Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Byggðir í vanda og ótengdur forsætisráðherra

5. maí 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

2. maí 2014

Manni er eiginlega orða vant eftir þessi síðustu orðaskipti varðandi það sem snýr að sjávarútvegsmálum og því sem hæstv. forsætisráðherra var hér spurður um. Ég velti því fyrir mér hvort hann sé ekki almennilega samfélagslega tengdur. Hvar hefur hann verið? Sveitarstjórnarmenn hafa kallað eftir samskiptum. Í okkar kjördæmi, Norðausturkjördæmi, er ítrekað búið að biðja um fundi þar sem óskað hefur verið eftir samræmingu um þessi mál. Að gefa sveitarstjórna fólki tækifæri til að ráða fram úr málunum? Þau eru búin að vera hér með blóðuga fingur að klóra í ráðuneytið eftir aðstoð. Hvers lags eiginlega vinnubrögð eru þetta að láta svona út úr sér? Mér er algerlega orða vant. Að skikka fólk til vinnu? Áttar hæstv. ráðherra sig ekki á því að það er ekki aðra vinnu að hafa? Þetta er einn stærsti vinnustaðurinn á Djúpavogi þannig að fólk hefur ekki til annars að hverfa og þess vegna erum við að tala um hreppaflutninga sem eru náttúrlega óboðlegir, að eitt sveitarfélag leyfi sér að koma svona fram við annað sveitarfélag eins og hér er verið að gera. En hæstv. forsætisráðherra virðist ekki hafa neinar tilteknar áhyggjur af þessu, sveitarfélögin eigi bara að ræða þetta sín á milli og hann ætlar að fylgjast með. Ja, það er nefnilega það. Það er kannski í lagi að heilu byggðarlögin leggist af? Það virðist vera, að minnsta kosti miðað við þessi svör.

Ég ætlaði að taka þátt í umræðu um veiðigjöldin. Mér er mikið niðri fyrir og ég þarf að draga andann djúpt til að ná úr mér reiðinni sem kom upp við þessi svör hæstv. ráðherra. Við vitum það öll að þetta mál hefur verið umdeilt í samfélaginu í langan tíma, allt sem snýr að fiskveiðistjórnarkerfinu, veiðileyfagjöldunum. Það er í sjálfu sér bara eðlilegt, þetta er undirstöðuatvinnuvegurinn, einn af þeim, og hefur auðvitað bein og óbein áhrif á flest okkar. Stór hluti byggða landsins hefur mótast með einum eða öðrum hætti í gegnum sjávarútveginn og á síðari tímum ekki síst í gengum kaup á kvóta. Fjársterkir aðilar hafa keypt upp kvóta sem hefur svo hægt og bítandi safnast á fárra hendur. Eftir hafa setið íbúar byggða sem áður höfðu lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi í átthagafjötrum og það er það sem er að gerast í því máli sem við vorum að ræða hér, á Djúpavogi og á Þingeyri.

Sem betur fer hafa einhverjar byggðir haft tök á að spyrna við fótum og hafa getað hafist handa á ný við að tryggja áfram búsetu í sinni heimabyggð, en það er ekki alls staðar raunverulegur kostur. Það breytir því þó ekki að almenningi í landinu þykir rétt og sanngjarnt að þeir aðilar sem nýta auðlindina greiði fyrir hana sanngjarnan arð.

Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að málið sem er hér til umfjöllunar sé vandræðalega seint fram komið. Sú heildarendurskoðun sem lofað var á sumarþinginu hefur ekki litið dagsins ljós og framtíðarsýn er því ekki sjáanleg. Þessi sama ríkisstjórn hafði oft hátt um það á síðasta kjörtímabili og taldi þá ríkisstjórn verklausa lengst af. Ég get ekki séð mikið eftir þessa nýju, ungu hægri ríkisstjórn sem taldi þó að hægt væri að kippa öllu hér í liðinn og redda á skömmum tíma. Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir, algert virðingarleysi fyrir litlu sjávarbyggðunum. Í útvarpinu í gærmorgun kom fram hjá sjávarútvegsráðherra að hann teldi jafnvel enn of langt gengið gagnvart útgerðinni er varðar greiðslu fyrir afnot af sjávarauðlindinni og formaður atvinnuveganefndar hafði rætt breytingar á frumvarpinu áður en ráðherrann náði að mæla fyrir því.
Virðulegi forseti. Við gerð fjárlaga fyrir réttum fjórum mánuðum ákvað ríkisstjórnin að hækka álögur á komugjöld á sjúkrastofnanir um 90 millj. kr. og álögur á námsmenn um 180 millj. kr., svo dæmi sé tekið. Minni hlutinn þurfti líka að berjast fyrir desemberuppbót fyrir þeim sem minnst hafa. Því miður eru stjórnarflokkarnir enn við sama heygarðshornið því að nú ber svo við að fjármálaráðherra telur að sá milljarður sem nú er verið að gefa útgerðinni í viðbótarafslátt af veiðigjöldum á næsta ári og tæpir 2 milljarðar á því næsta eru að hans mati smáaurar sem þarf ekkert að ræða nánar.

Það kom líka fram hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þegar hann gegndi starfi fjármálaráðherra á dögunum að að hans mati þyrfti ekki að bregðast við fyrirsjáanlegu tekjutapi ríkissjóðs vegna lægri veiðigjalda. Að sjálfsögðu hljótum við að þurfa að bregðast við lækkun ríkistekna upp á 1 milljarð ef halda á í hallalaus fjárlög nema ríkisstjórnin hafi ákveðið að hverfa frá því að þau verði hallalaus. Það hlýtur að vera ábyrg fjármálastjórn að ríkisstjórnin geri grein fyrir því hvernig hún hyggst haga ríkisútgjöldum til móts við þær lækkanir sem hér eru boðaðar. Fjármálaráðherra hlýtur að hafa þá skyldu að gera þinginu grein fyrir hvar hann hyggst skera niður um ríkisútgjöld upp á tæpa 3 milljarða til að koma í veg fyrir að ríkissjóður verði rekinn með tapi. Sem nefndarmaður í fjárlaganefnd óska ég eftir að fjárlaganefnd fái málið til umsagnar og að eftir því verði leitað hvernig á að mæta þessu tekjutapi á þessu ári og því næsta. Af því að á dagskrá dagsins í dag er frumvarp um opinber fjárlög er vert að velta því upp hvort hægt sé að taka svona ákvarðanir sem skipta milljörðum eftir að fjárlög hafa verið samþykkt þegar og ef þetta nýja frumvarp verður samþykkt.

Eitt af því sem gildandi veiðilög kveða á um er að tryggja þjóðinni hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Í samræmi við þann tilgang í upphaflegu lögunum voru skýr tengsl á milli auðlindarentunnar í fiskveiðum og veiðileyfagjaldanna. Í reynd fjölluðu þau mest um það hve stóran hlut eigendur auðlindarinnar, þ.e. þjóðin, fengi af umframarðinum eða rentunni eða öllu heldur eftir það sem hefur verið kallað EBITDA og mikið rætt, og hve stóran hluta útgerðin fengi til viðbótar við allan rekstrarkostnað og eðlilegan hagnað af þeim fjármunum sem þær hafa lagt fram.

Með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar eru þessi tengsl rofin og ekkert rökrænt samhengi er lengur á milli tilgangs laganna og ákvörðunar veiðigjaldanna. En markmiðið með því að setja ákvæði um auðlindir landsins í stjórnarskrá er auðvitað að tryggja aðkomu þjóðarinnar að þeim, m.a. hvað varðar umgengni við þær, stjórnun á nýtingu þeirra og það er eitt af því sem m.a. getur tryggt búsetu í öllu landinu.

Með lögum um veiðigjald á útgerðarfyrirtæki fá hinir sameiginlegu sjóðir aukinn hluta af hagnaðinum af fiskstofnum þjóðarinnar. Nú hefur hin unga hægri stjórn ákveðið að ríkið verði af tæpum 19 milljörðum á þrem árum og telur sig ekki þurfa að bregðast við því. Hvers lags málflutningur er þetta? 19 milljarðar í ríkiskassann á þremur árum hljóta að skipta máli, a.m.k. ef við þurfum að leggja á aukin komugjöld eða innritunargjöld, eða hvað það nú heitir, í skólum og heilbrigðisstofnunum, þá skiptir það augljóslega máli. En það skiptir máli hverjir geta borgað. Ég er sannfærð um að almenningur í landinu kaupir ekki þau rök að veiðigjöld séu ósanngjörn, að þau séu allt of há og muni verða til þess að útgerðir fari á hausinn, að þau íþyngi um of litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að þau leggist fyrst og fremst á landsbyggðina, að þau skerði laun sjómanna, þau mismuni útgerðum eftir því hvaða veiði þær stunda og að þau standi í vegi fyrir nýfjárfestingum og endurnýjun.

Það er nefnilega þannig með þessi lög, hvort sem er um fiskveiðistjórn eða veiðileyfagjald, að öll lög er hægt að lagfæra, en það er eitt að lagfæra eitt og annað að leggja það nánast af, eins og t.d. var gert síðastliðið sumar og hér er áframhald á því þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra segir að hann telji að hér sé enn of langt gengið. Við hljótum þá að búast við því að lögð verði fram tillaga um að lækka gjaldið enn frekar.

Nú er svo komið að horfið er frá auðlindagjaldi sem tekur mið af afkomu á nýtingu auðlindarinnar. Þess í stað á veiðigjaldið að verða föst krónutala á hverja fisktegund að teknu tilliti til úthaldsdaga, aflamagns og verðmætis einstakra tegunda. Samkvæmt frumvarpinu verður ekkert lágmarksgjald eins og verið hefur hingað til og ég held að ekki hafi verið neinn ágreiningur um, en miðað við krónugjald á hvert kíló er ljóst að mörg fyrirtæki munu greiða vel undir núverandi lágmarksgjaldi og margir jafnvel lítið sem ekkert þegar tekið hefur verið tillit til skulda.

Engin málefnaleg sjónarmið eru færð fyrir því í greinargerð frumvarpsins hvernig heildarfjárhæð veiðigjalda er fengin. Engar talnalegar forsendur er að finna í greinargerðinni, aðeins tölum slegið fram sem hafa enga efnislega þýðingu og varpa engu ljósi á niðurstöðuna. Í greinargerðinni kemur fram sú aðferðafræði sem látið er í veðri vaka að verði notuð við ákvörðun heildarveiðileyfagjalda, að þau séu reiknuð sem hlutfall af EBT-hagnaði. Þá verður maður að gera ráð fyrir að það sé vísbending um það sem koma skal. Þá eru endanlega slitin tengslin milli veiðileyfagjalda og auðlindarentunnar.

Í þeim lögum sem í gildi eru er gjaldtaka miðuð við það sem eftir stendur þegar sjávarútvegurinn hefur dregið frá rekstrarkostnað, raunverulegar fjárfestingar og eðlilegan hagnað. Það er vert að halda því til haga að allur fjármagnskostnaður er dreginn frá hvernig sem hann er til kominn. Það þýðir að ekkert tillit er tekið til tekna af peningalegum eignum sem kunna að standa á móti skuldum, svo sem arðs af hlutabréfum eða vaxtatekjum af skuldabréfum. Það má því velta fyrir sér hvort þessi breyting geti orðið hvati til að auka skuldsetningu sem aftur lækkar veiðigjöldin vegna frádráttar af skuldum og fjármagnskostnaði, hvort kvótaverð geti hækkað og hvort samþjöppun sé líkleg til að aukast.

Allt okkar atvinnulíf byggist meira og minna á auðlindanýtingu hvort sem litið er til orkugeirans eða ferðaþjónustunnar, sem byggir starfsemi sína meira og minna á íslenskri náttúru. Svo er einnig með sjávarútveginn og þess vegna skiptir verulega miklu máli að greinar sem nýta og byggja afkomu sína að svona miklu leyti á auðlindum þjóðarinnar greiði fyrir það hóflegt og sanngjarnt auðlindagjald.

Þau skoðanaskipti sem átt hafa sér stað gegnum tíðina snúast ekki um að einhverjir vilji knésetja atvinnugreinina heldur að við sem byggjum landið finnum fyrir því að þau fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir og eru með sérleyfi til að nýta þær greiði eðlilegt gjald fyrir afnotin. Kröfurnar sem við Vinstri græn höfum gert til sjávarútvegsins eru ekki þess eðlis að fyrirtækjunum blæði, heldur að þau greiði sanngjarna þóknun fyrir nýtinguna. Það sem eftir stendur í rauninni er það sem þeim ber að greiða þegar allt hefur verið dregið frá. Það er vegna þess að hugmyndin um að auðlindagjald sé greitt af nytjastofnum sjávar er réttlætismál.

Fall krónunnar skapaði sjávarútveginum sterka stöðu og miklar tekjur en á sama tíma skertist hagur heimilanna í landinu. Vöruverð hækkaði, tekjur ríkissjóðs minnkuðu og því má segja að til hafi orðið tekjufærsla sem nam tugum milljarða frá almenningi til fárra eigenda stórútgerða. Lögin um veiðigjöld voru ekki einungis sett sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur sem hluti af stefnumótun í auðlindamálum og það kom svo skýrt fram í tengslum við stjórnarskrárvinnuna síðastliðið vor þar sem gert var ráð fyrir að auðlindir þjóðarinnar ættu í eigu þjóðarinnar. Því miður gera þær breytingar sem hér eru boðaðar þá vinnu að engu því að ekki á lengur að tengja veiðigjöldin við auðlindaarðinn.
Virðulegi forseti. Við eigum að hafa að leiðarljósi að lögin um veiðigjöld eru tilkall þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni. Arðurinn er réttmæt eign þjóðarinnar og má aldrei verða einkaeign fárra.

Veiðigjöldin eiga ekki að vera skattheimta, það er mjög mikilvægt að þau séu ekki skattheimta. Þau eiga að vera afnotagjald af eign þjóðarinnar, fiskveiðiréttinum, og við gerum það með því að innheimta auðlindaskatt til að tryggja þjóðinni arð af eigin auðlind.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).