Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Húsaleigubætur til handa námsmönnum í stórum sveitarfélögum

14. október 2013 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Spurði Eygló húsnæðismálaráðherra út í húsaleigubætur í dag en ekki svaraði hún mér ásættanlega að mér fannst. http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20131014T151342

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs hér er niðurstaða úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og varðar réttinn til húsaleigubóta. Með tilkomu sameiningar sveitarfélaga, sem er oft og tíðum á mjög stórum og dreifðum svæðum, hafa aðstæður og réttindi fólks gagnvart lögum breyst. Í því tilfelli sem ég geri að umtalsefni varðar það málefni framhaldsskólanema sem býr í einu víðfeðmasta sveitarfélagi landsins, Fljótsdalshéraði.

Umræddur nemandi stundar nám við Menntaskólann á Egilsstöðum og býr á heimavist skólans. Hann deilir þar herbergi með félaga sínum frá Eskifirði. Frá heimili beggja þessara nemenda eru 50 kílómetrar en annar þeirra, þ.e. nemandinn frá Eskifirði, fær húsaleigubætur eða á rétt á þeim en herbergisfélaginn, nemandinn sem býr á Fljótsdalshéraði, á það ekki. Það álíta foreldrar hans brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ég tek undir það með þeim. Það er ekki hægt að eiga lögheimili á heimavist og það má ekki skipta um aðsetur innan lögheimilis sveitarfélags. Það að stunda nám í sínu sveitarfélagi þýðir ekki að kostnaður nemandans sé lægri og í svona tilfellum þyrfti nemandinn að aka í kringum 100 kílómetra á dag fyrir utan það að nemandinn sem er að hefja framhaldsskólanám strax eftir grunnskóla er ekki kominn með bílpróf.

Í 4. gr. laga um húsaleigubætur þar sem fjallað er um undanþágu segir, með leyfi forseta:

„Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst […]“ — þetta á til dæmis við þegar námsmenn utan af landi stunda nám á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta snýr að jafnrétti til náms og búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins. Athugasemdin snýr að þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað er varðar sameiningu sveitarfélaga og kerfið okkar hefur ekki fylgt eftir. Því langar mig að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún hyggist breyta 4. gr. laga um húsaleigubætur til að gæta jafnréttis þegar kemur að greiðslu húsaleigubóta, t.d. vegna námsmanna í víðfeðmum sameiginlegum sveitarfélögum, og þá hvenær?

Þetta er eitt af því sem skiptir þessa nemendur og foreldra þeirra mjög miklu máli og það er spurning hvort hægt er að lagfæra þennan lið án þess að taka lögin öll til heildarendurskoðunar. Ég bendi til dæmis á að nemandi í Grímsey sem stundar nám í Menntaskólanum á Akureyri eða Verkmenntaskólanum á Akureyri er innan sama sveitarfélags en hann fær þó ekki stuðning af þessu tagi. Ekki skýst hann heim, en nemandi frá Svalbarðseyri sem er í öðru sveitarfélagi og á styttra heim, fær þessa greiðslu.

Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að ekki hafi verið ætlunin að skilja eftir fámennan hóp dreifbýlisbarna þegar kemur að réttinum til húsaleigubóta. Ég skora á hæstv. ráðherra að bregðast við og kippa þessum lið í lag vegna þess að þetta skiptir máli núna, eins og vissulega svo margt annað. En ég held ekki að þetta sé flókin aðgerð, við þurfum ekki að bíða eftir öllum heildarlögunum.

 

Ég spyr því ráðherra aftur (Forseti hringir.) hvort hann sé tilbúinn að gera það.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).