Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um sameiningu stofnana og þarfir barna

2. mars 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Störf þingsins 25. febrúar

Við þingmenn fengum senda áskorun frá Samfok vegna skólastefnunnar skóla án aðgreiningar þar sem m.a. er farið inn á það að þjónusta og stuðningur við börn með hegðunarvanda, kvíða eða geðræn vandamál eða þroskahamlanir er engan veginn viðunandi. Þar er rætt um biðlistann á BUGL og Þroska- og hegðunarstöð og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins en biðtíminn núna er meira en ár. Einnig er líka algengt að bið eftir tíma hjá talmeinafræðingum sé um 12–18 mánuðir.

Í þessu sambandi langar mig að víkja að frumvarpi sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi sem á að sameina ýmsar ólíkar stofnanir er koma að málum barna og fullorðinna og afar skiptar skoðanir eru um. Það kemur fram í mörgum umsögnum, m.a. frá Félagi barna- og unglingageðlækna, að frumvarpið geti haft víðtæk áhrif á þjónustu við börn með þroskaraskanir og það sé skref í ranga átt að sameina þjónustu sem hefur verið veitt börnum og unglingum í eina miðstöð sem sinni öllum aldurshópum.

Barnaverndarstofa leggur líka til að horfið verði frá fyrirhugaðri sameiningu og bendir á að álag á Greiningar- og ráðgjafarstöðina sé nú þegar mikið og fjölda mála vísað frá. Barnaheill segir að greiningarstöð sé forsenda þess að börn njóti þeirrar þjónustu sem þau þurfa til að geta notið menntunar og besta mögulega heilsufars og minnir á að allar ákvarðanir ríkisns, þar á meðal löggjafans, þurfi að gæta að sjónarmiðinu um það sem er barni fyrir bestu.

Í umsögn við frumvarpið kemur fram frá fjármálaráðuneytinu að ekki liggi fyrir rekstraráætlun fyrir sameiginlega stofnun af hálfu velferðarráðuneytisins en samkvæmt lauslegu mati þess gæti uppsafnaður ávinningur af sameiningunni orðið samtals um 100 millj. kr. á árunum 2015–2020. Gert er ráð fyrir 9% starfsmannaveltu á þessu tímabili og samrekstur hugbúnaðar- og upplýsingakerfa skilar um 20 millj. kr. hagræðingu.

Sem sagt sparnaður í sveltu kerfi.

Samfok skorar á sveitarfélög og ríki að bregðast við og uppfylla ákvæði laga og barnasáttmála um stuðning og þjónustu við börn því að þann tíma sem barn er án greiningar eða þjónustu er erfitt að bæta upp síðar. Börn eru minnihlutahópur í samfélaginu, hópur sem ekki hefur sterka rödd og því er mikilvægt að til staðar séu stofnanir sem hafa það hlutverk sérstaklega að gæta að þeim og veita þeim þjónustu.

Sá hópur sem nýta þarf þá þjónustu sem hér um ræðir þarf ekki á því að halda að mál þeirra séu sett í það uppnám sem fylgir áðurnefndu frumvarpi.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).