Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Uppruni lekamálsins

27. janúar 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Í dag eins og í síðustu viku hefur reynst erfitt að finna hver uppruni hinna ýmsu mála er hjá núverandi ríkisstjórn.

Í þinginu fyrr í dag voru umræður um “meintan leka” úr innanríkisráðuneytinu er varða hælisleitanda. Það sem töluverða athygli vekur í þessu máli og Hanna Birna svaraði ekki frekar en öðru því sem ég spurði að við þessa umræðu er m.a. hvers vegna rekstrarfélag stjórnarráðsins, sem sér um skráningar á atvinnuleyfum og fasteignum, er látið athuga jafn alvarlegt mál innan ráðuneytisins og hér er til umfjöllunar?

Á sama tíma og ráðherra, ráðuneytið og rekstrarfélagið fullyrða að trúnaðargögn umrædds máls hafi einungis farið til þeirra sem rétt eiga á þeim, þá segist Morgunblaðið hafa umrætt minnisblað hjá sér. Hvernig fer það heim og saman við að öryggi gagna sé tryggt?

Ráðherra hefur mér vitanlega ekki sagt að fullyrðing Morgunblaðsins sé röng og ekki beðið þá um leiðréttingu alla vega bar hún það ekki af sér í umræðunni.

Svo er þeirri spurningu ósvarað hjá ráðherranum hvort algengt að ráðuneytið láti semja minnisblöð um tiltekna hælisleitendur og í þeim sé eins og hér gerðist aðilar nafngreindir sem viðkomandi hefur átt í ástarsambandi við.

Hanna Birna svaraði því ekki heldur hvort hún teldi æskilegt að endurskoða umsókn Tony Omos þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ávirðingarnar sem á hann voru bornar eigi sér stoð í raunveruleikanum.

Ráðherrann staðfesti hvorki né neitaði hvort henni þættu það eðlileg vinnubrögð að Tony Omos hefði verið fluttur úr landi um miðja nótt án vitneskju lögmanns síns.
Og síðast en ekki síst spurði ég Hönnu Birnu hvort hlutaðeigandi aðilar sem nafngreind voru í tilteknu minnisblaði hafi verið beðin afsökunar á trúnaðarbrestinum með formlegum hætti.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/20/margt_oljost_i_mali_haelisleitanda/

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).