Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Er okkur alvara með byggð í öllu landinu?

15. apríl 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Enn og aftur erum við minnt á afleiðingar markaðsvæðingar kvótakerfisins, Grímsey blæðir og byggð í eynni í hættu. Skemmst er að minnast afleiðinga ákvörðunar eigenda Vísis í Grindavík þegar þeir fóru með kvótann og vinnsluna frá Djúpavogi og Þingeyri.
En þetta eru ekki einu staðirnir sem illa standa vegna fiskveiðistjórnunarstefnunnar. Hvert einasta byggðarlag, sem á einhvern hátt byggir afkomu sína nær eingöngu á útgerð á undir högg að sækja.

Fjársterkir aðilar geta hæglega gert heilu byggðarlögin óbyggileg á stuttum tíma, nánast á einni nóttu með kvótakaupum. Hinir stóru og fjársterku gleypa þá minni í greininni og allt er lítur að starfsöryggi íbúa eða öðrum samfélagslegum sjónarmiðum er hent fyrir róða.
Í þessum litlu þorpum snertir það hvern einasta íbúa ef kvóti er seldur úr byggðarlaginu. Þar eru fjölskyldur sem hafa á einn eða annan hátt lagt sitt af mörkum til þjóðfélagsins og telja sig hafa öðlast einhvern rétt til þess að búa þar sem þær kjósa en því er ekki að heilsa. Ekki er bara um að ræða að vinnan sé í hættu eða tekin frá þeim heldur eru allar eigur þess m.a. fasteignir sviptar verðgildi sínu og allt vegna markaðsvæðingar kvótakerfisins.
Það er að mínu mati svo andstætt öllum rökum að markaðssetja fiskinn í sjónum með þeim hætti sem nú er og þar með heilu byggðarlögin að það nær nánast engri átt.

Byggðafjandsamlegt fiskveiðistjórnunarkerfi

Fiskveiðistefnan á auðvitað að vera hluti af byggðastefnunni og miða að því að byggð haldist í landinu. En núverandi kerfi vinnur að mínu mati algjörlega á móti byggðarsjónarmiðum sem sýnir sig best í þeim dæmum sem ég tók hér að ofan. Að ekki sé talað um þær byggðir sem veikst hafa mörg undanfarin ár vegna kaupa og sölu á kvóta.

Sú pólitíska ákvörðun sem felst í fiskveiðistjórnunarkerfinu, að láta handhafa kvótans hafa sjálfdæmi um ráðstöfun og framsal veiðiheimilda, eykur hættuna á að enn fleiri minni byggðarlög hreinlega leggist af. Það er afleitt kerfi sem er þannig úr garði gert að ákvarðanir stærri útgerða, í eiginhagsmunaskyni, hafa í höndum sér afkomu fjölskyldna sem þeir svo flytja hreppaflutningum. Fjölskyldur sem hafa valið sér búsetu og lagt sitt af mörkum til að viðhalda byggð í landinu.

Auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Það er dapurt að almenningur fái engu ráðið um þróunina í sjávarútveginum og sé leiksoppur örfárra handhafa kvótans hverju sinni. Þrátt fyrir vilja stórs hluta þjóðarinnar hefur okkur ekki borið gæfa til að setja nýja stjórnarskrá sem m.a. tryggir eign þjóðarinnar á sameiginlegum auðlindum og sanngjarnt gjald fyrir afnot þeirra. Því var ítrekað hótað á síðasta kjörtímabili, m.a. af hálfu útvegsmanna, að ef það yrði gert yrði farið með slíkar breytingar á kerfinu fyrir dómstóla og skaðabótakrafa gerð á ríkið.
Ef breyta á einhverju til hins betra í samfélaginu þá er auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem ver eignarrétt þjóðarinnar nauðsynlegt.

Það er ekki hægt að karpa um fiskveiðistjórnunarkerfið í mörg ár og láta byggðunum blæða út. Við þurfum að ná sáttum og tryggja undirstöður byggðalaganna sem byggja lífsafkomu sína nær eingöngu á sjávarútvegi og binda aflaheimildir við byggðarlögin.

En framar öllu - þessi auðlind á ekki að vera til sölu.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).