Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Valfrelsi foreldra og nemenda - skóli án aðgreiningar

31. mars 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Skóla- og menntastefnan skóli án aðgreiningar grundvallast á hugmyndafræði mannréttinda, samfélagslegrar þátttöku og lýðræðis. Hún er hluti af þeim samfélagslegu réttindum að tilheyra og vera metinn í því samfélagi sem einstaklingurinn er hluti af og þeim rétti að fá að vera þátttakandi í margbreytilegu samfélagi.

Starfsemi sérúrræða og sérskóla er mismunandi á milli sveitarfélaga og skólastiga. Sérskólar eru aðallega til á grunnskólastigi á Íslandi en á framhaldsskólastigi eru starfræktar starfsdeildir og á leikskólastigi reyna flestir að sérhæfa sig í kennslu barna með sérþarfir.

Ég er sammála málshefjanda að foreldrar og nemendur eiga að hafa valkost um hvort þeir gangi í sérskóla eða nýti sérdeildir eða almenna bekki.
Ég tel að sérskólar séu ekki tímaskekkja heldur nauðsyn en kennsluráðgjöf og stuðningur við almenna skóla verður að vera til staðar og miðlægur svo hann verði aðgengilegur öllum. Sérskólar eiga að vera eitt skólaúrræðið og skóli án aðgreiningar á ekki að þurfa að koma í veg fyrir það. Fjölbreytni er nauðsynleg og við sem setjum lög og reglur eigum alltaf að spyrja okkur hvar líður börnunum best.

Við getum rætt það hvort við séum sammála því eða ósammála sem sagt hefur verið að lík börn leiki best eða hvort við lærum kannski mest af þeim eru ólíkir okkur af því þeir vekja mann til umhugsunar? Eða hvort skóli án aðgreiningar skerði sjálfsmynd barna sem ekki geta fylgt almennum nemendum. Eða hvort hægt sé að setja hinar ýmsu tegundir fötlunar saman í sérskóla? Auðvitað er allt slíkt einstaklingsbundið og mikilvægt að hafa fjölbreytt úrræði sem henta sem flestum með sem fjölbreyttastar þarfir og getu.
Starfsemi sérskóla sem og alls skólastarfs er og á að vera í stöðugri endurskoðun og þróun sem á að fara fram á faglegum grunni þannig að ávallt sé litið til allra þátta og ákvarðanir teknar á grunni núverandi aðstæðna og framtíðarsýnar.

En endanlegt markmið okkar á að vera að við búum, lærum og störfum í samfélagi án aðgreiningar.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).