Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

11 „afrek“ núverandi ríkisstjórnar

5. nóvember 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

1. Stórlækkun veiðigjalda: Ríkissjóður verður af í kringum 8 milljarða króna á ári þrátt fyrir gífurlegar arðgreiðslur til sjávarútvegsfyrirtækja á þessu ári og því síðasta.
2. Hækkun matarskatts: Fyrirhugað er að hækka skatt á matvæli, bækur o.fl. úr 7% í 12% þrátt fyrir að ljóst sé að tekjulægri eyða stærri hluta tekna sinna í mat en tekjuhærri.
3. Lekinn úr Innanríkisráðuneytinu: Innanríkisráðherra hefur ekki axlað ábyrgð á leka á trúnaðarupplýsingum um hælisleitenda úr ráðuneytinu, ósannindum hennar gagnvart þinginu né óeðlilegum samskiptum sínum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.
4. Afnám auðlegðarskatts: Ríkissjóður verður af í kringum 10 milljarða króna á ári vegna afnáms skatts sem leggst á hreinar eignir yfir 75 milljónir fyrir einstaklinga og 100 milljónir fyrir hjón.
5. Ófremdarástand á Landspítalanum: Húsnæði LSH er ótækt, m.a. vegna myglu, mosa og maura. Læknar fara í verkfall vegna launa og ungir læknar vilja ekki vinna á spítalanum vegna aðstöðunnar. Engin áætlun um fjármögnun nýs Landspítala komin fram.
6. Flutningur Fiskistofu: Vinnubrögð og ákvarðanataka varðandi flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar er algjörlega til skammar enda ekki byggt á neinni úttekt né samráði við starfsmenn.
7. Vopnavæðing lögreglunnar: Engin skýr svör fást frá ráðamönnum um kaup á hrundruðum hríðskotabyssa frá Noregi og framtíðarstefnu varðandi vopnaburð almennra lögreglumanna.
8. Námsaðgangur takmarkaður: Menntamálaráðherra ætlar að fækka nemendum í framhaldsskólum og háskólum, m.a. með því að takmarka aðgang 25 ára og eldri í framhaldsskóla og grafa undan rekstrargrunni framhaldsskóla á landsbyggðinni.
9. Hernaður í stað þróunarsamvinnu: Framlög til NATO eru stórhækkuð á sama tíma og fjármagn til þróunarsamvinnu er langt frá áætlunum og skuldbindingum Íslands. Svíþjóð og Noregur verja u.þ.b. fjórum sinnum stærra hlutfalli af þjóðartekjum til þróunarsamvinnu.
10. Vinnubrögð ráðherra: Forsætisráðherra veitir milljónastyrki í SMS, ræður ótal aðstoðarmenn og stjórnarráðið rekur síðan skúringarkonur sem nálgast eftirlaunaaldurinn. Einnig má nefna að Jónas Fr. Jónsson, hrunsforstjóri Fjármálaeftirlitsins, var ráðinn formaður stjórnar LÍN og Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, frænka Davíðs Oddssonar sem hafði hlotið áminningu frá ráðherra og var ekki metin hæfust, var ráðinn framkvæmdastjóri.
11. Hroki ráðamanna: Gagnrýni og eðlilegum athugasemdum almennings er mætt með hroka og skætingi, t.d. með tali um „loftárásir“, fyrirfram ásakanir um lygar, að fjölmiðlar skilji ekki Framsóknarflokkinn, og persónuárásir af ýmsum toga.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).