Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Rugl á ríkisstjórnarstigi

26. janúar 2014 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Helstu atriði:
• Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra spurðir um fréttir af þróun efnahagsmála.
• Ráðherrar segja fréttir alþjóðlegra fjölmiðla vera „tómt rugl“ sem ekki þurfi að leiðrétta.
• Fjármála- og efnahagsráðherra gerði því skóna að undirrituð gengi erinda kröfuhafa með fyrirspurn sinni.
• Heimsmetið, frískuldamark bankaskattsins og margsaga formaður efnahags-og skattanefndar.

Í vikunni gerði ég að umtalsefni í þinginu þverrandi traust erlendra fjárfesta á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og umfjöllun um það í erlendum fjölmiðlum.
Viðbrögð ráðherranna voru dæmigerð fyrir ráðvillta menn. Forsætisráðherra talaði um undarlega fyrirspurn og þóttist ekkert kannast við slíka umfjöllun en fjármála- og efnahagsráðherra sagði fréttinar vera „tómt rugl“.

Neikvæð þróun rakin til stjórnarskipta

Bæði Reuters-fréttastofan og International Financial Review, hafa greint frá því að fjárfestar forðist Ísland á sama tíma og fjármagn streymi til kreppuríkjanna Portúgals, Grikklands og Írlands. Er ástæðan rakin til stjórnarskiptanna hér á landi í maí á síðasta ári og bent á að síðan þá hafa vextir á fimm ára skuldabréfi íslenska ríkisins hækkað úr 4,1% í 6,4% á meðan vextir á sambærilegum írskum bréfum eru aðeins 1,8% og portúgölsk skuldabréf bera 3,8% vexti.

Segir fréttir vera tómt rugl

Þegar ég spurði fjármála- og efnahagsráðherra um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þverrandi trausti á efnahagsstefnu hennar urðu viðbrögð ráðherrans þau að væna mig um það úr ræðustóli Alþingis að ég gengi erinda erlendra kröfuhafa með fyrirspurn minni. Ráðherrann lét hins vegar hjá líða að svara fyrirspurn minni og því er málflutningur hans ómálefnalegur
og sýnir vangetu hans til að bregðast við réttmætri gagnrýni.. Að auki tel ég nú að einhverjir aðrir en ég bæði séu og hafi verið fyrri til að ganga erinda eignamanna í gegnum tíðina.

Óróleiki Sjálfstæðismanna - stóra kosningaloforðið

Ég ræddi líka um afurð stóra kosningaloforðs Framsóknarflokksins og svokallað frískuldamark bankaskatts. Tilurð þess var að ég eignaðist óvænt skoðanabróður þegar Oddgeir Ágúst Ottesen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lýsti efasemdum um skuldaniðurfellingaráform ríkisstjórnarinnar. Hann taldi þær ekki aðeins efnahagslega óhagkvæmarheldur og óréttlátar..
Stóra kosningaloforð Framsóknar felur það í sér að skattfé er útdeilt til hinna efnameiri í samfélaginu og það er ekkert launungarmál að efasemdarröddum vegna þessa ráðslags fjölgar sífellt. Ég velti því vissulega fyrir mér hvort ekki hafi fleiri Sjálfstæðismenn áhyggjur af þessu ráðslagi og afleiðingum þess.

Margsaga nefndarformaður

Það er víða pottur brotinn hjá ríkisstjórninni og sú pínlega uppákoma sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Frosti Sigurjónsson, bauð uppá í vikunni fór ekki framhjá mörgum. Hann varð margsaga um tilurð frískuldamarks bankaskattsins sem var reyndar nífaldað á milli umræðna vegna þess að hið stóra kosningaloforð Framsóknarflokksins var óútfært fyrir kosningar og ófjármagnað því ekki átti ríkissjóður að taka neitt á sig að þeirra sögn. Svo upplýsist auðvitað að ríkissjóður, sameiginlegur sjóður Íslendinga, á að ábyrgjast greiðslu uppá 80 milljarða. Önnur niðurfærsla verðtryggðra lána uppá 70 milljarða verður ákvörðun launþega,tekin af eigin launum og á þeirra ábyrgð.
Og til að kóróna vitleysuna skilaði forsætisráðherra auðu við fyrirspurn sem fram kom um þessi mál í síðustu viku. Svona voru svörin: „Forsætisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum til að svara þessari fyrirspurn. Enginn fyrirliggjandi gagnagrunnur getur metið áhrif leiðréttingarinnar á einstaka tekju-, skulda- og greiðslubyrðishópa með nægjanlega nákvæmum hætti, ekki hvað síst vegna samspils við fyrri aðgerðir sem dragast frá leiðréttingunni.“
Þetta getur ekki talist forsvaranlegt að flokkur sem kosinn var til valda út á slíkt risaloforð, heimsmet munið þið, skuli leyfa sér að koma svona fram til þess er of mikið í húfi fyrir þjóðina.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).