Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Óútfylltur víxill

20. nóvember 2013 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Birtist í kjallara DV 20. nóv.

Skuldavandinn hefur verið eitt flóknasta og mest umrædda viðfangsefni stjórnmálanna í kjölfar hrunsins.
Ein aðalástæða þess að Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn eru loforð hans um að leiðrétta skuldir heimilanna um leið og hann kæmist til valda með, að eigin sögn, stórkostlegri skuldaniðurfellingu sem fá eða engin dæmi mætti finna um í veraldarsögunni.

Formaður flokksins komst svo að orði:
„Skjaldborgin um heimilin sneri öfugt, og skjaldborg sem snýr öfugt kallast umsátur. Við þurfum að leiða sóknina til að rjúfa umsátrið um heimilin.“

Hið stóra kosningaloforð var óútfært fyrir kosningar og er enn það er kannski mesta skömmin í öllu málinu. Fólki var talin trú um að þetta væri ekkert mál og af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins var því haldið fram ekki væri hægt að segja frá því með hvaða hætti þetta yrði gert og mátti skilja að ástæðan væri sú að þá gætu aðrir flokkar tekið hugmyndir þeirra og gert að sínum. Nú hefur komið á daginn að sú var ekki raunin heldur er víxillinn enn óútfylltur nú í nóvember enda verkefnið miklu stærra en margur þingmaður ríkisstjórnarflokkanna virðist hafa gert sér grein fyrir.

Fyrir kosningar minntum við Vinstri græn á að ef hægri pólitíkin tæki hér við völdum yrðu afleiðingarnar eftirfarandi:

• Sjónarmið félagshyggjufólks yrðu útundan.
• Náttúruvernd yrði aftur afgangsstærð í íslensku samfélagi.
• Stórkarlalegir atvinnuhættir, einkum orkufrek stóriðja, yrði aftur hafin til vegs og virðingar á kostnað fjölbreytni og nýsköpunar.
• Skattkerfið yrði aftur lagað að þörfum þeirra efnameiri.
• Aðgangur að sjúkrahúsum yrði gerður gjaldskyldur.
• Skólar yrðu einkavæddir með tilheyrandi gjaldtöku.
• Einkavinavæðing yrði aftur á dagskrá (kannski Landsvirkjun næst?)
• Veiðigjaldið yrði afnumið eða stórlækkað og framkvæmdum sem á að fjármagna með því stefnt í hættu.

Því miður er þetta sá pólitíski veruleiki sem við okkur blasir. Rannsóknarnefnd Alþingis skrifaði níu binda skýrslu um afleiðingar stjórnarhátta síðustu ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Við þekkjum þetta líka á eigin skinni, þjóðin öll, en samt kallaði stór hluti þjóðarinnar eftir þessu stjórnarmynstri aftur.
Verklaus ríkisstjórn

Nú þegar líður að mánaðamótum og styttist í aðventuna vekur það furðu hve fá mál stjórnin kemur fram með og á nú líklega betur við en áður að tala um verklausa ríkisstjórn. Stjórnarandstaðan hefur meira og minna haldið uppi dagskrá þingsins með ýmsum málum.

Frá því hinir nýju herrar sem nú fara fyrir landinu, tóku við hefur þeim verið tíðrætt um slæma stöðu ríkissjóðs en á sama tíma ákváðu þeir að lækka tekjur hans. Nú birtast enn og aftur upplýsingar úr ráðuneyti fjármála um stöðu ríkissjóðs. Þær sýna að eftir fyrstu níu mánuði ársins er afkoman betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins kemst upp með að rengja þetta án þess að birta nokkur gögn máli sínu til stuðnings og kemst upp með það gagnvart fjölmiðilum.

Ég sit fyrir hönd Vinstri grænna í fjárlaganefnd. Mér skilst á reyndari þingmönnum að það sé fáheyrt að á þessum árstíma, þegar umræða um fjárlög á að vera í hámarki, skuli það gerast að fundafall verði í nefndinni sökum þess að engin mál eða tillögur frá stjórnarmeirihlutanum eru tilbúnar. Frumvarp til fjáraukalaga vegna ársins 2013 er ekki enn komið fram og því síður tillögur meirihlutans til breytinga á frumvarpinu 2014. Formaður fjárlaganefndar hefur ítrekað sagt að frumvarpið taki miklum breytingum á milli umræðna og að tillagna hagræðingahópsins muni sjá stað í frumvarpi næsta ár. En hverjar þær verða eða önnur úrræði sem að fjármálum ríkisins snúa virðist vera leyndarmál. Þær tillögur eiga ekki að vera opinberar fyrir en við 2. umræðu fjárlaga eða svo sagði formaður fjárlaganefndar í sjónvarpi á sunnudaginn var.

Við sem erum í minnihluta á Alþingi sjáum ekki mikið af því sem meirihlutinn hefur kallað samvinnu og samráð enda ekki fengið að koma að neinu sem núverandi ríkisstjórn ákvað að „einhenda“ sér í á sumarþingi, fremur en því sem birtast á sem breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ég hvet lesendur til að fylgjast með þeim tillögum hagræðingarhópsins sem verða að veruleika og hvet fólk einnig til að kynna sér að margur núverandi stjórnarþingmaður greiddi atkvæði gegn tillögum um sameiningu stofnana á síðasta kjörtímabili og sagði enga hagræðingu hljótast af þeim.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).