald — tilbúið til að taka við þessu? Með því að ráðgjafarnefndinni er ætlaður staður innan ráðuneytisins, þ.e. þeirri þriggja manna nefnd sem ráðherra skipaði, hafi starfs- og fundaaðstöðu auk þess sem ráðuneytið veitir upplýsinga- og gagnaöflun, útreikning og aðra nauðsynlega þjónustu, er ráðgjafarnefndin eiginlega orðin partur af ráðuneytinu. Í mínum huga er hún ekki sjálfstætt starfandi með armslengd. Ég sé það ekki fyrir mér. Það má vel vera að hægt sé að færa einhver rök fyrir því en mér finnst frumvarpið alla vega ekki gera það.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).