Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Húsaleigubætur - réttindamál fyrir nemendur í dreifbýlum sveitarfélögum

27. nóvember 2013 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Breyting á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum (námsmenn).

Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru: Brynhildur Pétursdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Benediktsson og Valgerður Gunnarsdóttir.
Frumvarpið er í 2 greinum og er þar lagt til að við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Námsmenn í reglulegu námi á framhalds- og háskólastigi sem vegna náms síns leigja íbúðarhúsnæði í sama sveitarfélagi og þeir eiga lögheimili í, en vegalengd frá lögheimili að skóla er meiri en 30 km, geta þrátt fyrir 1. mgr. átt rétt á húsaleigubótum. Heimilt er einnig að greiða húsaleigubætur til námsmanns þótt vegalengd milli lögheimilis og skóla sé skemmri en 30 km ef samgöngur til og frá skóla eru honum sérstaklega erfiðar, m.a. með tilliti til veðráttu og ástands vega eða vegna skorts á almenningssamgöngum.
2. gr. kveður á um að lögin öðlist þegar gildi.

Samkvæmt lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, er það meginregla til að eiga rétt á húsaleigubótum að leigjandi eigi lögheimili í leiguhúsnæðinu og undanþáguákvæðið segir að nemi sem þarf að leigja íbúðarhúsnæði vegna náms síns eigi því aðeins rétt á húsaleigubótum að hið leigða húsnæði sé í öðru sveitarfélagi en lögheimili nemans. Rétt er að taka fram að ekki er hægt að eiga lögheimili á heimavist skóla.
Meðan sveitarfélög voru mörg og eftir því lítil að flatarmáli, flest hver, kom þetta ekki að sök en á þeim landsvæðum þar sem sveitarfélög hafa sameinast og orðið víðáttumikil blasir við að námsmenn í slíkum sveitarfélögum geta staðið frammi fyrir því að hljóta engar húsaleigubætur þótt svo það langt sé frá lögheimili þeirra á skólastað að þeir eru nauðbeygðir til að flytja þaðan og búa nær skóla á meðan á námi þeirra stendur. Þetta á við ef skólinn er í sama sveitarfélagi og lögheimili nemans og gildir einu þótt vegalengdin þar á milli sé langtum meiri en svo að raunhæft sé að ekið sé á milli þessara staða á degi hverjum, jafnvel um torfarinn veg, og ekki síst að vetrarlagi. Er þess og að minnast í þessu samhengi að yngstu nemarnir í framhaldsskólunum hafa ekki ökuréttindi aldurs síns vegna og ekki hafa allir skólanemar eða aðstandendur þeirra ráð á bifreiðum eða fjárhagslegt bolmagn til daglegra langferða til og frá skóla.

Núverandi skipulag húsaleigubóta veldur því að framhaldsskólanemar sem búa langt frá skóla, jafnvel í margra tuga kílómetra fjarlægð, er synjað um húsaleigubætur sökum þess að skóli og lögheimili eru innan sama sveitarfélags en umsókn nema úr nágrannasveitarfélagi við skóla, sem býr tiltölulega skammt frá skólastað, er samþykkt.
Nú þegar hafa foreldrar, fyrir hönd barns síns, látið reyna á slíka greiðslu gagnvart sveitarfélagi en fengið synjun þar sem nemandinn er ekki með lögheimili í hinu leigða húsnæði og því beri sveitarfélaginu ekki skylda til greiðslunnar samkvæmt núgildandi lögum. Úrskurðarnefnd um félagsþjónustu og húsnæðismál hefur staðfest þá synjun. Foreldrar telja synjunina vera brot á jafnræðisreglu, sem ég tek heils hugar undir, og því ljóst að þetta misrétti verður að leiðrétta með lagabreytingu. Nemandi þarf sem sagt að hafa aðseturskipti til að eiga rétt á húsaleigubótum en það er hins vegar ekki heimilt innan lögheimilissveitarfélags.
Því er það svo að lagabreytingunni, sem hér er lögð til, er stefnt gegn þessu ólánlega og óréttláta fyrirkomulagi. Viðmið fyrir greiðsluheimild sveitarfélags til nema eru sótt í 4. gr. reglugerðar nr. 692/2003 um námsstyrki enda er líku saman að jafna þar sem eru námsstyrkirnir og áformaðar húsaleigubætur til skólanema sem hvort tveggja er ætlað að styðja námsmenn í dreifbýli sem þurfa að sækja skóla um langan veg.

Tölur um fjölda þeirra nema sem gætu öðlast rétt til húsaleigubóta eftir þá lagabreytingu sem þetta frumvarp boðar liggja ekki fyrir en þrátt fyrir að þetta eigi við um nema í víðlendustu og strjálbýlustu sveitarfélögunum, sem eru þó nokkur, eins og Borgarbyggð, Ísafjarðarbær, (Þingeyri, Suðureyri, Flateyri), Vesturbyggð (deildin á Patró), Strandabyggð, (Hólmavík), Sveitarfélagið Skagafjörður, Húnaþing vestra, Akureyri en þar er um að ræða Hrísey og Grímsey, Þingeyjasveit (Laugaskóli), Norðurþing, (Raufarhöfn og Kópasker), Langanesbyggð, Fljótsdalshérað, Fjarðarbyggð og Sveitarfélagið Hornafjörður, má telja að um sé að ræða óverulegan fjölda.

Það sjá allir að nemandi sem býr í Grímsey og stundar nám við framhaldsskóla á Akureyri fer ekki heim daglega. Búi hann á heimavist á hann ekki rétt á húsaleigubótum en ef þessi sami nemandi hefði herbergisfélaga frá Svalbarðseyri þá ætti sá aðili rétt til húsaleigubóta. Hann gæti þó komist heim án mikillar fyrirhafnar daglega en á milli Akureyrar og Svalbarðseyrar eru 13 km.
Sama má segja um nemanda sem býr t.d. á Fljótsdalshéraði en þar getur vegalengdin numið allt að 100 km. frá heimili til Egilsstaða þar sem skólinn er.

Almenningssamgöngur eru líka með afar misjöfnum hætti í hinum dreifðu byggðum landsins og því ómögulegt að ætlast til þess að nemar geti komið sér á milli heimilis og skóla með góðu móti alla daga. Það má líka færa rök fyrir því að nemar sem svo langt eiga að myndu líklega síður taka þátt í félagsstarfi þegar um langan veg er að fara.
Ekki er hægt að færa fyrir því rök að nemandi sem býr í sveitarfélagi og þarf um langan veg að fara hafi hærri tekjur eða minni kostnað af veru sinni í skólanum en aðrir sem eiga rétt á húsaleigubótum. Ef jafnrétti til náms á að vera raunverulegt þá verðum við að breyta þessu.
Ljóst er að einhver sveitarfélög eru að styðja við sína nemendur með niðurgreiðslu en til að ekki verði um að ræða mismunun eða geðþóttaákvörðun pólitíkurinnar hverju sinni er þessi breyting lögð til því hún er augljóslega mikilvæg fyrir jafnrétti til náms og búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins.
Í skýrslu vinnuhóps um húsnæðisbætur sem birt var í maí 2012 kemur fram að unnið hafi verið að gerð tillagna sem miði að því að tryggja öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings vegna húsnæðiskostnaðar, óháð búsetuformi.

Núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur töluvert rætt um stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði og sérstaklega ungt fólk og sagt að hafin sé vinna við mótun framtíðarstefnu í húsnæðismálum og trúi ég því að hún styðji þetta mál þannig að það geti orðið að lögum fyrir áramót. Það skiptir þá sem um ræðir miklu máli og er réttarbót sem við eigum ekki að láta bíða heildarendurskoðunar á lögum um húsnæðismál.
Ég legg til að lokinni umræðu verði frumvarpinu vísað til háttvirtrar velferðarnefndar og umsagnir fengnar hjá þeim sveitarfélögum sem þetta snertir með beinum hætti, félagi framhaldsskólanema sem og annarra sem nefndin telur nauðsynlegt við vinnslu málsins.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).