Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Vonir og væntingar

25. september 2013 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Kjallari DV í dag.

Vonir og væntingar

Sumarþingið hófst með miklum væntingum um lausn nánast allra mála. Digurbarkaleg kosningabarátta Framsóknarmanna setti tóninn varðandi vonir landsmanna um betri tíð og blóm í haga. Í stefnuyfirlýsingu flokkanna og í stefnuræðu forsætisráðherra birtust tæplega vonir fyrir þá landsmenn sem ákváðu að fela þessum flokkum umboð sitt. Stóra kosningaloforðið í stefnuyfirlýsingu flokkanna getur varla orðið loðnara „Að öllum líkindum“ – „heldur þeim möguleikum opnum“ – „Æskilegt er“ og í aðgerðaráætlun sem ríkisstjórnin lagði svo fram „á að fjalla um undirbúning almennrar skuldalækkunar“ allt er þetta á sama grunni engar beinar tillögur og engar lausnir.
Ágætt er að rifja upp hvað núverandi forsætisráðherra sagði um stefnuræðu forvera síns s.l. haust; „Góðir Íslendingar. Ekkert fæst fyrir ekkert.“ Þessi gáfulegu ummæli, samrýmast tæplega því sem Framsóknarflokkurinn heldur stöðugt fram.

Heimsmet í aðgerðum

Sérfræðinefnd var nýlega skipuð um afnám verðtryggingar en slík nefnd var einnig skipuð af stjórnvöldum á síðasta kjörtímabili undir forystu núverandi félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur. Nefndin skilaði niðurstöðu og tillögur að lausnum voru settar fram. Af hverju á að fara aftur í slíka vinnu?
Loforð um heimsmet í stórkostlegum aðgerðum í skuldamálum heimilanna,, aðgerðum upp á mörg hundruð milljarða, án þess að útskýra hvernig á að gera það, hafa sett skulda- og lánamál heimilanna ásamt ríkisfjármálaáætluninni í fullkomið uppnám.
Eina „lausnin“ sem litið hefur dagsins ljós er að taka upp stefnu fyrri hægristjórnar og ráðast í orkufreka stóriðju. Stóriðju sem jafnvel álsinnar telja vafasama í ljósi breyttra aðstæðna á heimsmarkaði.

Tekjuskerðing – uppbygging

Tillögur ríkisstjórnarinnar sem fram hafa komið um áframhaldandi öflugt markaðsstarf og kröftuga uppbyggingu á helstu ferðamannastöðum landsins. virka afar ótrúverðugar þegar fyrstu skref hennar á sumarþinginu voru að skerða tekjur ríkissjóðs um nær 18 – 19 milljarða.

Ánægjulegt er að ekki standi til að hrófla við strandveiðikerfinu né öðrum byggðatengdum aðgerðum sem fyrir eru í lögum um stjórn fiskveiða. Á sumarþinginu kom hins vegar skýrt fram hvernig fara á með veiðigjaldið og hugmyndafræðina á bak við það. Þverpólitískt samráð er ekki í boði skv. svörum sjávarútvegsráðherra. Það er ljóst að sátt um auðlindirnar næst ekki fyrr en eignarhaldið verður skýrt í stjórnarskrá en núverandi stjórnarflokkar lögðust af alefli gegn því á síðasta þingi.

Tvískinnungur

Hvað heilbrigðismál varðar kemur það undarlega fyrir sjónir að þeir flokkar sem í bullandi góðæri skrúfuðu fyrir fjárframlög til endurnýjunar á tækjakosti og höfðu sömuleiðis hátt um hve mikið þeir ætluðu sér að gera fyrir heilbrigðiskerfið skuli nú boða 1,5% flatan niðurskurð. Flatan niðurskurð á málaflokk sem þeir sjálfir sögðu ekki þola meiri niðurskurð.
Nema þeir séu að tala um meiri einkarekstur.
Ástæða þess að heilsugæslan var moluð niður var vegna þess að opnað var fyrir beina leið frá sjúklingi til sérfræðings, án viðkomu á heilsugæslunni, í ráðherratíð Framsóknar í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég get heldur ekki orða bundist þegar boðuð er úttekt á starfsumhverfi skapandi greina. Það liggur fyrir afar ítarleg úttekt, fullunnin og frambærileg skýrsla frá því í október á síðasta ári. Hana má nálgast á vef menntamálaráðuneytisins. Það hlýtur að mega notast við það sem þar kemur fram.
Í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna er talað um „framtíðarsýn og mótun menntastefnu“ og ekki nema von að maður spyrji sig hvers vegna en gerðar voru nýjar aðalámskrár fyrir öll skólastig á síðasta kjörtímabili. Áhugavert verður að sjá tillögur menntamálaráðherra vegna styttingar náms á háskólastiginu hvort hún á að byrja í leikskólanum, grunnskólanum eða framhaldsskólanum?

Málefnaleg stjórnarandstaða

Við Vinstri græn munum veita harða en málefnalega stjórnarandstöðu. Okkar markmið er engan veginn það að draga þingið niður eins og gert var hér s.l. 4 ár. Við munum hins vegar taka fast á hægri hugmyndafræðinni sem boðuð hefur verið m.a. í velferðarmálum og umhverfis- og skattamálum en að sama skapi standa með þeim góðum málum sem falla að stefnu okkar.

Posted in Óflokkað


(lokað er fyrir ritun ummæla).