Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Engin svör Framsóknar

18. september 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Það er ánægjulegt að framsóknarmenn hafa svarað kallinu um að koma hér í pontu og tjá sig aðeins um það sem er til umfjöllunar og er stærsta mál hverrar ríkisstjórnar, fjárlögin. Það breytir því hins vegar ekki að auðvitað þurfa þeir að vera með í umræðunni, eins og kollegi minn sagði rétt áðan, því að það þarf að koma fram að ef framsóknarmenn eru á móti virðisaukaskattsbreytingunni sem hér er lögð til. Hvernig vilja þeir þá ná í þessa 20 milljarða sem á að ná í, nýja peninga í gegnum þessar breytingar? Það hefur ekki komið fram.

Það er mjög mikilvægt að við fáum að vita það. Að sjálfsögðu vekur undrun sú bókun sem kemur fram hjá Framsóknarflokknum í heild sinni, og forsætisráðherra væntanlega þá meðtalinn, að leggja það til að gera fyrirvara við stærsta mál hverrar ríkisstjórnar. Þetta er mjög sérstakt og mér þætti gaman að vita í sögulegu samhengi hvort það hafi verið gert áður.

Varðandi það sem ég hef komist yfir að lesa í frumvarpinu vekur athygli mína sem landsbyggðarfulltrúa hækkun á rafmagninu og heita vatninu og öllu því sem þar er undir. Þetta er ekki frumvarp sem styður við landsbyggðina. Niðurgreiðslupeningarnir sem þar eru lagðir til duga ekki til og það veit fólk sem býr úti á landi og býr á köldum svæðum. Það er búið að draga það saman hversu mikil hækkunin er. Og þegar við erum að tala um að hækka matinn, hækka rafmagnið og hækka hitann þá er þetta fljótt að telja.

Við megum heldur ekki gleyma því að flutningskostnaðurinn leggst á vöruna fyrir virðisaukaskatt þannig að matvælin hækka enn meira. Mér finnst vanta að það komi fram, sérstaklega hjá Framsóknarflokknum. Svo er Neytendastofa undirfjármögnuð í ofanálag þegar við erum að tala um svona miklar breytingar (Forseti hringir.) sem þarf svo sannarlega að fylgja eftir, hvort þær ganga eftir eða ekki, (Forseti hringir.) þ.e. þá frekar lækkunin til handa neytendum.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).