Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Tekjufrumvarpið

14. október 2013 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ræddi á dögunum um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014. Hér má horfa og hlusta bæði á mig og Bjarna Ben svara.

http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20131008T160109

Eins og ég hef áður sagt er virðingarvert að leggja upp með hallalaus fjárlög en varla er hægt að tala um að það sé gert á sjálfbæran hátt. Mér finnst frumvarpið bera töluverðan embættismannakeim og sumum þykir það eflaust líta vel út á pappír en ég vona sannarlega að við þingmenn munum ná að setja mark okkar á það áður en yfir lýkur.

Því miður er með þessu frumvarpi horfið frá blandaðri leið tekjuöflunar og útgjaldalækkunar sem fyrri ríkisstjórn markaði. Áherslan er nú á lækkun útgjalda og enn meiri niðurskurð. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir raunverulegum afgangi af rekstri ríkissjóðs á næstu þremur árum. Ríkissjóður er rekinn á núllinu og reyndar versnar afkoman aftur samkvæmt reikningi í fylgihefti fjárlagafrumvarpsins milli áranna 2015 og 2016.

Svigrúm til að greiða niður skuldir ríkissjóðs verður því ekkert og enn síður er hægt að hefja uppbyggingu í heilbrigðisþjónustunni, menntakerfinu og öðrum innviðum samfélagsins. Það verður aldrei of oft sagt og nauðsynlegt að halda því til haga að ríkisstjórnin hefur nú þegar afsalað ríkissjóði tekjum með stórlækkun á sérstöku veiðigjaldi og brottfalli laga um 14% virðisaukaskatt á hótel og hyggst afsala honum tekjum með því að framlengja ekki auðlegðarskattinn og orkuskattinn.

Þó virðist samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum vera hægt að framlengja ýmislegt sem laut lokadagsetningum og hefur verið reifað hér í dag, svo sem vaxtabæturnar, barnabæturnar eða átakið Allir vinna. Ég lít svo á að af því megi merkja að fyrri ríkisstjórn hafi gert eitthvað rétt. En það virðist vera öllu erfiðara að framlengja það sem skiptir ekki síður máli, þ.e. tekjustofna ríkissjóðs.

Það eru mikil vonbrigði að tekjur Fæðingarorlofssjóðs skuli skertar eins og hér er lagt til. Það getur ekki rímað við jafnréttishugsjónina því að ég tel að um leið sé fyrirsjáanlegt að konur verði lengur utan vinnumarkaðar og launaójöfnuður verði enn meiri eða að minnsta kosti mun hann ekki ná jafnvægi.

Fjármálaráðherra hefur ákveðið í þessu frumvarpi að viðhalda þrepaskattskerfinu, en það hefur reynst mikilvægt í að auka tekjujöfnuð í samfélaginu. Um leið borðar hann breytingar á því til framtíðar og hér er lagt til að lækka miðþrepið í tekjuskatti einstaklinga sem skila á 5 milljörðum. Eins og ég fór yfir hér fyrir helgina hefur það óveruleg áhrif á þá sem minnst hafa á milli handanna en meira til handa þeim sem hærri tekjur hafa. Ég held að skynsamlegra hefði verið að hækka viðmiðunarmörk neðsta þrepsins. Samfélagsumræðan hefur líka verið á þann veg hvort ekki væri vitlegra að setja þessa fjármuni í samneysluna, t.d. heilbrigðisþjónustuna eða skólana.

Stærsti tekjupósturinn í þessu frumvarpi er að skattleggja þrotabú gömlu bankanna. Á sínum tíma þegar bankaskatturinn var innleiddur var ástandið þannig að ekki var hægt að áætla skattandlagið og komið hafa fram efasemdir um að það liggi fyrir en hæstv. ráðherra telur svo vera og hyggst ná inn um 14 milljörðum kr. Gott og vel ef það er framkvæmanlegt, en á sama tíma þarf að hafa í huga að þetta er ekki framtíðarskattstofn og ljóst að eitthvað nýtt verður að koma til eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir áðan, m.a. ef stóru bankarnir mundu ná nauðasamningum á næsta ári, afleiðingar þess og annarra hluta sem hann rakti hér ágætlega.

Á bls. 5 kemur fram, með leyfi forseta:

„Meðalútsvar á árinu 2013, innheimt í staðgreiðslu, er 14,42%.“

Nú er það svo að ekki tekst alltaf að innheimta allan skattinn. Sveitarfélög hafa fengið sitt óskert en ríkissjóður tekið á sig afskriftirnar. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra hyggst breyta þessu með einhverjum hætti.

Í beinu framhaldi af þessu langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann viti hvað Sambandi íslenskra sveitarfélaga finnst um þá fyrirætlan að afnema lágmarksútsvar.

Hin nýja ríkisstjórn nýtur þess í þessu frumvarpi að auðlegðarskatturinn, sem fyrri ríkisstjórn lagði á, skilar rúmum 9 milljörðum kr. sem er um það bil upphæð greiddra barnabóta og orkuskatturinn þar ofan á er rúmur milljarður á næsta ári. Þetta er ekki hægt að framlengja eða lagfæra til betri vegar telji hæstv. ríkisstjórn tilefni til.

Til viðbótar gerir frumvarpið ráð fyrir 10 milljarða kr. vaxtatekjum frá Seðlabanka Íslands sem jafngildir því að færa tekjur úr einum vasa í annan. Mig langar að vitna í markaðspunkta Arion banka frá 2. október þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar klórum við okkur aðeins í höfðinu yfir sparnaðinum sem áætlað er að náist fram með skuldbreytingu bréfs sem lagt var inn í Seðlabankann til endurfjármögnunar bankanum, en gert er ráð fyrir að bréfið verði lengt til 20 ára og það verði vaxtalaust. Seðlabankastjóri gerði sér far um að benda á að samningar hefðu ekki náðst um bréfið enn á vaxtaákvörðunarfundi í dag. Auk þess benti hann á að þar væri um tilflutning úr einum vasa ríkisins í annan að ræða (þó ekki með þeim orðum), enda hljóta tekjur Seðlabankans að minnka sem nemur sparnaði ríkisins af vaxtagreiðslunum, og þar með tekjur ríkisins – enda er bankinn að fullu í eigu þess síðarnefnda.“

Markaðsgreiningardeild Arion banka tekur undir það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi náð samningum við Seðlabankann um þetta mál.

Mér finnst líka vert að halda því til haga að á tímum þess niðurskurðar sem hér er boðaður hefur ríkisstjórnin samt ákveðið að auka yfirstjórnina um 23% sem er tæplega 46 millj. kr. ráðstöfun vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra. Hefðum við getað nýtt þá peninga í eitthvað annað?

Mig langar að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann geti bent mér á einhverjar rannsóknir sem styðja við þá fullyrðingu sem kemur fram á bls. 3 í þessu frumvarpi, með leyfi forseta:

„Með einföldun skattkerfisins og innleiðingu jákvæðra hvata verður rekstur fyrirtækja einfaldari og skilvirkari.“

Liggja einhverjar rannsóknar þarna að baki sem ég gæti lesið mér til um sem styðja við þetta?

Ég verð að segja að þegar fjárlagafrumvarpið er lesið með augum landsbyggðarkonu þá lítur það ekki vel út. Hér hefur verið farið yfir ýmislegt, m.a. að sóknaráætlanir eru þurrkaðar út eða svo gott sem. Byggðastofnun hafði sérstakt framlag til að styðja við brothættar byggðir upp á 50 milljónir og mig langar að spyrja ráðherrann með hvaða hætti hann sér fyrir sér framtíð þessara brothættu byggða, t.d. Raufarhafnar og Breiðdalsvíkur og fleiri slíkra byggða þar sem verkefni voru hafin til að styðja við jákvæða íbúaþróun.

Niðurgreiðsla til húshitunar er lækkuð um 75 milljónir eins og ráðherranum var bent á á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

Jöfnun námskostnaðar. Þar er dreifbýlisstyrkurinn skertur um 8,8 milljónir. Mig langar að vita hvort ráðherrann veit hvaða áhrif þetta hefur á hvern námsmann sem hefur fengið slíkan styrk.

Innanlandsflugið. Þar eru styrkir lækkaðir um 75 milljónir. Um er að ræða byggðir sem reiða sig oft og tíðum algerlega á þessa þjónustu yfir hávetrartímann þegar engin önnur leið er fær. Er ástæða til að endurskoða þetta að mati ráðherrans?

Í lokin: Telur ráðherrann þetta rétta tímann til að krefja Vegagerðina um rúmlega 1.250 millj. kr. af mörkuðum tekjum sínum til að greiða til baka — ég man ekki hvort það var kallað fyrir fram greiddar tekjur á sama tíma og verulegur samdráttur verður í almennum vegaframkvæmdum og viðhaldi?

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).