Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Framhaldsskólar landsbyggðanna og fjárlögin

2. október 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Það er ekki að ástæðulausu að ég hef sagt að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vegna ársins 2015 sé landsbyggðarfjandsamlegt. Það er ótal margt sem hægt er að fjalla um í því sambandi og í raun merkilegt að Framsóknarflokkurinn, sem talar mikið um byggðastefnu, ákveður að taka heila stofnun og flytja út á land en á sama tíma sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður í framhaldsskólum landsins og fækkar með því störfum.
En hvað þýðir þetta í raun og veru.

Ég hef nærtækt dæmi úr minni heimabyggð þar sem hér er fjögurra ára gamall skóli Menntaskólinn á Tröllaskaga. Það var ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, með Katrínu Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra, sem hafði kjark í miðju Hruni árið 2010 og stofnaði Menntaskólann á Tröllaskaga.
Skólinn starfar eftir nýjum lögum um framhaldsskóla sem gefa aukið svigrúm í námsvali. Námið er metnaðarfullt með fjölbreyttum kennsluháttum sem er til þess fallið að virkja nemendur og auka sjálfstæði þeirra. Skólinn er líka hluti Fjarmenntaskólans sem er samstarf framhaldsskóla um list- og starfsnám. Rós í hnappagatið fékk skólinn á þessu ári þegar hann hlaut titilinn fyrirmyndarstofnun SFR.

Samfélagsleg áhrif

Eins og gefur að skilja breyttist nærsamfélagið mikið með tilkomu skólans og hefur hann vaxið mun hraðar en flestir áttu von á og í dag eru nemendur á þriðja hundraðið. Í stað þess að nemendur á hinum hefðbundna framhaldsskólaaldri hverfi úr samfélaginu eins og áður var, og oft á tíðum fjölskyldur þeirra með, nýtur samfélagið þess að hafa þá heima. Það hefur svo aftur áhrif á m.a. menningarlífið og verslun og þjónusta styrkist. Að ég tali nú ekki um fjölgun háskólamenntaðra starfsmanna sem annars hefðu síður átt hér tækifæri. Skólinn á mikið samstarf við fyrirtæki bæði innan og utan heimabyggðar sem hefur orðið til þess að nemendur sjá fleiri tækifæri til starfa að loknu námi á svæðinu.
En tilkoma Menntaskólans á Tröllaskaga hefur líka haft þau áhrif að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið tækifæri sem þeir annars hefðu ekki haft. Stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám aftur nema að flytja í burtu og það er ekki á allra færi né heldur er vilji til þess.

Niðurskurðarhnífurinn – byggðapólitíkst mál

En nú ætlar menntamálaráðherra að sækja að landsbyggðarskólunum, skera niður fjarnám og vísa eldri nemendum inn í símenntunarmiðstöðvar eða háskólabrýr. Þessi möguleiki hentar bara alls ekki öllum og er í öllu falli miklu kostnaðarsamari og fyrir marga ekki framkvæmanlegur vegna fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæðna.
En með því að taka þessa þætti frá litlu framhaldsskólunum er verið að veikja innviðina svo að námsúrvalið verður takmarkaðra þar sem 5 nemendur til eða frá geta skipt máli um hvort áfangi er kenndur eða ekki. Það þýðir svo fækkun kennara og lægra menntunarstig. Er undirrótin kannski sú að gera litlu skólana smá saman óstarfhæfa þannig að þeir verði lagðir af eða sameinaðir þeim stærri? Er það stefna Sjálfstæðisflokksins?

Látum raddir heyrast

Á sama tíma og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins segir ríkissjóð vera að rétta úr kútnum ákveður hann ásamt menntamálaráðherra að sækja að landsbyggðarskólunum. Er þetta byggðapólitík Sjálfstæðisflokksins?
Ég hvet alla en ekki síst sveitarstjórnarfólk, sérstaklega úr röðum ríkisstjórnarflokkanna, að láta í sér heyra og standa vörð um landsbyggðarskólanna. Þannig höldum við störfum í heimabyggð og nemendum og þeim sköpunarkrafti sem þeim fylgir.

Birtist í Akureyri vikublað 2. október

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).