Bjarkey - hugsar upphátt

- Því skemmtilegra sem þér finnst lífið, þeim mun meiri gleði muntu finna í því -

Að lokinni kjördæmaviku

17. febrúar 2018 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Tvisvar á ári eru svokallaðar kjördæmavikur þar sem þingmenn gera víðreyst um sín kjördæmi. Við höfum haft þann háttinn á þingmenn Norðausturkjördæmis að ferðast saman aðra þessa viku þar sem við hittum ýmsa aðila. Það var engin breyting á nú og byrjuðum við eldsnemma á mánudagsmorgun á Egilsstöðum þar sem við hittum fulltrúa framhaldsskólanna, Lunga og Austurbrúar sem og fulltrúa Menningarmiðstöðva Austurlands, Gunnarsstofnunar, Breiðdalsseturs og Miðstöðvar menningarfræða á Seyðisfirði.

Þar á eftir komu svo fulltrúar heilbrigðisstofnunar Austurlands, og heilbrigðiseftilits og fulltrúar Náttúrustofu Austurlands.
Þá var komið að stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og fulltrúar allra sveitarfélaga á Austurlandi fylgdu svo í kjölfarið.

Þessir fundir eru ævinlega skemmtilegir og gott veganesti fyrir okkur þingmenn í þeim störfum sem framundan eru.

Skemmtilegast þennan daginn var þó að vera viðstödd styrkúthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands sem haldin var í Sköpunarmiðstöðinni Stöðvarfirði. Þvílíkt kraftaverk sem þar hefur verið unnið en nú er t.d. verið að byggja afar fullkomið og einstakt hljóðver. Alveg ástæða fyrir fólk að líta þar við þegar það á leið um Austurland.

Síðasti fundur dagsins - kvöldsins var íbúafundur á Fáskrúðsfirði í Skrúð en þar var tekist á um laxeldi í firðinum. Óhætt að segja að umræður hafi verið hressandi enda fullt félagsheimilið.

Þar sem veðrið var nú ekki árennilegt var ákveðið að bruna í Mývatnssveit og var hópurinn allur kominn í hús rétt undir miðnætti svo þessi dagur var langur en skemmtilegur.

Það var dýrðlegt að vakna að morgni þriðjudags í blíðskaparveðri þar sem Mývatnssveit skartaði sínu fegursta í snjó og sólskini. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps kom til fundar við okkur þar sem kom fram að nú hillir í lausnir hvað varðar frárennslismál í hreppnum með mun einfaldari og ódýrari lausnum en upphaflega hafði staðið til að fara í. Fulltrúi markaðsskrifstofu Norðurlands kom einnig og fór yfir hin ýmsu mál er varða flugið og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem og annað sem er að gerast á svæðinu.

Þá var brunað á Húsavík þar sem við komum við á Bakka og héldum svo til fundar við fulltrúa sveitarstjórna Norðurþings, og nálægra byggðalaga um málefni sveitarfélaganna og landshlutans.

Í lok þessa dags brunaði mannskapurinn til Akureyrar og gisti þar.

Á Akureyri hittum við fulltrúa Vaðlaheiðargangna, lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands,
sjúkrahússins á Akureyri og Háskólans. Að því loknu komu fulltrúar sveitarstjórna á Eyjafjarðarsvæðinu og ræddu málefni sveitarfélaganna og landshlutans.

Stóru línurnar eru samgöngumálin enda forsenda þess að hægt sé að byggja upp aðra þjónustu, hvort heldur heilbrigðisþjónustu, skóla eða hvað annað. Raforkumálin voru einnig ofarlega á baugi sem og skipulagsmál sveitarfélaganna.

Þar með lauk okkar sameiginlegu dagskrá en við Steingrímur nýttum svo kvöldið og fimmtudaginn til fundarhalda og heimsókna m.a. til Skógræktarinnar á Akureyri en skógræktin gegnir mikilvægu hlutverki í því að kolefnisjafna landið okkar.

Föstudaginn nýtti ég svo í heimabyggð sem var afskaplega gott - ekki síst var gott að hefja daginn á góðu hlaupi í afbragðsgóðu veðri og anda að sér sjávarilminum. Undirbúningur næstu viku fékk líka sitt pláss eins og vera ber.

Helgarrest verður svo notið með fjölskyldunni.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Nýgengi örorku ungs fólks - hvað er til ráða?

7. febrúar 2018 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Nýgengi örorku hjá ungu fólki er gríðarleg. Ríflega helmingur þeirra sem fengu 75% örorkumat á síðasta ári glímir við geðraskanir. Staða okkar er töluvert lakari en í samanburðarlöndum og við þurfum að staldra við og spyrja okkur hverjar orsakirnar séu.

Í nýjasta Læknablaðinu kemur fram að tæplega 13% aukning er á ávísun metýlfenídat-lyfja og nýir notendur um 3.200. Það er tæplega 78% aukning á fimm ára tímabili. Í nýrri BS-rannsókn við Háskóla Íslands kemur fram að tæp 7% framhaldsnema við skólann hafa misnotað örvandi lyfseðilsskyld lyf og 13% nemenda í grunnnámi.

Það er að mínu mati of lítið rætt um ástæður og samspil fíkniefna- og lyfjanotkunar og geðheilbrigðis. En hvað er til ráða? Við þurfum að grafast fyrir um orsakir og undirliggjandi þætti þess að svo margt ungt fólk glímir við geðraskanir og við þurfum líka að skoða öll úrræði frá grunni. Eitt af þeim úrræðum sem við höfum er Virk en þar höfum við séð mikinn árangur, bæði fjárhagslegan og samfélagslegan, sem hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði, við virka atvinnuleit eða að fólk hefur farið í lánshæft nám og þannig öðlast nýtt tækifæri til samfélagsþátttöku.

Nýr heilbrigðisráðherra hefur lagt áherslu á að auka geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk og reyna að stemma stigu við þeirri þróun. Auknir fjármunir voru settir í fjárlög þessa árs, bæði til heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa sem og BUGL. Ætlunin er að fjölga sálfræðingum og þverfaglegum geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar og auka aðgengi fólks að hugrænni atferlismeðferð.

Mikilvægast í mínum huga er að ná utan um orsakir nýgengis örorku hjá ungu fólki og ekki síst þau úrræði sem við brúkum því að augljóslega er pottur brotinn í því öllu saman, annars stæðum við ekki í þessum sporum. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða í þeim efnum

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Endurgeiðsla gleraugna fyrir börn

26. janúar 2018 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Langt er um liðið frá því ég skrifaði hér en hyggst nú bæta úr.

Á miðvikudag lagði ég fram, í þriðja sinn, frumvarp um breytingu á lögum er varða endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa barna.

Um er að ræða aukna endurgreiðslu til yngri barna og barna sem verða að fá gleraugu vegna sjúkdóms. Það er þannig að sjón fámenns hóps barna þroskast ekki eðilega nema þau noti gleraugu. Þessi gleraugu eru gjarna dýr og börn þurfa
til þess að öðlast eðlilega sjón og í þessum tilvikum eru gleraugun í rauninni hluti læknismeðferðar en ekki hjálpartæki. Þetta á einkum við um ung börn, þ.e. börn á aldrinum 4 til 8 ára eða svo.

En svo er það nú þannig að ung börn þurfa oft að endurnýja gleraugu þar sem þau skemmast eða sjónbreytingar eru örar.

Annar liður er svo sá að endurgreiðsla hefur ekki verið uppfærð frá því árið 2005 og það eitt og sér er alveg ótækt.

Ég vona svo sannarlega að velferðarnefnd afgreiði málið hratt og örugglega þar sem það hefur áður fengið jákvæða umfjöllun og umsagnir í velferðarnefnd. Ég mun fylgja málinu eftir bæði við nefndina og ráðherra.

Hér er að finna ræðu mína um málið.
http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20180124T185356

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Erfitt en gerlegt

20. nóvember 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Staða okkar Vinstri grænna er vægast sagt flókin og erfið þessa dagana. Ég eins og margir félagar hef átt í innri togstreitu vegna þess samtals sem nú á sér stað. Ég á þá reynslu að hafa prófað flókna samsetningu í pólitísku samstarfi í sveitastjórn. Það var ekki auðvelt, ekki alltaf gott en kallaði á málamiðlanir en líka það að við þurftum ekki alltaf að vera sammála.

Ef færi reynist að við VG getum stöðvað einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu er til mikils unnið. Ef við getum þokað okkar VG málefnum áfram, sem ég ætla ekki að tíunda hér, þá tel ég til mikils unnið.

Enginn flokkur eða stefna vann og okkar í pólitíkinni er að vinna úr því.

Ég ræddi þessi mál við þá í síðdegisútvarpi Bylgjunnar þið sem viljið heyra hvað ég hafði að segja þá byrjar viðtalið á
mín. 1.29

Slóðin er hér. http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=SRCCC5B199F-35A6-4EBC-AE4A-E0324CC0837C

Svo vil ég benda ykkur á Silfrið sem mér þótti opinbera það að sú sýn sem sumir hafa á fimm eða sex flokka stjórn er fjarlægari en ég hefði viljað.

Brjóta niður kerfi - draga úr afskiptum ríkisvaldsins - hvað þýðir það?

Þetta voru orð Hönnu Katrínar í Silfrinu og Þorsteinn hefur verið á svipuðum nótum í þeim þáttum sem hann hefur komið fram í.

Við Vinstri græn viljum viljum sannarlega auka afskipti ríkisvaldsins t.d. í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum svo fátt eitt sé nefnt.

Þeir sem ekki sáu Silfrið geta nýtt sér slóðina hér að neðan.

http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/silfrid/20171120

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Að loknum kosningum

30. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ég sótti um vinnu hjá þjóðinni á laugardaginn í þriðja sinn á 5 árum. Það hefur tekið á en er samt ótrúlega skemmtilegt. Hafandi starfað sem kennari og náms- og starfsráðgjafi þá þekki ég það að vera í vinnu hjá fólki og fyrir fólk. Að finna að ég geri gagn, hvort heldur er fyrir nemendur og foreldra eða almennt fyrir þjóðina þá er ég þakklát fyrir tækifærið.

Mér þykir afar skemmtilegt að tala við fólk og í þessari kosningabaráttu sem að baki er þá bætti ég mikið í reynslubankann. Það var sérstaklega ánægjulegt að ganga í hús og spjalla við fólk sem tók alltaf vel á móti okkur.

Svo voru það allir fundirnir en við heimsóttum hvern einasta stað í kjördæminu okkar frá Siglufirði til Djúpavogs og tókum fólk tali.

Því er hins vegar ekki að neita að kosningabaráttan tók á sig ljóta mynd með hálfgerðum Trump-isma þar sem afar hart var sótt að okkur í VG. Við tókum þá ákvörðun að fara ekki á slíkt plan og við fundum að fólk virti það við okkur.

Það má vel vera að þessi aðferð hafi kostað okkur einhver prósent en við erum sátt í hjartanu eftir að hafa háð heiðarlega baráttu og rætt um málefni og stefnu okkar en einblína ekki á hvað aðrir flokkar hafa gert eða ætla að gera.

En nú þegar niðurstaðan liggur fyrir vona ég að okkur takist að mynda góða félagshyggjustjórn fyrir fólkið í landinu. Það leiða næstu dagar í ljós.

Takk fyrir mig allir þeir sem lögðu á sig ómælda vinnu til stuðnings okkur í VG og að sjálfsögðu þið sem okkur kusuð. Við munum gera betur.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Stefna í þágu landsbyggðanna

29. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Mótun og framfylgd byggðastefnu sem í senn miðar að því að tryggja íbúum landsbyggðanna réttmæta hlutdeild í velferðarþjónustu samfélagsins og stuðla að traustri búsetu er meðal mikilvægustu viðfangsefna stjórnmálanna. Vinstri græn vilja stuðla að byggð um allt land á forsendum sjálfbærni og virðingar fyrir fólki og umhverfi. Völ er á ýmsum úrræðum til að styrkja byggðir landsins en áður en þeim er beitt er mikilvægt að vita hvar skóinn kreppir.

Íbúum í dreifbýli hefur fækkað á undanförnum áratugum og þéttbýlisbúum fjölgað. En staðreyndin er að Ísland er strjálbýlt land og byggð á stórum svæðum í landinu einkennist af fámennum samfélögum og löngum vegalengdum milli byggðra bóla og opinber stefna þarf að miðast við það í öllu tilliti.

Hvað viljum við og hvað gerum við?

Vinstri græn vilja stuðla að góðu gengi landsbyggðanna. Við viljum einfaldlega að landið haldist í byggð. Við viljum nýta mannauð landsbyggðanna og þá þekkingu sem landsbyggðarfólk býr yfir til heilla fyrir íslenskt samfélag og við viljum nýta náttúruauðlindirnar á sjálfbæran hátt þannig að umhverfinu sé hlíft og bæði einstaklingar og samfélag hljóti sanngjarnan skerf.

Það bíður okkar að hrinda í framkvæmd byggðastefnu þar sem sú staðreynd að Ísland er víðáttumikið og strjálbýlt land nýtur fullrar viðurkenningar. Stefnumörkun í samgöngumálum, – ekki síst hvað almenningssamgöngur snertir, – þarf að miðast við þetta og einnig skipulag heilbrigðis- og menntamála. Byggðastefna okkar nær til alls landsins, – einnig þéttbýlisins við Faxaflóa. Ekkert byggðarlag er öðru æðra. Við byggjum landið saman og höfum þörf fyrir hvert annað í efnahagslegu og félagslegu tilliti.

Við erum konur, karlar, börn, ungmenni, innfæddir Íslendingar og aðflutt. Sum hinna aðfluttu dvelja hér langan aldur og gera landið og samfélagið að sínum heimahögum en aðrir standa skemur við. Okkur ber að gæta þess að allir fái tækifæri til að láta til sína taka og gott af sér leiða án tillits til kyns eða uppruna. Í byggðastefnu okkar er gengist við því að við erum ekki öll nákvæmlega eins eða með sama bakgrunn en lögð áhersla á mikilvægi allra og hið óendanlega mikilvæga jafnrétti sem er grunnforsenda góðs samfélags.

Grettistak þarf í húsnæðismálum

Byggðastefna er ávallt mikilvægur farvegur stjórnmálanna til að færa fram þau mál sem eru brýn fyrir þróun og framvindu samfélagsins í heild og einstakra byggða. Nú brenna húsnæðismál víða á landsbyggðarfólki, líkt og í höfuðborginni. Of lítið er um nýbyggingar á úti um land og húsnæðisskortur hamlar sums staðar eðlilegum vexti. Viðbrögð við þessu hljóta að vera á verkefni stjórnmálanna og ljóst er að ekki ræður markaðskerfið við ástandið. Við Vinstri græn bendum á félagsleg úrræði svo sem byggingu leiguhúsnæðis sem fjármagnað er með atbeina hins opinbera sem lausn á vandanum og þar gegnir Íbúðalánasjóður mikilvægu hlutverki.

Atvinnulíf á okkar tímum er margbrotið og tekur örum breytingum. Öflugar grunnrannsóknir eru meðal styrkustu stoða nútíma atvinnulífs og menntun og símenntun er mikilvæg. Ekki síður á landsbyggðunum en annars staðar. Rannsóknir og menntun hljóta því að skipa veglegan sess í byggðastefnu og byggðaráðstöfunum.

Ef þú vilt raunverulega breytingu á stjórnarháttum þá kýstu Vinstri græn – gerum betur.
Birtist fyrst í Austurglugganum.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Sprengisandur - smá samantekt

23. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Fyrir ykkur sem ekki eruð á fésbókinni þá er hér svolítil samantekt frá Katrínu Jakobsdóttur eftir samtal þeirra Bjarna Ben á Sprengisandi í gær.

Við Bjarni Benediktsson hittumst á Sprengisandi hjá Kristjáni Kristjánssyni í morgun. Ég lagði þar áherslu á stefnu okkar Vinstri-grænna um að það sé tími til kominn að við náum samstöðu um uppbyggingu samfélagslegra innviða. Það er kominn tími til að við sameinumst um að forgangsraða í þágu opinbera heilbrigðiskerfisins, forgangsraða í þágu menntunar þar sem við erum því miður eftirbátar þeirra landa sem við berum okkur saman við þegar kemur að fjármögnun og forgangsraða í þágu velferðar, m.a. með því að tryggja kjör aldraðra og öryrkja, auka framboð á húsnæðismarkaði, styðja við barnafjölskyldur og nýta efnahagslegan uppgang þannig að hann skili sér til fólksins í landinu. Ég lagði líka áherslu á breytt stjórnmál þar sem fólk leggur sig fram um að skapa samstöðu um langtímasýn fyrir Ísland. Hér eru nefnilega mikil tækifæri og það skiptir máli að við gerum öllum kleift að nýta þau tækifæri.

Ég fór líka yfir það hvernig við viljum styrkja tekjugrunn ríkissjóðs með því að afla nýrra eigna- og skattatekna upp á ríflega 50 milljarða. Rúmur helmingur af því eru eignatekjur, þar á meðal auknar arðgreiðslur úr ríkisbönkunum og Landsvirkjun sem hægt væri að nýta í niðurgreiðslu skulda og eins skiptis aðgerðir. Við teljum að hægt sé að beita sér mun betur gegn skattaundanskotum og skattsvikum sem áætlað hefur verið að nemi tugum milljarða. Við viljum sjá sanngjörn afkomutengd auðlindagjöld í sjávarútvegi þannig að almenningur njóti arðsins af hinni sameiginlegu auðlind. Síðan höfum við lagt á borðið hugmyndir um auknar álögur á háar fjármagnstekjur og taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt, 1% auðlegðarskatt á hreina eign yfir 200 milljónum, hátekjuþrep á ofurtekjur og komugjöld á farseðla. Sömuleiðis höfum við viljað halda áfram að lækka tryggingagjald sem gagnast ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Þessar tillögur ríma vel við þær áherslur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt fram og okkur finnst mikilvægt að eiga samráð um skattabreytingar og tryggja þannig aukna sátt og pólitískan stöðugleika til lengri tíma. Við erum ekki spennt fyrir þeim vinnubrögðum að demba 18 milljarða skattahækkun á stærstu útflutningsgrein landsins í fullkomnu ósætti við greinina, leggja vegatolla á þá sem þurfa að fara um vegina eða að hækka skatt á mat sem leggst þyngst á lág- og millitekjuhópa.

Við ætlum nefnilega ekki að hækka skatta á almennt launafólk. Við ætlum að ráðast í þá uppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum og innviðum sem fólkið í landinu kallar eftir. Það er ekki hægt að skjóta kostnaðinum við það að vanrækja þessa innviði inn í framtíðina. Við ætlum að ráðast í þessa uppbyggingu með ábyrgum hætti og með langtímasýn að leiðarljósi. Við ætlum að skilja offorsið eftir heima og vinna öðruvísi. Og við ætlum ekki að eyða þessari kosningabaráttu í að tala um Sjálfstæðisflokkinn og fylgihnetti hans. Þau geta hins vegar alveg haldið áfram að tala um okkur ef þau vilja enda liggur þeirra stefna fyrir í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi. Og það er ekki sóknarbolti fyrir Ísland.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Nýr veruleiki á vinnumarkaði

22. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Íslenska hag­kerfið lýtur lög­málum mark­að­ar­ins og við­skipti með vinnu­afl eru þar engin und­an­tekn­ing. Atvinnu­rek­endur eru þar í hlut­verki kaup­anda en launa­fólk í hlut­verki selj­enda og mark­aðs­öflin – fram­boð og eft­ir­spurn – ráða ferð­inni í stórum drátt­um. Vissu­lega er vinnu­mark­að­ur­inn þó miklu flókn­ari en þessi ein­fald­aða mynd gefur til kynna og hann tekur stöð­ugum breyt­ingum eins og rætt verður nánar í þess­ari grein.

Tímar hnatt­væð­ingar og hrað­fara tækni­breyt­inga

Hnatt­væð­ing og tækni­breyt­ingar eru nátengd fyr­ir­bæri og gætu ekki án hins ver­ið. Tækni­þróun í fjar­skiptum og sam­göngum er for­senda hnatt­væð­ingar sem meðal ann­ars birt­ist í breyttum fram­leiðslu­háttum og sem lýsir sér í því að neyslu­varn­ingur er gjarnan fram­leiddur í löndum þar sem launa­kostn­aður og annar til­kostn­aður er til muna lægri en þar sem varn­ing­ur­inn er seldur og not­aður og minni kröfur gerðar um vinnu- og umhverf­is­vernd. Hnatt­væð­ingin birt­ist á margan hátt og hefur marg­þætt áhrif, sum til hins betra en önnur mjög til hins verra.

Hnatt­væð­ingin er neyslu­hvetj­andi og ein­kenn­ist af miklum flutn­ingum á hrá­efni og vörum milli heims­hluta. Hvor­ugt er hollt umhverf­inu. Enn fremur getur hnatt­væð­ing orðið til þess að rýra kjör launa­fólks og stuðla að ýmiss konar mis­neyt­ingu, svo sem launa­stuldi og man­sali.

Alþjóð­leg fjár­mála­staf­semi er einnig hluti hnatt­væð­ing­ar­innar og í skjóli hennar geta und­an­skot og svik­sam­legt athæfi þrif­ist eins og dæmin sanna. Mis­skipt­ing blasir við hvar­vetna í heim­in­um, fer vax­andi með fram­gangi kap­ít­al­ism­ans og mark­aðs­hyggj­unnar og ber hvor­ugu gott vitni.

Örar tækni­breyt­ingar valda hröðum breyt­ingum á vinnu­mark­aði. Sjálf­virkni eykst og störf sem áður þurfti mik­inn mann­afla til að sinna eru nú unnin af vél­um. Þessi þróun er að sjálf­sögðu jafn­gömul iðn­bylt­ing­unni og kemur ekki á óvart en mik­ill hraði er á breyt­ing­unum um þessar mundir og meiri en oft áður.

Vinnu­mark­aðs­breyt­ingar og ber­skjald­aðir hópar

Þensla hefur ríkt á vinnu­mark­aði hér­lendis á und­an­förnum árum. Atvinnu­leysis hefur ekki gætt að neinu ráði en fjöldi fram­leiðslu­starfa hefur horfið til ann­arra landa eða eru unnin af vélum í stað fólks og vél­arnar hafa einnig útrýmt mörgum þjón­ustu­störfum sem áður þóttu trygg, svo sem í banka­geir­an­um.

Tengsl ein­stak­ling­anna við vinnu­mark­að­inn hafa breyst í mörgum til­vikum og hið þrí­þætta skipu­lag sem ein­kennir nor­rænan vinnu­markað þar sem sam­tök atvinnu­rek­enda og launa­fólks og rík­is­valdið ráða kjara­málum til lykta í sam­ein­ingu stendur veik­ara nú en oft áður gagn­vart und­ir­boð­um.

Hluti launa­fólks á Vest­ur­löndum hefur reynst ber­skjald­aður gagn­vart þeim vinnu­mark­aðs­breyt­ingum sem átt hafa sér stað og þessa gætir einnig hér á landi. Fólk missir störf sem það hafði gengt og á í sumum til­vikum ekki kost á öðrum eða þá aðeins tíma­bundnum störf­um. Hin ber­skjöld­uðu eru langt frá því eins­leitur hóp­ur; þar er fólk á öllum aldri og með ólíkan bak­grunn, menntun og starfs­reynslu. Fólk sem býr við lítið starfs­ör­yggi og ótryggar tekj­ur, hefur gjarnan litla trú á sam­fé­lagi sínu og getur hneigst til fylgni við ein­faldar og jafn­vel öfga­kenndar hug­myndir í von um að bæta hag sinn sem sjaldn­ast gengur þó eft­ir. Eru kosn­inga­lof­orð núver­andi for­seta Banda­ríkj­anna um að end­ur­reisa vinnu­markað þar í þeirri mynd sem hann var um miðja síð­ustu öld þegar verk­smiðju­störf voru mörg og hag­vöxtur ör stundum tekin sem dæmi um skrum sem ætlað er að höfða til þessa hóps.

Hvað með vel­ferð og verka­lýðs­fé­lög?

Engar leiðir sem farnar hafa verið hingað til hafa reynst hald­betri eða árang­urs­rík­ari til að bæta kjör almenn­ings heldur en vel­ferð­ar­sam­fé­lagið og kjara­bar­átta öfl­ugra verka­lýðs­fé­laga. Styrk staða kjara­samn­inga sem gerðir eru af aðilum vinnu­mark­að­ar­ins er afger­andi fyrir kjör og stöðu launa­fólks. Hvorki vel­ferð­ar­hug­sjónin né verka­lýðs­fé­lögin eru úrelt né aðferðir þeirra hald­lausar til að takast á við áskor­anir sam­tím­ans. Þvert á móti er ástæða til að styrkja og efla þessa þætti í íslensku sam­fé­lagi gegn háska­legum fylgi­fiskum hnatt­væð­ingar og mark­aðs­skipu­lags á borð við mansal, mis­notkun á vinnu­afli og félags­leg und­ir­boð. Og það er auð­vitað ávallt verk­efni vel­ferð­ar- og verka­lýðs­sinna að stuðla að því að fólk hljóti þannig laun fyrir vinnu sína að þau dugi til sóma­sam­legrar fram­færslu og að almenn­ingur njóti allra kosta vel­ferð­ar­innar án til­lits til búsetu. Vinstri­hreyf­ingin – grænt fram­boð vinnur að því. Gerum bet­ur.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 20. október

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Fjárfesting í menntun – gerum betur

19. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Skólar á öllum stigum, allsstaðar á landinu, hafa um of langt skeið verið undirfjármagnaðir á Íslandi þrátt fyrir batnandi efnahagsástand undanfarinna ára. Þetta er alvarleg staða. Ef við fjárfestum ekki í menntun munum við eiga í miklum vandræðum með að takast á við áskoranir framtíðarinnar og við munum dragast aftur úr öðrum þjóðum þegar vísinda- og tæknibyltingin ríður yfir af enn meiri þunga en við höfum áður þekkt.

Langt undir meðaltali þróaðra ríkja

Miðað við þær áherslur sem fráfarandi ríkisstjórn hefur sýnt í menntamálum kom auðvitað ekkert á óvart þegar fjárlög voru lögð fram að bæði framhaldsskólarnir og háskólarnir bera skertan hlut frá borði. Því hafði verið lofað þegar framhaldsskólinn var styttur að það hefði ekki áhrif á fjárframlögin en annað hefur nú komið á daginn. Aðhald og niðurskurður uppá 1,5 milljarð króna verður til þess að margir skólar geta ekki endurnýjað tækjabúnað eða hlúð að skólastarfinu svo vel sé.

Sama má segja um háskólana sem hafa þurft að draga saman seglin og er nú svo komið að útgjöld til háskólanna eru langt undir meðaltali þróaðra ríkja. Þessu verðum við að breyta og við Vinstri græn leggjum áherslu á að fylgja stefnu Vísinda- og tækniráðs um framlög vegna háskólanna.

Nám í takt við tímann

Mikilvægur liður í því að bæta menntakerfið og samfélagið í heild er að efla menntun í heimabyggð. Það er bæði mikilvægt fyrir unga fólkið en líka fyrir þá sem vilja bæta við sig á fullorðins árum. Við Vinstri græn leggjum mikla áherslu á fjölbreytt nám um allt land, bóklegt, verklegt, listnám sem og fjarnám óháð aldri og efnahag. Ef við viljum að ungt fólk búi heima sem lengst og/eða flytji aftur heim þá þurfum við að byggja upp nám sem skapar atvinnu sem ungt fólk í dag hefur áhuga á, nám í takt við tímann. Ný námskrá gefur aukin tækifæri fyrir skóla til að bregðast við þessu.

Grafalvarleg staða leik- og grunnskóla

Ekki er hægt að ljúka umræðu um menntamál án þess að nefna þá grafalvarlegu stöðu sem leik- og grunnskólar standa frammi fyrir. Það þarf samhent átak sem hvetur fólk til að sækja sér menntun og starfa við kennslu, til dæmis með því að efla faglegt sjálfstæði kennara og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum en um leið þarf að tryggja fjármuni til hennar.

Það er ánægjuefni að sveitarfélög séu í auknum mæli farin að bjóða börnum í grunnskóla upp á frí námsgögn. Grunnmenntun á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og ekki á að gera upp á milli barna eftir efnahag. Meiri jöfnuður er ein besta leiðin til að auka velsæld og hamingju í samfélaginu sem við hljótum öll að vilja fyrir afkomendur okkar. Forgangsröðunin skiptir máli og það tækifæri er til breytinga í næstu kosningum.

Birtist fyrst í Austurlandi.

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

Dagur í lífi frambjóðenda

14. október 2017 | Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Þetta eru nú skemmtilegir dagar þó oft séu þeir langir. Mér þykir óskaplega gaman að hitta fólk og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar eins og gjarnan er sagt.

Ég byrjaði daginn heima í Ólafsfirði tók strætó til Akureyrar þar sem við Berglind Häsler, kosningastýra og frambjóðandi, hittumst á Berlín og fengum okkur gott í gogginn. Mæli með þessum stað allan daginn. Sóttum Steingrím og héldum af stað austur á land. Fyrsta stopp hjá Ragga og Ásdísi á Hótel Seli þar sem kosningastýran gerði og græjaði og vertarnir buðu uppá kaffi og súkkulaði sem var vel þegið.

Næsta stopp var á Egilsstöðum þar sem við snæddum léttan hádegisverð á Gistihúsinu áður en við renndum á Reyðafjörð til að grípa 3ja sætis Ingibjörgu.

Kíktum í búðina á Stöðvafirði þar sem við hittum heldur betur hressar konur og að sjálfsögðu keypti ég mér kerti - geri það alltaf. :-)
Næsta stopp var á Breiðdalsvík en þar héldum við fínan fund og óhætt að segja að ýmis mál hafi borið á góma. Strandveiðar, byggðakvóti, samgöngur, frítekjumark og svo allt hitt. Við gerðum okkar besta til að svara og deila hugsjónum og hugmyndum okkar Vinstri grænna.

Næst var svo haldið á Djúpavog þar sem kúturinn var fylltur á veitingastaðnum Við Voginn og þaðan fórum við á Hótel Framtíð þar sem óhætt er að segja að fundurinn hafi verið líflegur og allt öðru vísi en sá fyrri. Lífeyrismál, samgöngur, menntamál, fiskeldi og margt fleira bar á góma.

Eins og gjarnan gerist teygðist úr fundinum og við seint á ferð en sátt við dagsverkið.

Á morgun ætlum við að heimsækja Seyðisfjörð og Borgafjörð eystri.

Þangað til ….

Posted in Óflokkað | Engin ummæli »

« Fyrri færslur