Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Af nógu að taka

1. febrúar 2015 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

DV - kjallari 20. janúar 2015

Um áramót er rétt er að fara yfir nokkur mál sem stjórnarandstaðan hefur rætt á þingi m.a. í sambandi við fjárlögin í haust. Mörg þessara mála snerta okkur öll með einum eða öðrum hætti. Ríkisstjórnin hefur gefið okkur mörg tilefni til virkrar andstöðu, bregðast við og gera athugasemdir. Þar höfum við ekki legið á liði okkar.

Menntamálin

Fjárlögin koma sérstaklega illa við marga litlu framhaldsskólana úti á landi og þurftu einhverjir þeirra að fækka eða neita nemendum um skólavist strax um áramótin. Út með þá sem eru orðnir 25 ára þeir geta borgað meira fyrir sitt nám og hafa ekkert í hefðbundinn framhaldsskóla að gera. Einn af þeim skólum sem kom illa útúr niðurskurðinum er Fjölbrautarskóli Snæfellinga sem þurfti að fækka fjarnemum við skólann um nærri helming á vorönn vegna niðurskurðar á fjárlögum. Þar sem sá skóli hefur starfað frá stofnun með áherslu á dreifnám skyldi maður ætla að það væri hluti af kjarnastarfsemi hans en það virðist menntamálaráðherra ekki skilja. Tólf skólar úti um land hafa myndað með sér samstarf um Fjarmenntaskólann sem gerir þeim kleift að halda úti einstaka áföngum og bjóða uppá fjölbreyttara nám öllum til hagsbóta, líka staðnemum. Ekki er ólíklegt að þessi nálgun leiði til sparnaðar með ýmsum hætti fyrir utan þau háskólamenntuðu störf sem fækkar með ákvörðun ráðherrans. Um þetta ræddum við ítrekað í stjórnarandstöðunni en menntamálaráðherra kaus að hlusta ekki.

Háskólinn á Akureyri komst i fréttirnar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga en hann galt afhroð við úthlutun úr 617 milljóna potti og fékk einungis 10,3 m. sem meirihluti fjárlaganefndar skilyrti og vó með því að akademísku frelsi skólans. Aðrir skólar voru ekki háðir skilyrðum við sína úthlutun. Einnig voru auknir fjármunir, 800 m., settir í samkeppnissjóði vegna rannsókna fyrir þetta ár en engin umsókn frá HA hlaut þar styrk. Þess má geta að forsætisráðherra er formaður vísinda- og tækniráðs. Afar góð umfjöllun um þetta mál er í Akureyri vikublaði þann 15. janúar sl.

Ríkir stöðugleiki?

Stjórnarandstaðan hefur rætt málefni lækna og stöðu heilbrigðismála allnokkuð á liðnu haustþingi. Hvorki fjármála- eða forsætisráðherra töldu sig geta haft nokkur afskipti af þeirri deilu. Hvurslags málflutningur er þetta þegar samningavaldið er í höndum ríkisins?! Eftir margra mánaða deilu með tilheyrandi kostnaði þá þarf fjármálaráðherrann að punga út miklum fjármunum til að bregðast við afleiðingunum vegna eigin slóðaskapar.
Svo segir þessi sami ráðherra sem og forkólfar atvinnulífsins að ekki sé hægt að hækka launin við almennt launafólk og þeir verði nú að gæta sín því stöðugleikinn sé að veði. Ég held að íslenskir launþegar hafi ekki skorast undan því að gera sitt til að viðhalda stöðugleika og lágri verðbólgu en ég er hrædd um að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi ekki áttað sig á því hlutverki sem þeim var fengið að sjá til þess að þjóðarkökunni sé skipt með réttlátum hætti.

Matarskattur og brauðmolar

Stjórnarandstaðan hefur rætt matarskattinn og minnt á tekjuskattsbreytingarnar frá fyrra þingi í fjárlagaumræðunni. Bjarni Bene¬dikts¬son telur að ekki sé á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að neytendur séu varðir með því að skipulagt eftirlit verði með því hvort vörugjaldalækkunin skili sér til neytenda. Matarskattshækkunin var jú réttlætt með lækkun þeirra gjalda en fólkið á sjálft að sjá um eftirlitið og við höfum nú þegar séð hver viðbrögð verslunarinnar eru við kvörtunum almennings. Er fjármálaráðherra alveg sama hvort vörugjaldalækkunin skilar sér til neytenda eða ekki?

En Bjarni hefur líka sagt að nú sé tímabært að huga að næstu breytingum á tekjuskatti einstaklinga og stefna að skattalækkunum hjá þeim, fækka skattþrepum og skoða samspil tekjuskattskerfisins við bótakerfið. Því tekjuskattskerfið skal ekki nota sem jöfnunartæki það passar ekki íhaldinu.

Allskonar

Svona í lokin þá er vert að rifja upp að við Vinstri græn ræddum fjölmörg önnur mál mál á haustþinginu m.a. Landspítalann, aukna greiðsluþátttöku sjúklinga, Bugl, RÚV, bókaskattinn, úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis, málefni sýslumanna og lögreglu, loftslagsmál, þróunarsamvinnu og skuldaniðurgreiðsluna svo fátt eitt sé nefnt.
Stjórnarandstaðan er ötul við að veita ríkisstjórninni viðnám með málefnalegri andstöðu.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).