Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Eins skiptis ríkisstjórn

14. nóvember 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Herra forseti.
Það var greint frá því með þaulskipulagðri og sviðsettri sýningu í tónlistarhúsinu Hörpu á mánudaginn að nú sé lokið útreikningi á kosningaloforðinu mikla; niðurfærslu veðskulda vegna fasteignalána á árunum 2008 og 2009. Það flugu mörg gildishlaðin orð á skrautsýningunni í Hörpu. Talnaflóðið minnti á jökulfljót á hlýjum vordegi og skjámyndir skutust fram ótt og títt. Allt vakti þetta athygli á því hversu umdeild ráðstöfunin er, hve veikur fjárhagslegur grundvöllur hennar er og það var svo augljóst að mikið þurfti að sykra boðskapinn til að milda beiskleika hans.

Það eru ávallt margir valkostir tiltækir þegar kemur að því að ráðstafa opinberum fjármunum. Verkefnin eru mörg og víða er þörfin brýn eins og við sem fáumst við fjárlagagerð þekkjum vel. Það má lengi deila um hvaða kostir eru bestir, en ég tel að lítt sé um það deilt að skattfé eigi að verja í almannaþágu. Þá má spyrja sig: Er því skattfé sem varið er til að færa niður verðbólguáhrif á veðlánunum á þessu árabili varið í almannaþágu? Um það má sannarlega deila.
Mikill minni hluti þjóðarinnar, vel innan við þriðjungur, var með verðtryggð lán á þessum tíma og fær eitthvað í sinn hlut. Fjöldinn allur heldur heimili og fær ekki neitt og getur þó hafa beðið jafn mikið tjón eða meira vegna verðbólgunnar fyrrgreind ár.

Því er haldið á lofti að niðurfærslan sé almenn aðgerð en það er hún alls ekki, hún er sértæk aðgerð sem reist er á þröngu hagsmunamati á einkahögum tiltekins hluta þjóðarinnar en sniðgengur meiri hluta hennar. Við hljótum að viðurkenna þrátt fyrir allt að kjósendur veittu stjórnarflokkunum, einkum Framsóknarflokknum, lýðræðislegt umboð í kosningum til að framkvæma þann gerning sem hér er til umræðu. Þeirra er ábyrgðin á því sem nú fer fram í fjármálum hins opinbera og þróuninni í innviðum samfélagsins sem hrakar dag frá degi sökum fjárskorts.

Við skulum jafnframt minnast þess að Framsóknarflokkurinn lét sig ekki muna um að lofa allt að 300 milljarða skuldaniðurfellingu í kosningabaráttunni (Gripið fram í.) síðustu. Sú tala var oft nefnd, virðulegi og hv. þingmaður, (Gripið fram í.) af framsóknarmönnum í mínu kjördæmi á fundum sem sá sem hér grípur fram í sat ekki. Framsóknarflokkurinn hlaut umboð sitt út á þann málflutning og hlýtur að vera krafinn um efndir á því. (Forsrh.: Ósatt.)

En aftur að valkostunum. 80 milljarðar af fé ríkissjóðs eiga að fara í skuldaniðurfærsluna. Vissulega mun ráðstöfunin verða til þess að lækka afborganir af lánum hjá nokkrum fjölda sem ekki er tekjuhár, en hún mun einnig þyngja pyngju margra hinna efnameiri og enn fremur fólks sem var svo vel sett fjárhagslega að það féll undir þau mörk sem sett voru um greiðslu auðlegðarskatts.

Það er vissulega valkostur að sýna efnuðum borgurum og auðmönnum slíkt örlæti á kostnað almennings, en er það góður valkostur þegar sárvantar fé í heilbrigðiskerfið eða samgöngur eða menntakerfi? Ég svara þessum spurningum neitandi. Fénu sem fer í niðurfellinguna hefði ótvírætt verið varið betur í framangreind verkefni eða til að greiða niður ríkisskuldir og þá hefði verið hægt að tala um almenna aðgerð sem jafnframt væri aðgerð í almannaþágu til framtíðar og losna við hinn neyðarlega orðhengilshátt sem einkenndi skrumsýninguna í Hörpu um daginn.

Meðal þess sem heyrst hefur frá kökuskreytingameisturum stjórnarliða sem freista þess að hylja vankantana á ráðstöfun þeirra með sykurbráð er að niðurfærslan feli í sér sátt kynslóðanna. En ekkert er fjær sanni. Yfirgnæfandi meiri hluti þess fjár sem greiddur verður úr ríkissjóði rennur til þeirra sem eru á miðjum aldri eða þar yfir og það sem verra er, aðgerðin felur í sér ráðstöfun á skatttekjum framtíðarinnar þannig að fólkið sem er á bernskuæviskeiði í dag mun ekki njóta þeirra. Ætti það ekki að vera skylda stjórnvalda að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir? Ég tel svo vera. En í stað þess taka stjórnvöld sig til og rýra kosti þeirra sem nú eru ungir. Um það er ungt fólk að byrja að skrifa um. Það má því segja að þarna kemur svo sannarlega súrt með sætu.

Þegar opinberu fé er varið til að greiða niður skuldir valins hóps einstaklinga felur það ekki í sér grundvöll að sátt, virðulegi forseti, það felur ekki í sér framtíðaruppbyggingu heldur hættu á þenslu og aukinni verðbólgu. Við vonum auðvitað að ekki takist svo illa til að þetta fjárstreymi úr ríkissjóði verði til þess að verðbólgan taki stökk upp á við. En vissulega er nokkur hætta á því og mikilvægt að vekja athygli á henni. Ef þannig fer verður batinn sem skuldalækkunin á að fela í sér fljótur að hverfa.

Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með stjórnarflokkunum hrinda kosningaloforðum Framsóknarflokksins í framkvæmd undanfarna mánuði. Það hefur vakið athygli hversu ósamstæðir stjórnarflokkarnir eru í mörgum málum og má minna á ágreining þeirra um fjárlagafrumvarpið þar sem Framsóknarflokkurinn setti fyrirvara við fjárlögin og verður áhugavert að sjá hvort þeir standa við stóru orðin þegar kemur að matarskattinum. Það hefur vakið athygli hversu vanmáttugir þeir eru að leysa brýn samfélagsmál. Má þar nefna vangetu þeirra til að takast á við hnignunina í heilbrigðiskerfinu. (Gripið fram í.) En þarna hafa þeir náð saman.

Þegar kemur að stefnumótandi ákvörðunum og framtíðarhugsun eru stjórnarflokkarnir hvor á sinni bylgjulengd, en þegar kemur að einskiptisaðgerðum sem tekin er að stórum hluta til út á reikning framtíðarinnar þá ná þeir saman. Það er óskandi að slík ríkisstjórn verði einskiptisríkisstjórn.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).