Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Fjárlögin

15. desember 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti. Við ræðum hér mál málanna hverju sinni, sem eru fjárlög hvers árs. Það er full ástæða, hvort sem það er nú eða áður fyrr, að ræða þau mál sem varða fjárlögin því að það kemur við alla og skiptir okkur öll afar miklu máli hvernig fjárlögum er fyrir komið hverju sinni.

Ég hvet enn og aftur sem flesta þingmenn til að taka þátt í umræðunni og hef rætt við kollega mína um að það séu ekki aðeins fjárlaganefndarmenn eða einhverjir örfáir sem eigi að ræða fjárlögin heldur sé það sérstaklega upplýsandi fyrir okkur sem erum í fjárlaganefnd að fá að heyra í þeim sem sitja í fagnefndunum; þeir fara þar mun dýpra ofan í mörg mál en við í fjárlaganefnd og geta þar af leiðandi upplýst okkur enn frekar en ef þeir tækju ekki til máls. Ég hef haft þá skoðun að gefa eigi fjárlögum góðan tíma, helst eina fjóra daga, til að fólk þurfi ekki að vera undir tímapressu að ræða þetta.

Nú sit ég í allsherjar- og menntamálanefnd líka og þar fáum við ráðherra málaflokksins til okkar en það fáum við hins vegar ekki í fjárlaganefnd. Það er dálítið öðruvísi yfirbragð á því. Það er nefnd sem heldur utan um allt skapalónið; það er öðruvísi en þegar maður situr í fagnefndum og nálgast málin á annan hátt. Það hefði því verið mjög áhugavert að heyra fleiri tjá sig um sína málaflokka og sínar fagnefndir.

Ég fór vítt yfir sviðið í fyrri ræðu minni. Mig langar að fara betur ofan í nokkur mál og byrja á samgöngumálunum. Fjárlögin hverju sinni stýra því hvað þar er gert eins og víða annars staðar. Ég velti því fyrir mér, þegar ég fer í gegnum fjárlögin, hvernig eigi að vera hægt að leggja fram samgönguáætlun. Hún hefur ekki komið fram enn þá og ekkert virðist vera á döfinni með að hún líti dagsins ljós, enda er henni kannski ekki fundinn staður í fjárlagafrumvarpinu og erfitt að leggja slíka áætlun fram þegar það liggur ekki fyrir. Ég hef áhyggjur af því, og ég hef sagt það oft áður í þessum ræðustóli varðandi Vegagerðina, og tel það mikið áhyggjuefni að við skulum vera að taka úr nýframkvæmdum yfir í viðhald og að sáralitlar eða engar nýframkvæmdir skuli vera fyrirhugaðar á næstunni. Það er ekki gott þrátt fyrir að við vitum að viðhaldið er afar bágborið og vel hægt að nýta þessa peninga í það.

Mig langar að gera Isavia að umtalsefni og þá arðgreiðslu sem lögð er til í tillögum meiri hlutans, upp á 700 millj. kr. Því hefur aðeins verið velt upp í umræðunni hvort það sé eitthvert vafamál og forstjórinn hefur meðal annars lýst því yfir að hann skilji þessi skilaboð meiri hluta fjárlaganefndar á þann veg að þetta sé það sem hann hugsar sér en telur í raun ekki að fjárlaganefnd hafi boðvald yfir stjórn Isavia hvað þetta varðar. En burt séð frá því þá erum við öll sammála um það, held ég, eða allflest að minnsta kosti, að flugvellirnir á landsbyggðinni hafi ekki fengið þá umsýslu sem þeim ber og alveg ljóst að sumir eru mjög illa farnir. Taldir eru upp í tillögu meiri hluta fjárlaganefndar nokkrir flugvellir sem eru vel að því komnir að fá aukna fjármuni, hvort heldur sem er í viðhald á vellinum eða flugleiðsögubúnað eða eitthvað slíkt. En svo hugsar maður: Af hverju þessir vellir en ekki einhverjir aðrir?

Húsavíkurflugvöllur — ég kalla hann alltaf Aðaldalsflugvöll en líklega heitir hann það ekki lengur. Það kom upp atvik um daginn sem vekur mann til umhugsunar um að þar er töluvert verk fyrir höndum, gamall búnaður og annað því um líkt. Nú vitum við að fram undan er mikil uppbygging, m.a. á Bakka, og hefur verið gríðarleg aukning í hvalaskoðanir og annað slíkt, þetta er hvalaskoðunarbærinn. Því spyr ég mig: Af hverju var þessi flugvöllur ekki inni í þessum tillögum? Væri möguleiki á því að hann færi þarna inn, gæti meiri hlutinn séð það fyrir sér eða er þetta alveg niðurneglt að það eru eingöngu þessir flugvellir? Við eigum eflaust eftir að ræða þetta í fjárlaganefnd milli 2. og 3. umr. og fáum þá væntanlega tækifæri til að spyrjast fyrir um þetta þó að ég geri það hér líka. Mig langar að vita hvernig þetta var valið, af hvaða tilefni sérstaklega.

Innan þessara samgöngumála höfum við talað um fjarskipti en ég er afskaplega ánægð með þá viðbót, þennan 1. áfanga, sem þar er lagt til að farið verði í. Ég vona að einbeittur vilji sé til að halda því verkefni áfram því að eins og ég hef sagt hér í ófá skipti þá skiptir þetta miklu máli varðandi búsetu, hvar fólk ákveður að búa, hvar fyrirtæki ákveða að setja sig niður o.s.frv. Þetta er mál málanna að svo mörgu leyti þegar kemur að búsetu.

Enn einn þátturinn þarna inni er niðurgreiðsla á húshitun. Rétt um 70 millj. kr. eru áætlaðar í niðurgreiðslu á húshitun og ég held að við í fjárlaganefnd þurfum, aftur núna á milli umræðna, að skoða hvort þetta skilar þeim árangri sem því er ætlað þar sem virðisaukaskatturinn er að hækka. Fram hafa komið efasemdir um það. Þetta er eins og með matarskattinn; framsóknarmenn settu fyrirvara við að hann skilaði sér til neytenda á þann hátt, þ.e. þær mótvægisaðgerðir sem lagðar væru til. Þetta er ekkert öðruvísi. Þarna leggjum við til fjármuni til að greiða niður og jafna aðstöðu fólks. Ef við hins vegar leggjum eitthvað annað til sem hreyfir við því þá hljótum við, að sama skapi og með matarskattinn og vörugjöldin og þær mótvægisaðgerðir, að vilja vera viss um að þetta sé líka í lagi. Ég kalla eftir því að við fáum þær tölur í fjárlaganefnd, þann samanburð, hvort það er alveg þannig.

Mig langaði líka aðeins að fara ofan í áhyggjur sem við höfum mikið rætt, það eru velferðarmálin, það sem þar kemur fram. Við í Vinstri grænum höfum rætt mikið um að okkur finnst þátttaka sjúklinga í margvíslegum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu því miður stefna óðfluga í þá átt að verða meiri og meiri í staðinn fyrir að við leggjum okkur fram um að reyna að draga hann saman þannig að fólk beri minni kostnað en ella. Gæfan virðist ekki vera í þá áttina núna og það veldur mér miklum áhyggjum að ríkissjóður ætli sér að spara rúmlega 300 millj. kr. með því að auka þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði.

Við höfum fengið töluvert af pósti nú undanfarið, þingmenn, þar sem öryrkjar og lífeyrisþegar, sem tóku verulega á sig eftir hrun — það er ekki þeim að kenna hvernig staðan var eftir hrun, það voru ekki þeir sem stóðu fyrir því. Auðvitað þurfum við að standa saman í því að leiðrétta kjör þessa fólks. Það er ekki sæmandi fyrir okkur sem þjóð að fólk nái ekki endum saman, að það lifi við hungurmörk. Það vill það enginn og við viljum það ekki. Ég trúi því ekki að við hér inni viljum það en við þurfum þá líka að sýna það í verki. Þetta fólk stóð með okkur strax eftir hrun, það tók á sig skerðingu í þeirri von að hún yrði lagfærð og leiðrétt þegar betur færi að ára. Það eru til peningar í ríkissjóði. Það er reyndar búið að ákveða að deila þeim út á tiltekinn hátt sem kemur þessu fólki ekki endilega til góða. Ég hefði gjarnan viljað sjá það koma þessu fólki til góða.

Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram tillögu til að svo megi verða, þ.e. að byrja þá vegferð því að það er væntanlega bara fyrsti áfangi af mörgum til að reyna að ná þessum lágmarkslífeyrisréttindum og launum upp svo að mannsæmandi sé. Það veldur vonbrigðum að slíkt skuli ekki vera gert og af því að ég ræddi aðeins um daginn tillögu meiri hlutans, sem kemur til vegna breytinga á þjóðhagsspá, þá er ákveðið að fylgja neysluvísitölunni til hins ítrasta og lækka fyrirhugaða hækkun úr 3,5% í 3%. Ég vonast til þess að meiri hlutinn endurskoði þá ákvörðun. Af því að hv. formaður fjárlaganefndar er hér í sal þá biðla ég til hennar um að það verði gert. Ég held að það sé mikið sanngirnismál að þetta fái að haldast inni.

Lögreglan og sýslumenn hafa verið í umræðunni þessa síðustu daga, meðal annars í mínu kjördæmi. Ég hef spurt bæði dómsmálaráðherra og fyrrverandi innanríkisráðherra um þetta mál. Ég ræddi þessi mál mikið þegar þessi lög voru til umfjöllunar, hafði ákveðnar efasemdir um suma þætti þeirra. Bæði hafði ég áhyggjur af því sem er kannski akkúrat að gerast núna, þ.e. að af stað færi eitthvert tog um það hvar hverjir ættu að eiga heima, hvar hverjir ættu að eiga næturstað, lögreglustjóri, sýslumenn o.fl., og einnig varðandi fjárhaginn. Það virðist vera rökstuðningurinn og ég spurði sérstaklega vegna sýslumannsins fyrir austan af því að ég var búin að heyra að efasemdir væru um að fjárframlögin dygðu, að embættið væri nógu stöndugt ef Hornafjörður færi út úr því. Ég var búin að spyrja eftir því hver vilji heimamanna væri og fékk í raun á þeim tíma ekki svör við því.

Það er mjög bagalegt í svo viðamiklu máli, sem þessi breyting á tilhögun lögreglu og sýslumanna er, að þetta skuli koma upp á lokametrunum, einhver ágreiningur og gjörningur af hálfu þáverandi dómsmálaráðherra, að þetta skuli ekki hafa verið útrætt og afgreitt á góðum tíma. Það var eitt af því sem ég spurði um: Er þessi tímarammi nægur til að sinna þessu svo að vel sé og ganga frá málunum? Mér var tjáð að svo væri en mér finnst það augljóslega ekki vera þegar svona lagað kemur upp, hvorki varðandi fjárframlögin né þá ákvörðun sem virðist hafa verið tekin núna.

Það er ekki bara þessi angi í þessu máli sem hefur verið ræddur vegna fjármuna. Efasemdir eru uppi um að hægt sé að halda úti löglærðum fulltrúum á þeim stöðum sem þeir hafa verið áður og í ljósi þess sem hér er komið upp, að lögreglustjórinn fyrir austan segir að hann telji að embættið sé ekki nógu fjárhagslega sterkt ef hann fækkar um fimm lögreglumenn, þarf kannski að fara yfir málið í heild sinni. Er það þá almennt þannig eða er búið að ná þessu fyrir vind? Er ástandið orðið þannig að öll önnur embætti alls staðar annars staðar séu vel fjármögnuð og menn hafi ekki áhyggjur þar? Það voru uppi áhyggjur fyrir norðan líka varðandi þetta, þetta á ekki bara við um þetta eina mál þarna fyrir austan.

Mig langar líka til að ræða atriði sem hefur verið okkur mörgum ofarlega í huga og það var rætt aðeins áðan, það er verkfall lækna. Þó að við sem fulltrúar á þingi grípum ekki beint inn í verkfallsaðgerðir hlýtur það að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og forustu hennar að leita leiða til að vita hvort hægt er að koma þar eitthvað á móti og reyna að leysa þann hnút sem á virðist kominn. Það erum jú við sem skattgreiðendur, ríkissjóður, sem stöndum frammi fyrir því, að sögn lækna, að óyfirstíganlegt ástand er að skapast. Heilbrigðisstarfsfólk óar við biðinni eftir því að aðgerðir komist í gang, hinar margvíslegustu aðgerðir. Þetta er miklu alvarlegra en við áttum okkur á og fyrirséðum kostnaði er ekki mætt í þessum viðbótartillögum.

Það liggur fyrir, hvort sem samningar nást eða ekki; ef þeir nást með einhverjum tilteknum tölum sem hér þarf ekki að ræða þá er uppsafnaður vandi í heilbrigðiskerfinu, sem er alls ekki vel statt eins og við vitum, orðinn mikill og engin tilraun gerð hér til að meta það eða ganga úr skugga um að við eigum til fjármagn til að mæta þessu. Og hvað ætlum við þá að gera? Hvernig sjá stjórnarliðar fyrir sér bókhaldið á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Sjúkrahúsinu á Akureyri, heilsugæslustöðvum eða þar sem verkfall er? Ég velti því fyrir mér af því að ég hef gríðarlegar áhyggjur af eftirköstunum. Þó að ég mundi setja verkfallið til hliðar núna, segjum að það yrði bara leyst í dag, þá er vandinn orðinn gríðarlegur nú þegar. Mér finnst það mikill ábyrgðarhluti að reyna ekki að leggja mat á það, að fá úr því skorið, hvað þarf til viðbótar í rekstur heilbrigðiskerfisins til að mæta því sem frestað hefur verið og fá upp einhverja sviðsmynd hvað það varðar. Ég trúi ekki öðru en stjórnarliðar séu mér sammála því að þetta er jú eitthvað sem kemur til okkar, við fáum það í fangið. Það er bara þannig. Ég hef ekki hugmynd um það en ég sé það fyrir mér, miðað við þær tölur sem við höfum verið að fjalla um, að það sé risavaxinn vandi.

Viðhorf læknanema er líka áhyggjuefni í þessu verkfalli en þeir eru væntanlega búnir að afhenda fjármálaráðherra undirskriftir. 200 læknanemar, sem hafa verið 4–6 ár í námi, bæði heima og í Danmörku og Ungverjalandi, þar sem þeir eru að læra, ætluðu að færa hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni undirskriftir þar sem þeir treysta sér ekki til að starfa við núverandi aðstæður í heilbrigðiskerfinu. Maður er vanmáttugur í þannig stöðu en það fylgir því skylda að stjórna landinu og hún er sú að finna flöt á slíkum málum og meta umfang og aðstæður. Ég get ekki annað en treyst því að menn ætli sér að gera það þó að mér hafi ekki fundist svo vera fram til þessa. Kannski verður þetta það sem þarf til þegar ráðherrann fær þetta í fangið.

Það hefur komið fram hjá læknum, talsmönnum nemanna, að þrátt fyrir að launin séu rót vandans þá eru það líka aðstæðurnar. Hve oft höfum við ekki heyrt að aðstæðurnar skipti máli? Við þekkjum það bara sjálf, vinnuaðstæður skipta máli. Við viljum hafa sæmilegt í kringum okkur á vinnustað. Þar kemur aftur að okkur, ríkissjóði, að stuðla að því að vinnuaðstæður séu mannsæmandi. En þetta kemur líka niður á námi þessara nema. Þetta snýst ekki bara um sjúklingana. Þetta snýst líka um nám lækna og útskrift og hvar þeir ákveða á endanum að starfa.

Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt meira fjármagn til viðhalds á húsnæði Landspítalans. Við höfum líka lagt til meira fjármagn, af því hef ég miklar áhyggjur komandi úr skólakerfinu, til geðheilbrigðismála barna og unglinga. Þar á ég góðan stuðningsmann í Framsóknarflokknum sem ég vona svo sannarlega að standi í lappirnar og reyni að stýra fjármunum þangað inn og sjá til þess að inn á milli umræðna verði það tekið með í reikninginn. Það er líka áhyggjuefni að 4% landsmanna skuli hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu árið 2012 vegna kostnaðar. Við þurfum að gæta okkar á því að fara ekki inn á leið ójöfnuðar og misskiptingar, ég held að ekkert okkar vilji stefna að því. En með þeirri framsetningu sem hér er virðist það því miður vera leiðin.

Mig langar að koma inn á nokkur atriði til viðbótar, m.a. menntakerfið. Ég ber þá von í brjósti að á milli umræðna takist okkur í stjórnarandstöðunni að fá meiri hlutann til að styrkja dreifnámið, sérstaklega litlu framhaldsskólana því að þeir eru ekki inni í þeim tillögum sem nú eru undir. Þetta er afar mikilvægt. Það þekkjum við sem höfum búið við að hafa slíka skóla og slíkt nám, hvað það getur leitt af sér. Það er líka ábyrgðarhluti þegar menn tala um byggðastefnu, tala um að færa störf úti á landsbyggðina, að ætla að leggja þau niður með þeim hætti sem gerist ef þetta nær fram að ganga eins og það er. Fram hafa komið kostnaðartölur sem sýna fram á að þetta gengur ekki upp og þar fyrir utan er þessum dreifnámsskólum mismunað miðað við hvernig þeir eru fjármagnaðir, ýmist af sóknaráætlunum eða beint af framhaldsskólum og það þarf líka að jafna aðstöðu þeirra. Ég hef áhyggjur af því, og ég lýsti því hér í morgun þegar ég var að tala undir liðnum um störf þingsins, að verið sé að ýta 25 ára nemendum út úr skólunum að stærstu leyti og um leið komið í veg fyrir að litlu skólarnir geti rekið sig hagkvæmt. Ég vakti líka athygli á því að fangar, einhverjir þeirra eru meira en 25 ára, hafa gjarnan áhuga á að stunda nám og það hlýtur að vera liður í betrun. Ekki hafa komið fram svör við því: Er þeim líka úthýst úr skólunum? Hvar eru mörkin dregin? Og ef fangar fá að fara í skólana af hverju þá ekki aðrir? Það er vandasamt að eiga við þetta en þetta er eitt af því sem mér finnst mjög athugunarvert.
Mig langaði að lokum að fara aðeins í náttúrupassann margumrædda sem þó hefur ekki litið dagsins ljós hér á þingi en hefur töluvert verið um hann fjallað. Hæstv. ráðherra skrifaði grein þar sem hún sagði, með leyfi forseta:

„Eitt mikilvægasta verkefni okkar Íslendinga um þessar mundir er að finna leið til að fjármagna uppbyggingu og verndun okkar vinsælustu ferðamannastaða. Að sama skapi skiptir miklu máli að dreifa betur álaginu um landið með því að fjölga áfangastöðum og ekki síst að huga betur að öryggismálum ferðamanna.“

Í ljósi þess sem ráðherrann segir langar mig að ræða þennan náttúrupassa og þá ekki út frá krónutölu heldur út frá prinsippum. Við vitum að þörfin í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er mjög mikil og þar liggja inni umsóknir upp á 2 milljarða vegna framkvæmda. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja 150 millj. kr. í þennan sjóð þrátt fyrir að ekkert frumvarp sé komið fram og ekkert frumvarp hafi verið samþykkt. Ef við gefum okkur að þessi náttúrupassi fari hér í gegnum þingið þá verður það kannski á vordögum. Ég vek aftur athygli á því að beiðnin er upp á 2 milljarða. Ef við gefum okkur að þetta frumvarp verði samþykkt í maí og taki gildi 1. júní þá er alveg ljóst að fjármunir nást ekki inn á þetta. Ef við Íslendingar eigum að gera þetta í gegnum skattskýrsluna okkar þá skilum við henni í febrúar eða hvenær það nú er þannig að ekki stefnir í að þetta taki gildi á næsta ári. Hvernig ætlar stjórnarmeirihlutinn að fjármagna Framkvæmdasjóð ferðamannastaða? Hvernig ætla þeir að úthluta fé og sinna viðhaldi á viðkvæmum ferðamannastöðum? Það er ekkert boðað hér. Og að halda því fram að umsýslan verði einföld — það virðist alla vega ekki vera miðað við það sem við höfum heyrt, hér verða einhverjir — ég man nú ekki einu sinni hvað þeir heita (Gripið fram í: Náttúruverðir.) — náttúruverðir já, sem eiga að taka á móti okkur ef við erum ekki með passann okkar, slá inn kennitölurnar okkar o.s.frv. Ég held að þetta sé ekki góð hugmynd. Ég eins og margur annar tel að þetta snúi að því að ferðafrelsi okkar sé skert um landið og ég vona að Þingvallanefnd standi fyrir því að! ; ekki verði innheimt á Þingvöllum; ég vil helst ekki að þetta sé innheimt, ég vil geta gengið um landið mitt en auðvitað þarf ég að virða það eins og hver annar. Mér er ekki heimilt að brjóta lög og það er enginn að tala um það. Það eru til ákvæði sem taka á slíku.
Virðulegi forseti. Á sama tíma og við tölum hér um náttúrupassa þá þurfti að drífa átta virkjunarkosti úr biðflokki í nýtingarflokk. Það var ein tillagan hér á þingi og maður hugsar með sér: Það er bara ekki allt í lagi, hvernig fer þetta eiginlega saman? Hingað hefur ekki borist nein yfirlýsing þess efnis að það sé út úr myndinni þannig að mér finnst að þetta hangi í loftinu, að þetta sé stefna þessarar ríkisstjórnar, hvernig hún vill hegða sér í þessum málum.

Flestar þjóðir sækja sér þetta gjald eftir öðrum leiðum, með almennu skattkerfi, með farseðlasköttum, með gistináttagjöldum o.s.frv. Því er haldið fram að leggja þurfi meira á innanlandsflugið ef jafnt á yfir alla að ganga en þá getum við bara styrkt innanlandsflugið á móti. Þetta kostar hellingspeninga, þessir náttúruverðir og allt þetta eftirlit, ég gef nú ekki mikið fyrir það. Sjálfstæðisflokkurinn talaði mikið um frelsi einstaklingsins til allra hluta. Þegar við ræddum náttúruverndarlögin þá man ég að þeim fannst menn mega fara um allar trissur því annars væri verið að skerða frelsi þeirra. Nú vill sá flokkur fara að rukka fyrir alla hluti, þ.e. ef þú keyrir eitthvert eða gengur þarftu að borga fyrir það — svoleiðis, aðeins ýkt, en menn eru ekki samkvæmir sjálfum sér í þessu.

Það er margt fleira sem ég á eftir að segja en mig langar að lokum að velta því upp, af því að hér situr efnahags- og viðskiptanefndarfulltrúi Framsóknarflokksins, að nýjustu tölur Hagstofunnar valda smááhyggjum. Þar er einkaneyslan að dragast saman. Þurfum við að fá einhverja greiningu á því, á tekjuhópunum, eða er hún að aukast einhvers staðar og eru þá aðrir tekjuhópar þar undir? Vitum við af hverju landsframleiðslan er að dragast saman? Hvað er að gerast? Það er komið í ljós að hagvöxturinn verður mun lægri en við gerðum ráð fyrir. Þurfum við að bregðast við og endurskoða fjárlagafrumvarpið algerlega á milli umræðna?

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).