Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Verður verkfall?

14. mars 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Birtist sem kjallari í helgarblaði DV 15. mars

Áður en ég var kjörin á þing starfaði ég í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem náms- og starfsráðgjafi og því hef ég eins og margir aðrir miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er uppi í framhaldsskólum landsins.

Í vikunni heimsótti ég nemendur í FÁ og ein af þeim spurningum sem ég fékk var hvort ég héldi að það yrði verkfall og hvað það myndi standa lengi. Nemendur eru ekki síður en kennarar mjög uggandi um sinn hag. Þegar þessi orð eru skrifuð hafa háskólakennarar einnig boðað að greiða skuli atkvæði um verkfall þannig að stór hluti skólasamfélagsins, tugir þúsunda nemenda, er í mikilli óvissu um sína stöðu.

Formaður framhaldsskólakennara hefur sagt að kjaraviðræðurnar snúist fyrst og fremst um sanngjarnt endurgjald fyrir kennarastarfið, að launakjörin ættu að vera sambærileg hjá samanburðarhópum hjá sama atvinnurekandanum – ríkinu. Því miður hefur eina innlegg menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssonar, verið í þá átt að launaleiðréttingar framhaldsskólakennara séu framkvæmanlegar ef nám til stúdentsprófs verður stytt. Þetta þýðir á mannamáli að með því að fækka framhaldsskólakennurum sé hægt að hækka launin við hina sem eftir eru. Þrátt fyrir þessi orð segir ráðherrann að kerfisbreytingarnar sem hann boðar með Hvítbók, sem er unnin í ráðuneytinu án beinnar aðkomu framhaldsskólanna, séu ekki hugsaðar sem hagræðingaraðgerð. Hér er ráðherrann að hverfa aftur til gamalla hugmynda sem voru skoðaðar og þeim hafnað í tíð fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þá var mikið rætt um styttingu framhaldsskólans en ákveðið að leggja fremur áherslu á sveigjanleika og sjálfstæði skólanna.

Við eigum ekki að ræða styttingu framhaldsskólans nema í tengslum við endurskoðun á grunnskólanum og inntak skólastarfs því að fyrst og fremst eigum við að ræða hvernig við bætum menntun. Ég tel nefnilega að brotthvarf nemenda úr framhaldsskóla skýrist ekki eingöngu af löngum námstíma heldur geti þeim fullt eins fjölgað með styttingu.
Það er vitað að ekki var hægt að veita fé til að innleiða nýja menntastefnu þar sem hér var Hrun og fjármunir af skornum skammti. Nú er lag því sýnt er að afkoman landsins hefur batnað og ekki hefði nú verið verra að þær tekjur sem ríkisstjórnin afsalaði sér á sumarþinginu væru til ráðstöfunar til viðbótar. Þá gætum við frekar leiðrétt laun kennarastéttarinnar og séð til þess að sú menntastefna sem var lagður grunnur að með lögunum 2008 og útfærð í nýjum námskrám 2011 nái alla leið inn í skólastofuna með öflugum kennurum. En með hugmyndum ráðherrans lítur út fyrir að sveigjanleiki og aukið val sé fyrir borð borinn því eina sem hann hefur sett fram er að nám til stúdentsprófs skuli vera þrjú ár án þess t.d. að færa rök fyrir því hvernig hann hyggst stytta starfsnám.

Þar með gengur ráðherrann ekki í takt við þá stefnu sem mörkuð var með lögunum 2008 að gefa skólunum aukið frelsi til að þróa námsbrautir, bæði verklegar og bóklegar, og afgreiðir út af borðinu þá hugmynd að framhaldsskólar landsins geti mótað sér sérstöðu og boðið upp á fjölbreytt nám sem hentar ólíkum nemendum. Sem gæfi færi á að nýta mannauð skólanna betur, þjóna nærsamfélögum þeirra og stuðla að framhaldsskóla fyrir alla.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).