Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Að lyfta geði landsmanna!

4. desember 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

3. des. á Alþingi

Fjárlögin lyfta geði landsmanna, sagði Sigrún Magnúsdóttir. (SigrM: Já.) Ja, ég velti fyrir mér hvort hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins hefur fengið þá pósta sem við höfum fengið mjög ítrekað síðustu daga, m.a. frá öryrkjum. Ég held að þeirra geði sé lítið lyft með þessu fjárlagafrumvarpi, því miður, og nýjustu tíðindin auðvitað ekki til þess fallin að þeirra jólapakki verði neitt sérlega stór og merkilegur, því miður.

Í sjálfu sér má velta því fyrir sér, burt séð frá því að hér sé batnandi hagur eða öllu heldur af því að það er batnandi hagur, af hverju öryrkjar eigi að gjalda fyrir það. Af hverju mega þeir ekki njóta þrátt fyrir vísitölu? Það dró í sundur á góðæristímanum, þá þótti ekki ástæða til að tengja lífeyrisgreiðslur við neysluvísitölu en hér er það gert. Launavísitalan hefur hækkað um 6,6% en örorkulífeyrisþegar um 3,6%.

Því finnst mér svolítið djúpt í árinni tekið að halda þessu fram. Í viðauka alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem Alþingi hefur fullgilt segir, með leyfi forseta:

„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða.“

Er það gert með því að hækka matarskattinn? Hvað hæstar ráðstöfunartekjur hjá öryrkjum eru 188 þúsund á mánuði og ráðstöfunin þar af leiðandi 162 þúsund fyrir utan aukna greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu sem við vitum að kemur hvað verst við lífeyrisþega. Það er alveg ljóst og er staðreynd.

Mig langar í lokin að segja um það sem hér hefur komið fram um það að bæta hag öryrkja að nú er lag og borð fyrir báru í ríkisfjármálunum. Af hverju má þessi 3,5% hækkun ekki halda sér?

Hvað stendur í vegi fyrir því annað en val og ákvörðun meiri hlutans?

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).