Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Sambandsleysi ríkisstjórnarflokkanna

29. júlí 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

DV-kjallari þriðjudaginn 29. júlí

Þar sem ég sit á Kaffi Klöru hér heima í Ólafsfirði velti ég því fyrir mér hvernig ríkisstjórnin og verk hennar birtast mér m.a. í fjölmiðlum. Það er að sjá að flokkarnir séu nánast ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut. Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna skiptast á að koma fram í fjölmiðlum og vera ósammála. Þeir virðast jafnvel ekki kunna vel hvor við annan og hálf dapurlegt er að horfa á sambandsleysið á milli þeirra.

Fiskistofuflutningurinn er eitt af mörgum dæmum um það. Sjálfstæðiflokkurinn, skv. því sem birtist í fjölmiðlum, virtist ekki vita af þeim gjörningi Framsóknarmanna fyrr en rétt áður en hann var tilkynntur opinberlega og á þingmönnum flokkanna er ekki að heyra að um málið hafi verið fjallað innan þeirra með formlegum hætti. Svo ekki sé nú minnst á lagalegu óvissuna um gjörninginn.

En vissulega voru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sammála þegar kom af stórfelldri lækkun veiðigjalda eða það að framlengja ekki auðlegðarskattinn. En upplifun mín á þingi þegar skuldamálin voru afgreidd var sú að Sjálfstæðismenn væru með óbragð í munninum við þá aðgerð Framsóknarflokksins en létu sig hafa það gegn útfærslum er varða séreignasparnaðinn.

Nei eða já

Framsókn vildi áburðaverksmiðju, nei sagði Ragnheiður Elín, Sjálfstæðisráðherra.

En þessi sama Ragnheiður vildi ryðja braut fyrir Bandaríska verslunarrisann Costco sem vill m.a. selja brennivín, lyf og ferskt kjöt í einni og sömu versluninni en Sigmundur Davíð og þingflokksformaður Framsóknarflokksins sögðu meira og minna allt kjöt mengað frá Ameríkunni og eru lítið spennt fyrir hugmyndinni - gæti jafnvel reynst landanum hættuleg.
Bjarni er staðfastur í að lækka skatta en Sigmundur Davíð telur það ekki tímabært.

Þegar kemur að stóra málinu varðandi afnám haftanna og uppgjöri þrotabúanna þá hefur Bjarni verið minna spenntur fyrir gjaldþrotaleiðinni sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir.
Framsókn hefur verið meira áberandi í umræðunni fyrir sína framgöngu en ef við skoðum hugmyndir og aðgerðir Sjálfstæðisflokksins þá er ekki nema von að fólk haldi að lítið hafi flokkurinn lært af Hruninu.

Úlfúðin

Nú álykta sveitarstjórnir víða um land vegna aðgerða heilbrigðisráðherrans Kristján Þórs og telja að hann hafi ekki staðið við að eiga raunverulegt samráð vegna sameiningar heilbrigðisstofnana.

Illugi telur ekkert standa í vegi fyrir því að breyta lögum eða laga til með öðrum hætti til að hægt sé að einkavæða grunnskólann.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja allflestir að Hanna Birna hafi staðið sig vel þrátt fyrir allt sem fram hefur komið og varðar lekamálið og hælisleitendur og engin ástæða sé fyrir hana að stíga til hliðar á meðan á sakamálarannsókn stendur. Er hrædd um að hátt hefði heyrst í hennar flokksfélögum ef þetta hefði átt við einhvern úr síðustu ríkisstjórn.

Fólk þóknanlegt Sjálfstæðisflokkunum er sett í valnefnd til að finna nýjan seðlabankastjóra sem væntanlega þarf að vera nokkuð sammála ríkisstjórninni en ekki hegða sér eins og um sé að ræða sjálfstæða stofnun sem veita á ríkisvaldinu aðhald fremur en annað.

Flokkurinn er „svag“ fyrir því að selja Landsvirkjun og hluta í Landsbankanum.

Svo til að kóróna þetta allt skrifaði Bjarni Ben undir hugmynd Hannesar Hólmsteins um að hann myndi nú „meta erlenda áhrifaþætti á bankahrunið“. Þar á Hannes líklega að finna erlenda sökudólga á hruninu á Íslandi og draga fjörður yfir andvaraleysi og lélega hagstjórn ríkisstjórna Sjálfsstæðisflokksins og Framsóknar.

Er nema von að fólk spyrji sig hvort ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekkert lært af Hruninu.

En ég gleðst þó mest yfir því að hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn hafa yfir veðrinu að ráða því hér fyrir norðan hefur veðurblíðan verið alls ráðandi frá því snemma í maí og vonandi enginn endir á. Sólarþyrst sunnanfólk er því boðið velkomið til okkar hingað norður.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).