Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Þing eða þjóð

9. mars 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Birtist í DV-kjallara 4. mars 2014

ESB málið er eitt af stóru málunum sem komið hafa til þingsins og hugmyndir og hugsanir fólks um það hvort Íslandi sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins hafa klofið þjóðina og pólitískar hreyfingar eins og umræður síðustu daga hafa berlega leitt í ljós. Skoðanakannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar telur að við eigum að klára viðræðurnar úr því sem komið er og leggja samning á borð fyrir þjóðina þannig að hún geti tekið upplýsa afstöðu.
Í öllum málum hlýtur það að vera betra að móta sér afstöðu þegar fyrir liggja allar þær upplýsingar sem möguleiki er á til að ekki þurfi að geta sér til um hver niðurstaðan gæti hugsanlega verið.

Það er líklega flestum ljóst að afstaða míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, til umsóknar að Evrópusambandinu er og hefur verið skýr. Við féllumst á þá hugmynd að hafnar yrðu aðildarviðræður milli Íslands og Evrópusambandsins með það að markmiði að kannaðir yrðu kostir og gallar þess að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu með því fororði að aldrei yrði um aðild Íslands að ræða án þess að það hefði áður verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta hefur vissulega ekki verið minni hreyfingu auðvelt að þurfa að vinna að eins góðum samningi og hægt er og hafa á sama tíma efasemdir um aðildina. En við teljum að lýðræðisrökin séu sterkari en ákvörðun einstakra stjórnmálamanna.

Sú sem hér talar hefur haft þá skoðun að Evrópusambandsaðild sé ekki vænlegur kostur fyrir okkur Íslendinga en það vill nú þannig til að þingmenn eru fulltrúar þeirra sem í flokkunum eru og kusu þá, ekki bara sjálfs sín. Þar af leiðandi getur það vissulega skipast þannig að þingmenn séu ekki samþykkir aðildarumsókn eða því að ganga í ESB en það þýðir ekki að þeir eigi ekki að vera fulltrúar þeirra innan sinna flokka sem kjósa að slíkt sé gert.

Ég hefði talið eðlilegast að leggja það í dóm þjóðarinnar þegar í upphafi og áður en viðræður hófust hvort leggja ætti í þá vegferð að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ákvörðun um aðildarviðræður var og er svo stórt og viðamikið málefni að þjóðaratkvæðagreiðsla í upphafi hefði átt þar vel við og hefði styrkt málið. Það var því miður ekki gert og til lítils að sýta það nú.

Umræðan innan þings og utan hefur verið svolítið kyndug á stundum og þingmenn hafa túlkað útsýnið til Evrópusambandsins hver fyrir öðrum á grundvelli skýrslu utanríkisráðherra og getið sér til um niðurstöðu viðræðna. Það staðfestir enn frekar skoðun mína að þessu máli ljúki ekki nú þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lagt fram tillögu um að málinu skuli slitið.

Ég tel að allir, bæði aðildarsinnar og þeir sem alls ekki vilja ganga í ESB, séu þess fullmeðvitaðir að um er að ræða ríka hagsmuni fyrir íslenska þjóð. Aðild að Evrópusambandinu þýðir stóraukið framsal á innlendu valdi til yfirþjóðlegra stofnana. Um það deilum við tæpast en hitt er meira álitamál hvort ávinningurinn af aðild sé slíkur að hann vegi upp eða réttlæti yfirleitt slíkt valdaframsal.

Leiðarljós þjóðarinnar

En öll sjónarmið eiga rétt á sér og við getum ekki leyft okkur að gera lítið úr andstæðum málsrökum og tilfinningum sem tengjast þessu máli. Aðild er stærra en ríkisstjórn eða stjórnmálaflokkar og þjóðin á að gefa leiðbeiningar um hvað skal gera. Við Vinstri græn leggjum áherslu á lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni.

Því við sem erum þjóðkjörnir fulltrúar á þjóðþingi lýðræðisríkis, ættum síst allra að verða til þess að víkja okkur undan lýðræðinu, við ættum ekki að verða til þess að hindra landa okkar í því að leiða eitt mikilvægasta mál samtíðarinnar til lykta með atkvæði sínu. Við eigum að hafa hugrekki og einurð til þess að klára aðildarviðræðurnar eins og til var stofnað og hlíta niðurstöðu þjóðarinnar um málið.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).