Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Um hækkun virðisaukaskatts

21. desember 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti. Ætli það sé ekki óskhyggja þar sem hv. þingmaður endaði á að segja að við gætum sammælst um skattkerfi því að það sem hefur gerst akkúrat núna er það sem hv. þingmaður var einmitt að ræða um, að þessi ríkisstjórn er lögst í þá vegferð að afnema allt sem fyrri ríkisstjórn gerði. Það er næstum því sama hvað það var. Helst af öllu er það skattkerfi sem öllu á að breyta og ryðja til því að það er jöfnunartæki sem henni er ekki að skapi.

Ég ætlaði aðeins að ræða um þetta tekjufrumvarp og velta upp spurningum af því að mér finnst hún ekki halda vatni, þessi klisja ríkisstjórnarinnar um einföldun í skattkerfinu sem rökstuðningur fyrir því að fara í skattkerfisbreytingar. Það hefur verið farið ágætlega yfir það hér að þrepaskiptingin breytist í sjálfu sér ekki þó að skattprósentan breytist. Ég held að það sé blekkingaleikur að halda að þeir sem hafa einlægan ásetning í að svíkja undan skatti geri það ekki hvort sem þeir eiga að skila í 7%, 11% eða 24%. Vissulega er verið að færa einhverja hluta ferðaþjónustunnar inn undir sem ekki voru þar áður og það er í sjálfu sér vel en þetta eru hins vegar stórar og miklar breytingar, ekki endilega fyrir ferðaþjónustuna sérstaklega heldur almenning í landinu. Ég er talsmaður þess að skattkerfið sé einfalt og að skattrannsóknarstjóri fái nægt fjármagn til að fylgjast með og reyni að auka eftirlit með skattalöggjöfinni okkar miklu frekar en að hræra í því með þeim hætti sem hér er gert. Eftir að hafa staðið í rekstri veit ég að það snýst bara um að við treystum því að allflestir séu heiðarlegir í sínum rekstri og skili því inn sem þeim ber en ekki að prósentan skipti höfuðmáli.

Það er svolítið hlálegt að rifja upp að fyrir ekki svo löngu voru forkólfar ríkisstjórnarinnar með mikinn hamagang og læti yfir þeim þriggja mánaða tíma sem ferðaþjónustan átti að fá í aðlögun vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn vildi hækka prósentuna í 14. Hér fór allt á hliðina. Það er svo merkilegt að núna heyrist mjög lítið í ferðaþjónustunni. Þeir sömu menn og töldu að þrír mánuðir væru of skammur tími sem var aukinn í sex mánuði og svo í níu reyndar gefa núna þriggja mánaða fyrirvara. Þetta er mjög sérstakt, þetta horfir allt öðruvísi við þegar þeir eiga í hlut. Ég held að það megi svo sem segja að sá hringlandaháttur að hækka þetta fyrst og lækka þetta svo geri kerfið ekki skilvirkt.

Eins og komið hefur fram í ræðum fólks um matinn hafa komið fram mörg álit sem styðja áhyggjur af því að lækkunin skili sér ekki en hækkunin fari strax út í verðlag. Það er ekki vegna þess að fólk hafi ekki ástæður til þess. Það hefur gerst áður. Þegar við erum að tala um nauðsynjavörur, ekki síst mat, er eðlilegt að fólk velti þessu fyrir sér. Meðaltalsþörfin snýst ekki um það hversu oft við þurfum að kaupa okkur ísskáp heldur skiptir hitt meira máli. Í þessu sambandi er vert að rifja upp þá skýrslu sem var gefin út fyrir fátækt, að mig minnir á síðasta ári, þar sem fram kom að allt of stór hópur þjóðarinnar, rúm 8% minnir mig, lifir á undir 160 þúsundum, skrimtir kannski öllu heldur. Það fólk getur ekki nýtt sér þær mótvægisaðgerðir sem vörugjöldin eiga að fela í sér, að ég tel. Þetta er sá hópur sem þarf bara að kaupa sér mat og borga hita og rafmagn til að komast af dag frá degi. Ég tel að þessi rök fyrir matarskattinum haldi, þ.e. að hafa hann lágan, en ekki þau rök sem hér eru flutt af hálfu meiri hlutans.

Þegar menn tala um barnabæturnar annars vegar vitum við að það er ekki nema brot af þjóðinni sem fær barnabætur, vissulega oft kærkomnar sem slíkar en það eru einstæðingarnir, öryrkjarnir og fleiri sem ekki endilega njóta þeirra. Þeir eru þá sá hópur í samfélaginu, ellilífeyrisþegar og fleiri, sem býr kannski við mjög lágar tekjur.
Í lokin veltir maður fyrir sér bókaútgáfunni og því sem snýr að okkur Íslendingum sem málsamfélag. Hér hefur ítrekað komið fram í umsögnum hversu þungt högg þetta verður, sérstaklega fyrir bókaútgáfurnar. Við sem neytendur finnum ekkert sérstaklega mikið fyrir því fyrr en kemur þá að því að bókaútgáfurnar gefast upp. Ég trúi ekki að hæstv. ríkisstjórn stefni að því. Eitt af því sem við verðum að standa með er að fólk njóti aðgengis að góðum bókmenntum. Það er hluti af menningu okkar og virðisaukaskatturinn til hækkunar þar er ekki neitt sem við getum staðið með. Í rauninni er sérstakt að taka sér ekki til fyrirmyndar stóran hluta Evrópuþjóðanna sem leggja engan virðisaukaskatt á bækur eða mjög lágan frekar en að hækka hann eins og hér er lagt til. Það bitnar helst á barnabókmenntunum eins og við höfum rakið áður.
Tónlistin og hljómplötuútgáfan er líka stór hluti af menningu okkar og verður fyrir barðinu á þessu. Allt þetta ber að skoða í ljósi þeirra virðisaukaskattshækkana sem hér eru lagðar til.

Margt annað kemur hérna fram og væri vert að fara í gegnum eins og virðisaukaskattinn á íþróttamálin öllsömul, hvað er undanþegið þar og hvað ekki. Það hefði þurft að bæta skattlagninguna á íþróttaferðalög barna og unglinga í gegnum hópbifreiðarnar, það hefði þurft að setja fé í ferðasjóð íþróttafélaganna til að mæta því en það held ég að sé ekki gert í þessu frumvarpi eða í einhverjum þeim tillögum sem hér liggja undir.

Ég treysti ekki þeim mótvægisaðgerðum sem hér eru lagðar til grundvallar. Mér finnst Framsóknarflokkurinn hafa reynst svolítið ódýr að láta sér þetta eina prósentustig duga og treysta því að vörugjöldin sem voru til umfjöllunar strax í upphafi dugi til og þetta eina prósentustig til að mæta öllum þeim fyrirvörum sem flokkurinn virtist setja. Eftir atkvæðagreiðslu fjárlagafrumvarpsins hér í gærkvöldi er ég alveg sannfærð um að mótvægisaðgerðirnar bæti ekki hag aldraðra eða öryrkja sem eins og ég sagði áðan verða kannski hvað verst fyrir barðinu á hækkuðu matvælaverði sökum lágra tekna.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).