Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Enn um sameiningarblæti Illuga

15. maí 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Störf þingsins 13. maí

Ég var að hugsa um að halda áfram með málið sem ég ræddi hér í gær og varðaði sameiningu framhaldsskóla á landsbyggðinni. Mikil alvara blasir við þegar ljóst er eftir fund dagsins í dag, sem skólameistarar nokkurra skóla á Norðurlandi voru boðaðir á í menntamálaráðuneytinu, að sameining skóla á stóru svæði liggur fyrir. Það er grafalvarlegt mál að hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson leyfi sér að fara þessa leið án þess að ræða það í þinginu eða við allsherjar- og menntamálanefnd.
Nú á að vinna fýsileikaskýrslu. Við vitum að búið er að ákveða þetta af því sem sagt er. Þetta á að gera og það er því sýndarmennska að vinna slíka fýsileikaskýrslu.
Skólameistari framhaldsskólans í Grundarfirði hefur sagt upp störfum. Ekki hafa fengist svör um hvort ráða eigi nýjan skólameistara. Það ber allt að sama brunni. Þegar leitað er eftir skýrum svörum í menntamálaráðuneytinu þá fást þau ekki.

Virðulegi forseti. Svona stefnumótandi ákvarðanir verðum við að ræða hér á þingi. Það er ekki verið að tala um að sameina skóla á höfuðborgarsvæðinu nema þegar það sem snýr að því að sameina ríkisskóla einkaskóla, þá kemur einkavæðingarblæti hæstv. menntamálaráðherra fram, en að öðru leyti stendur ekki til að sameina skóla sem eru sambærilegir.

Ráðherra hefur ekki svarað spurningum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um þessi mál, sameiningaráform í framhaldsskólum, sem er mjög miður og hefði þurft að vera búið að gera.

Ég ítreka að þetta er óviðunandi. Ég óska hér með formlega eftir því, virðulegi forseti, að haldinn verði opinn fundur í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem hæstv. ráðherra verður til svara um þessi mál.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).