Að lokinni kjördæmaviku
Tvisvar á ári eru svokallaðar kjördæmavikur þar sem þingmenn gera víðreyst um sín kjördæmi. Við höfum haft þann háttinn á þingmenn Norðausturkjördæmis að ferðast saman aðra þessa viku þar sem við hittum ýmsa aðila. Það var engin breyting á nú og byrjuðum við eldsnemma á mánudagsmorgun á Egilsstöðum þar sem við hittum fulltrúa framhaldsskólanna, Lunga og Austurbrúar sem og fulltrúa Menningarmiðstöðva Austurlands, Gunnarsstofnunar, Breiðdalsseturs og Miðstöðvar menningarfræða á Seyðisfirði.
Þar á eftir komu svo fulltrúar heilbrigðisstofnunar Austurlands, og heilbrigðiseftilits og fulltrúar Náttúrustofu Austurlands.
Þá var komið að stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og fulltrúar allra sveitarfélaga á Austurlandi fylgdu svo í kjölfarið.
Þessir fundir eru ævinlega skemmtilegir og gott veganesti fyrir okkur þingmenn í þeim störfum sem framundan eru.
Skemmtilegast þennan daginn var þó að vera viðstödd styrkúthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands sem haldin var í Sköpunarmiðstöðinni Stöðvarfirði. Þvílíkt kraftaverk sem þar hefur verið unnið en nú er t.d. verið að byggja afar fullkomið og einstakt hljóðver. Alveg ástæða fyrir fólk að líta þar við þegar það á leið um Austurland.
Síðasti fundur dagsins - kvöldsins var íbúafundur á Fáskrúðsfirði í Skrúð en þar var tekist á um laxeldi í firðinum. Óhætt að segja að umræður hafi verið hressandi enda fullt félagsheimilið.
Þar sem veðrið var nú ekki árennilegt var ákveðið að bruna í Mývatnssveit og var hópurinn allur kominn í hús rétt undir miðnætti svo þessi dagur var langur en skemmtilegur.
Það var dýrðlegt að vakna að morgni þriðjudags í blíðskaparveðri þar sem Mývatnssveit skartaði sínu fegursta í snjó og sólskini. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps kom til fundar við okkur þar sem kom fram að nú hillir í lausnir hvað varðar frárennslismál í hreppnum með mun einfaldari og ódýrari lausnum en upphaflega hafði staðið til að fara í. Fulltrúi markaðsskrifstofu Norðurlands kom einnig og fór yfir hin ýmsu mál er varða flugið og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem og annað sem er að gerast á svæðinu.
Þá var brunað á Húsavík þar sem við komum við á Bakka og héldum svo til fundar við fulltrúa sveitarstjórna Norðurþings, og nálægra byggðalaga um málefni sveitarfélaganna og landshlutans.
Í lok þessa dags brunaði mannskapurinn til Akureyrar og gisti þar.
Á Akureyri hittum við fulltrúa Vaðlaheiðargangna, lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands,
sjúkrahússins á Akureyri og Háskólans. Að því loknu komu fulltrúar sveitarstjórna á Eyjafjarðarsvæðinu og ræddu málefni sveitarfélaganna og landshlutans.
Stóru línurnar eru samgöngumálin enda forsenda þess að hægt sé að byggja upp aðra þjónustu, hvort heldur heilbrigðisþjónustu, skóla eða hvað annað. Raforkumálin voru einnig ofarlega á baugi sem og skipulagsmál sveitarfélaganna.
Þar með lauk okkar sameiginlegu dagskrá en við Steingrímur nýttum svo kvöldið og fimmtudaginn til fundarhalda og heimsókna m.a. til Skógræktarinnar á Akureyri en skógræktin gegnir mikilvægu hlutverki í því að kolefnisjafna landið okkar.
Föstudaginn nýtti ég svo í heimabyggð sem var afskaplega gott - ekki síst var gott að hefja daginn á góðu hlaupi í afbragðsgóðu veðri og anda að sér sjávarilminum. Undirbúningur næstu viku fékk líka sitt pláss eins og vera ber.
Helgarrest verður svo notið með fjölskyldunni.
Posted in Óflokkað | Engin ummæli »