Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Röng forgangsröðun í fjárlögum

2. september 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Það er óneitanlega svolítið skondið að fylgjast með orðræðu stjórnarþingmanna um fjárlögin. Það vakti til dæmis athygli að formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, og fleiri Framsóknarmenn vilja nú hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna. Eins og margir muna lagði fyrri ríkisstjórn einmitt til að farið yrði í slíkar breytingar en þá talaði þáverandi stjórnarandstaða um að það myndi flækja skattkerfið. Það er gott að þau sjá stundum ljósið og spennandi verður að sjá hvernig fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur upp fjárlög næsta árs ef allir þingmenn Framsóknar standa við þær yfirlýsingar sem þeir hafa gefið í opinberum miðlum.

Óréttlátar skattbreytingar

Einnig hefur komið fram, m.a. hjá formanni fjárlaganefndar Vigdísi Hauksdóttur, að hún sé alfarið á móti hækkun matarskattsins. Hún tók líka fram að hún væri mótfallin því að gera á móti breytingar á bótakerfinu og taldi það „flækja“ kerfið. Flokkssystir hennar, Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra, hefur hins vegar sagt að til þess að koma til móts við þá sem minna hafa á milli handanna væri hægt að auka við húsnæðisstuðning og hækka barnabæturm, sem „flækir“ kerfið að mati Vigdísar. En er eitthvað því til fyrirstöðu að halda matarskattinum lágum en bæta við húsnæðisstuðning og barnabætur þrátt fyrir það?

Til að skilja það þurfum við að horfa aðeins aftur í tímann. Meðal fyrstu verka þessarar ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöldin, framlengja ekki auðlegðarskattinn og hækka gjöld á sjúklingana og þá sem þurfa ýmsa stoðþjónustu. Þessi ríkisstjórn lækkaði líka álögur á brennivín og tóbak sem ég efast um að almenningur hafi fundið sérstaklega fyrir. Gleymum ekki fjölgun ráðherranna og aðstoðarmannanna, en þeim fjölgaði eins og kunnugt er þegar núverandi ríkisstjórn tók við og hugmyndir uppi um enn meiri fjölgun. Þetta kostar allt peninga – peninga sem þarf að finna í fjárlögum þessa árs með einhverjum hætti. Og nú hefur fjármálaráðherra sem sagt afráðið að taka þá peninga út m.a. úr virðisaukaskattskerfinu, með hækkun matarskatts.

Þurfum nýja sókn í heilbrigðismálunum

Eitt stærsta mál fjárlagaumræðunnar verða heilbrigðismálin. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins birti myndir af Landsspítalanum á dögunum þar sem fötur voru út um allt enda mikill vatnsleki sem hefur verið viðvarandi í mörg ár. Ekki hefði þetta átt að koma honum á óvart, enda virðist flokkur hans hafa ákveðið að byggja ekki nýjan spítala. Fram hefur komið hjá heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins að það gæti þurft að hækka gjöldin enn meira á sjúklinga, sem voru þó hækkuð 1. júlí, eða skerða þjónustuna enn frekar við þá þar sem rekstur heilbrigðiskerfisins hafi farið fram úr fjárlögum.

Það er eiginlega merkilegt að ekki sé rætt meira um að spítalinn fái ekki nægt fé til að sinna þeim skyldum sem á hann eru lagðar. Fram hefur komið hjá forstjóra spítalans að hann sé rekinn fyrir umtalsvert minna fjármagn í ár en fyrir sex árum sé miðað við fast verðlag. Formanni fjárlaganefndar er þó tíðrætt um hafa sett aukið fé í Landsspítalann um 4,6 mia. en ætlaði þó í kosningabaráttunni að setja heldur meira. Þegar búið er að taka tillit til m.a. launa- og verðlagsforsendna og ýmissa annarra þátta standa einungis eftir um 1,7 mia. fyrir spítalann að moða úr. Það verður að teljast nokkuð hæpið að það nægi til að hefja þá sókn í heilbrigðismálunum sem augljós þörf er á.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).